Rómantík Josephine Bornebusch og Sverrir Guðnason í hlutverkum Clöru og Peter í Elskaðu mig.
Rómantík Josephine Bornebusch og Sverrir Guðnason í hlutverkum Clöru og Peter í Elskaðu mig.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Leikarinn Sverrir Guðnason fer með eitt af aðalhlutverkum þáttanna Älska mig , eða Elskaðu mig , sem finna má á streymisveitunni Viaplay og verður önnur þáttaröð aðgengileg þar frá og með morgundeginum, 13.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Leikarinn Sverrir Guðnason fer með eitt af aðalhlutverkum þáttanna Älska mig , eða Elskaðu mig , sem finna má á streymisveitunni Viaplay og verður önnur þáttaröð aðgengileg þar frá og með morgundeginum, 13. september. Þættirnir eru framleiddir af Warner Bros. í Svíþjóð, í samstarfi við Viaplay, Kvikmyndasjóð Stokkhólms (Film Capital Stockholm), Sænska ríkissjónvarpið SVT og Nordic Entertainment Group.

Sverrir leikur í þáttunum Peter nokkurn sem Clara, aðalpersónan, fellur fyrir í fyrstu syrpu en hún er leikin af Josephine Bornebusch sem er einnig handritshöfundur þáttanna og leikstjóri. Þau Sverrir hafa lengi þekkst og starfað saman en fyrir þá sem ekki vita er Sverrir með þekktustu og vinsælustu leikurum Svíþjóðar, þótt íslenskur sé í húð og hár. Þótt Sverrir hafi búið þar í landi allt frá 12 ára aldri er íslenskan enn hnökralaus. Orðið „streymisveita“ kemur honum að vísu spánskt fyrir sjónir og blaðamaður útskýrir að orðið nái yfir fyrirbæri á borð við Netflix, Viaplay og Spotify. Orð sem er tiltölulega nýtt af nálinni og engin furða að Sverrir komi af fjöllum.

Mortensen sá Borg McEnroe

Blaðamaður hitti Sverri í Sevilla í desember 2018 þegar hann var tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir leik sinn í Borg McEnroe en í henni fór hann með hlutverk tennisstjörnunnar Björns Borg. Sverrir er spurður að því hvað hann hafi verið að sýsla frá þeim fundi. Verkefnin hafa verið mörg og Sverrir nefnir eitt þeirra. „Ég fór til Toronto og lék í Falling með Viggo Mortensen sem er ekki enn komin út en við frumsýndum á Sundance-kvikmyndahátíðinni, náðum að gera það rétt áður en faraldurinn skall á. Hún komst á Cannes og í Toronto og við höfum veitt viðtöl en myndirnar hafa samt ekkert verið sýndar, bara settar á einhvern lista,“ segir Sverrir. Myndin er sú fyrsta sem Mortensen leikstýrir og skrifaði hann líka handritið og leikur í myndinni þar að auki. Í Falling segir af sambandi feðga og segist Sverrir leika föður mannsins sem Viggo leikur, ungan að árum en Lance Henriksen leikur sama mann á efri árum. Sverrir ber Mortensen vel söguna, segir hann hinn ljúfasta í samstarfi.

Hann er spurður að því hvort kvikmyndin Borg McEnroe hafi breytt miklu fyrir hann, hvort Hollywood hafi farið að bera í hann víurnar. „Já, ég held að sú mynd hafi svolítið komið mér á framfæri í Bandaríkjunum og það var t.d. hún sem Viggo sá og gerði það að verkum að hann hafði samband við mig,“ svarar hann.

Mikil rómantík

Við snúum okkur aftur að Elskaðu mig en fyrri syrpan mun vera ein sú vinsælasta sem Viaplay hefur sýnt frá því skrúfað var frá veitunni. Sverrir er beðinn að segja frá þáttunum, um hvað þeir fjalla. „Þeir fjalla um fjölskyldu. Mamman deyr og allir í fjölskyldunni eru þá orðnir einhleypir,“ segir Sverrir og á þar líka við ekkilinn, Sten. „Þetta eru þættir um ástarlíf þeirra og ég leik manninn sem dóttirin, Clara, hittir,“ segir Sverrir. Er hann þá í mjög rómantísku hlutverki? „Jú, þetta er mikil rómantík,“ svarar Sverrir kíminn.

