Fjármagn Icelandair hyggst safna 20 milljörðum í nýju hlutafé í næstu viku.
Fjármagn Icelandair hyggst safna 20 milljörðum í nýju hlutafé í næstu viku. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Engin ákvörðun hefur verið tekin hjá stærsta eiganda Icelandair, Lífeyrissjóði verslunarmanna, um þátttöku í hlutafjárútboði félagsins sem hefst á miðvikudaginn í næstu viku.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Engin ákvörðun hefur verið tekin hjá stærsta eiganda Icelandair, Lífeyrissjóði verslunarmanna, um þátttöku í hlutafjárútboði félagsins sem hefst á miðvikudaginn í næstu viku.

Icelandair hyggst þá bjóða út tuttugu milljarða í nýju hlutafé. Lífeyrissjóður verslunarmanna á 11,8% af hlutafé félagsins, eða rúmlega 642 þúsund hluti. „Það er engin ákvörðun fyrirliggjandi. Menn eru enn að vinna heimavinnuna sína. Þetta mál er þess eðlis að það verður ekkert gert nema stjórn sjóðsins komi að ákvarðanatökunni. Það er ekki hægt að ákveða neitt fyrr en um það leyti sem útboðið hefst, og ákvörðun verður þá tekin eftir ítarlegar athuganir á málinu,“ segir Þórhallur Jósepsson, upplýsingafulltrúi sjóðsins, í samtali við Morgunblaðið.

Aðalbjörn Sigurðsson, upplýsingafulltrúi lífeyrissjóðsins Gildis, sem er þriðji stærsti hluthafinn með 7,2% hlut, sagði sömuleiðis að engin ákvörðun lægi fyrir, en stjórnin myndi funda í næstu viku til að fara yfir málið.

0,4% af heildareignum

Morgunblaðið hafði samband við ýmsa aðila á markaði, bæði greinendur, sjóðstjóra og fjárfesta og töldu flestir að útboðið myndi klárast með þátttöku lífeyrissjóða. Einkafjárfestar hefðu ekki fjárfestingargetu í líkingu við þá sem sjóðirnir hafa, og þá sérstaklega í ljósi þeirrar miklu óvissu sem ríkir um framtíð flugrekstrar í heiminum, vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Einnig bentu sumir á að í samhengi við heildareignir lífeyrissjóðakerfisins, sem námu rúmlega 5.300 milljörðum króna í lok júlí sl., væru 20 milljarðar ekki há fjárhæð, eða rétt tæplega 0,4% af heildareignum. Slík fjárhæð ógnaði ekki lífeyrisgreiðslum og réttindum sjóðfélaga, jafnvel þótt allt færi á versta veg.

Einn einkafjárfestir sem Morgunblaðið ræddi við sagðist örugglega myndu taka þátt í útboðinu, og nefndi að hann vonaðist til að bóluefni fyndist fyrr en síðar. Til lengri tíma litið væri hægt að horfa til þess að Icelandair væri orðið samkeppnishæfara flugfélag en það var áður.

Ljóst er á máli manna á markaðnum að óvissuþættirnir væru stærri og áhrifaríkari en í mörgum öðrum verkefnum sem menn skoðuðu.

Almennt voru menn á því að ákvörðun um þátttöku yrði ekki tekin fyrr en á síðustu stundu, enda gætu enn borist fréttir sem gætu haft áhrif á forsendur.

Einnig var nefnt að þó svo að ekki fyndist bóluefni í bráð, þá væri ekki útséð með að lönd myndu opna landamæri sín meira, sérstaklega í ljósi þess að dánartíðni væri á niðurleið þó svo að veiran væri enn á ferð.

10.000 skila milljarði

Hvað varðar þátttöku almennings í útboðinu var það mat manna að eftirspurn úr þeirri átt gæti orðið góð. Lágmarksfjárhæðin væri enda viðráðanleg, eða 100 þúsund krónur. Sem dæmi má lauslega reikna út að ef 10.000 manns taka þátt í útboðinu og hver kaupi fyrir 100 þúsund krónur samsvarar það einum milljarði króna.

Í nýjum punktum greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital segir að ljóst sé að ávinningurinn af að taka þátt í hlutafjárútboði Icelandair sé mikill ef allt gangi að óskum. Verðmatsgengi Jakobsson Capital er 2,1 og 1,9 að teknu tilliti til 8% þynningar hlutafjárins.