Vilja Kínverjar koma sér upp „leppríkjum“ á Norðurslóðum?

Kórónuveirufaraldurinn ryður öllum öðrum málum til hliðar í fréttum og umræðum um heim allan. Það þýðir hins vegar ekki að lífið gangi ekki sinn vanagang á öðrum sviðum. Það á t.d. við um stórveldaátök, sem smátt og smátt eru að taka á sig nýja mynd eftir að kalda stríðinu lauk með falli Sovétríkjanna og hruni kommúnismans.

Og hvort sem okkur Íslendingum líkar það betur eða verr erum við enn í miðju eins þessara átakasvæða, þar sem stórveldin láta til sín taka. Herskip frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi og Danmörku hafa nýlega verið á ferð á norðurslóðum og var þeirri ferð ætlað að vera eins konar áminning til Rússa um að það hafsvæði væri ekki umráðasvæði þeirra einna að þessu leyti.

En meginþráðurinn í stórveldaátökum 21. aldarinnar er ekki átök á milli vesturveldanna og Rússa eins og var á dögum kalda stríðsins heldur markviss viðleitni Kína til þess að verða leiðandi stórveldi á heimsvísu. Sú barátta Kínverja snýst ekki um ógnanir um að leggja undir sig landsvæði heldur um að ryðja Bandaríkjunum til hliðar, sem hinu ráðandi stórveldi í krafti yfirburðastöðu í framleiðslu, viðskiptum og fjármálum.

Kína er fjölmennasta ríki heims og þegar af þeim ástæðum er augljóst að til þess mun koma að Bandaríkin eigi undir högg að sækja í þeirri baráttu. Til viðbótar kemur svo, að á sama tíma hefur trú á forystu Bandaríkjanna verið að fjara út í mörgum löndum í okkar heimshluta vegna þess að Donald Trump nýtur ekki trausts, hvorki meðal forystumanna vestrænna lýðræðisríkja né almennings í þeim löndum.

Kína er hins vegar alræðisríki, þar sem kínverski kommúnistaflokkurinn fer með öll völd, þótt þar hafi orðið til undarleg sambúð kommúnisma og markaðshagkerfis. Þótt kommúnistaflokkurinn fari með öll völd í Kína og hafi gert í um sjö áratugi er ekki þar með sagt að veldi hans sé óhagganlegt. Þeir, sem vel þekkja til í Kína, segja að nánast daglega séu smáuppreisnir hér og þar um landið og að sá ótti heltaki ráðamenn í Peking að þær geti einn góðan veðurdag breytzt í eina stóra uppreisn.

Í Suðaustur-Asíu er staðan líka sú, að mörgum nágrannaríkjum Kína stendur ekki á sama um vaxandi veldi þess og líta þess vegna svo á, mörg hver, að þeirra hagsmunum sé betur borgið með því að halla sér að Bandaríkjunum.

Þótt herskipafloti fjögurra NATÓ-ríkja hafi nýlega minnt Rússa á sig á norðurslóðum fer ekki á milli mála, að Kínverjar hafa, kurteislega og með hægð, leitað fyrir sér um áhrif hér á norðurslóðum og þá ekki sízt á Grænlandi. En líka hér og víðar á þessu svæði.

Frá íslenzkum stjórnvöldum heyrist lítið um Kína á norðurslóðum. Hvað ætli valdi? Getur verið að í þeirri þögn felist „hræðsla“ við hið vaxandi stórveldi í austri? Að stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn óttist að ef styggðaryrði falli frá þeim í garð útþenslustefnu Kína verði þess hefnt á þann veg að það valdi eins konar viðskiptalegum sársauka?

Eitt af því, sem felst í því að vera lýðræðisríki er að opnar umræður fari fram um sameiginleg málefni þeirra þjóða, sem byggja stjórnskipan sína á lýðræði. Sú breytta heimsmynd, sem smáríki á borð við okkur verður að horfast í augu við nú, verður að vera þáttur í opnum umræðum hér á Íslandi og við hljótum sem þjóð að ræða þá þætti, sem að okkur snúa. Þeir þættir snerta samskipti okkar við bæði Bandaríkin og Kína.

Í tilviki Bandaríkjanna er spurningin sú, hvort við, sem óumdeilanlega höfum notið verndar Bandaríkjanna frá lýðveldisstofnun, getum treyst Bandaríkjum Trumps áfram. Sú spurning snertir ekki bara okkur heldur öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, vegna þess að í raun hafa öll Vestur-Evrópuríkin notið verndar Bandaríkjanna frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari. Nú má sjá að í sumum þeirra er um það rætt, hvort Bandaríkin sjálf muni yfirgefa NATÓ nái Trump endurkjöri. Og að Evrópuríkin verði þá sjálf að takast á hendur þær byrðar, sem fylgja margvíslegum ógnunum frá Moskvu.

En í tilviki Kína snýst þetta um að gera Kína ljóst, að Ísland ætli sér ekki að verða eins konar „leppríki“ þeirra í Norðurhöfum. Tónninn í athugasemdum, sem ítrekað hafa birtzt hér í Morgunblaðinu á þessu ári frá kínverskum sendimönnum hér, bendir til þess að það kunni að vera nauðsynlegt að minna á það.

Í nóvember kemur landsfundur Sjálfstæðisflokksins saman. Að vísu hljóta að óbreyttu að koma upp álitamál um hvort hægt verði að halda hann á þeim tíma en það er annað mál.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá því fyrir lýðveldisstofnun verið kjölfestan í utanríkismálum okkar Íslendinga. Hann var leiðandi við stofnun lýðveldis á sínum tíma og forystumenn hans mótuðu þá utanríkisstefnu, sem hið unga lýðveldi tók upp með þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna, margvíslegu samstarfi Vestur-Evrópuþjóða eftir stríð, aðild að Atlantshafsbandalaginu og með gerð varnarsamnings við Bandaríkin, sem enn er í gildi.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með því, hvort og þá hvernig landsfundur Sjálfstæðisflokksins fjallar um þá nýju heimsmynd, sem hér hefur verið fjallað um.

Þögn um þróun mála á heimsvísu í ályktunum landsfundar væri vísbending um „hræðslu“, sem sá flokkur í ljósi allrar sögu sinnar gæti ekki verið þekktur fyrir.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is