Hann segist lítið hafa leikið í slíkum þáttum eða kvikmyndum. „Ég hef gert einhverjar rómantískar kómedíur og fann að Josephine Bornebusch, höfundur þáttanna, vildi gera eitthvað meira,“ segir Sverrir. Hann segir hættu á því að slíkt efni, rómantískt gamandrama, verði kjánalegt en svo hafi ekki verið í tilfelli þessara þa´tta. „Þegar ég hitti hana og hún sagði mér hvað hún væri að fara að gera fann ég að þetta gæti orðið mjög gott.“

–Hvernig náungi er Peter? Þurftir þú ekki að búa til karakter til að vinna með áður en tökur hófust?

„Jú og maður gæti sagt að Peter sé í fyrstu seríu svolítið þessi fullkomni maður sem er ekki mjög auðvelt að hitta. Það virkar einhvern veginn allt hjá honum en nú er sería tvö að koma og við skulum sjá hvað gerist,“ svarar Sverrir sposkur. „Enginn er fullkominn.“

–Í lýsingu á þáttunum sem ég fékk í hendur stendur m.a. að það „bresti á með jafnvel enn meira ástardrama en áður“ ...

„Já, það hljómar rosalega vel,“ svarar Sverrir og heyra má á honum að hann má lítið sem ekkert segja um seríuna nýju. Aðeins það að Peter er ekki fullkominn og að kafað verði dýpra í persónurnar.

Sverrir segir misjafnt hvernig hann vinni með ólík hlutverk. Fyrir Borg McEnroe þurfti stífa líkams- og tennisþjálfun og hann þurfti auk þess að líkja eftir Birni Borg. Fyrir Elskaðu mig fólst forvinnan meira í því að lesa yfir handritið, aftur og aftur, breyta setningum og bæta og reyna að finna líf í senunum, segir Sverrir. Hugmyndum var kastað á milli. „Við sátum saman og töluðum mikið um senurnar,“ útskýrir Sverrir og segir höfund þáttanna hafa tekið vel í tillögur.

Jatsí og síðan Kurt Haijby

–Hvað varstu að gera í Covid?

„Fyrsta helminginn var ég nú bara mest heima að spila Jatsí, það var ekki mikið að gera og ekkert að gerast,“ svarar Sverrir. Eftir það hafi tökur tekið við og segist hann nýkominn heim úr ellefu vikna tökum. „Ég var í Stokkhólmi í fimm og hálfa viku, í Gautaborg í fimm vikur og svo vorum við eitthvað í Trollhättan líka. Við vorum að taka upp míníseríu fyrir SVT [sænska ríkissjónvarpið, innsk. blm.] sem fjallar um Haijbyaffären,“ segir Sverrir og nú bregst sænskan blaðamanni. Hvað er nú það? Jú, þættirnir fjalla um Kurt Haijby sem átti í ástarsambandi við Gústaf V. Svíakonung. Sverrir leikur Haijby. „Þetta voru mjög stífar tökur, þeir fengu að hafa tökudagana lengri svo við gætum gert þetta í Covid. Þetta var erfitt en mjög gaman,“ segir Sverrir en hann þurfti að sitja í förðun í tvær klukkustundir daglega áður en tökur hófust.

Væri til í að leika á íslensku

Sverrir hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda á ferli sínum en kvikmyndatitlarnir eru öllu fleiri en sjónvarpsþáttatitlarnir. En á hann sér eitthvert draumahlutverk, hlutverk sem honum hefur enn ekki verið boðið? „Ég bara held ekki,“ svarar hann og segist ekki hafa séð fyrir þau hlutverk sem hann hefur tekið að sér í áranna rás. Skemmtilegast finnst honum að hafa hlutverkin fjölbreytt, eins og til dæmis að leika Peter í Älska mig og síðan Kurt Haijby. Sverrir forðast endurtekningar og segist vilja prófa ólík hlutverk.

Blaðamaður spyr leikarann að lokum að því hvenær hann muni leika í íslenskum þáttum eða kvikmynd. „Ég er alltaf að reyna að skipuleggja eitthvað svoleiðis en hefur ekki tekist að koma því í verk. Ég vona að það gerist fljótlega.“