Ingó hefur stýrt brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum undanfarin ár.
Ingó hefur stýrt brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum undanfarin ár. — Morgunblaðið/Ófeigur
Nýr skemmtiþáttur, Í kvöld er gigg, hefur göngu sína á Stöð 2 á föstudaginn kemur. Eins og nafnið gefur til kynna verður Ingó þar í fararbroddi.
Söngvaskáldið Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, hefur ekki gert það endasleppt á þessu undarlega ári en tvö af vinsælustu lögum ársins, Í kvöld er gigg og Takk fyrir mig, hafa verið á flestra vörum í sumar. Föstudagskvöldið 18. september hefst á Stöð 2 nýr skemmtiþáttur í umsjá Ingós sem ber einfaldlega nafnið Í kvöld er gigg. Áhorfendur heima í stofu fá þar tækifæri til að læðast baksviðs og upplifa stemninguna þegar skemmtikraftar koma saman og telja í gleðina. Í hverjum þætti syngur Ingó sig í gegnum íslenska tónlistarsögu með skemmtilegasta fólki landsins, að því er fram kemur í kynningu Stöðvar 2, og er fjölskyldum landsins ráðlagt að koma sér vel fyrir í sófanum heima og taka undir.