Golf Margir hafa sýnt því áhuga að fara í golfferð til Spánar í október.
Golf Margir hafa sýnt því áhuga að fara í golfferð til Spánar í október. — Morgunblaðið/RAX
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Mikill áhugi er á fyrirhuguðum golfferðum til Spánar á vegum ferðaskrifstofunnar Golf Saga þrátt fyrir þær hömlur sem eru á ferðalög vegna kórónuveirufaraldursins.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Mikill áhugi er á fyrirhuguðum golfferðum til Spánar á vegum ferðaskrifstofunnar Golf Saga þrátt fyrir þær hömlur sem eru á ferðalög vegna kórónuveirufaraldursins. Ferðirnar hafa ekki verið auglýstar á meðan forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar eru að ganga frá síðustu skrefum til að lágmarka áhættu vegna ferðalagsins. Engu að síður hafa um 250 manns skráð sig á lista til að komast í ferðirnar.

Um er að ræða tvær ferðir sem fyrirhugað er að fara í október. Meðal annars hefur verið rætt við Íslenska erfðagreiningu um að ferðalangarnir verði skimaðir fyrir brottför. Ekki er þó búið að ganga frá því að svo verði. Viðræður eru í gangi. „Við erum þó búin að sjá til þess að hjúkrunarfræðingur mun hitamæla fólk áður en það heldur af stað,“ segir Hörður Arnarson, framkvæmdastjóri Golf Sögu.

Flogið verður með Icelandair til Jerez á suðvesturströnd Spánar. „Þangað fljúga bara tvær eða þrjár vélar á dag og við verðum ein á flugvellinum þegar við lendum. Svo verður farið inn í sótthreinsaðar rútur þar sem starfsmaður sem búinn er að fara í skimum tveimur dögum áður verður með grímu og tekur á móti okkur. Inni á golfsvæðunum sjálfum er svo búið að búa til eins konar „búblu“-samfélag,“ segir Hörður.

Stefnt er að því að fara í fyrri ferðina 3. október og þá síðari 14. október. Segir Hörður að það skilyrði hafi verið sett að nýgengi smita í Cadiz í Andalúsíu verði undir 20. Að öðrum kosti verður ekki farið. Til samanburðar er nýgengi smita í Barcelona 230 eða ríflega 11-falt meira en í Andalúsíu.

„Þetta svæði sem við erum að fara inn á er vinsælasta ferðamannasvæði Spánverja á sumrin. Þarna hafa verið 250-300 þúsund Spánverjar frá því í júlí. Þeir eru hins vegar flestir farnir heim þar sem skólar og fleira er að hefjast líkt og hér landi. Það verður því nokkuð langt um liðið síðan margir voru á svæðinu þegar við áætlum að koma. Eins og sakir standa er nýgengi smita 20 í héraðinu en okkar tengiliðir ytra vonast til þess að nýgengi smita verði orðið 10 eða 15 þegar að ferðinni kemur. Það er þá bara svipað og það er á Íslandi,“ segir Hörður.

Viðræður við ÍE

Hann segir að upp hafi komið sú hugmynd að fá Íslenska erfðagreiningu með sér í lið og láta skima alla fyrir brottför. „Við höfum verið að velta því fyrir okkur hvort það nægi okkur að hitamæla fólk fyrir brottför. Ef einhver mælist með hita þá fer hann ekki í vélina og fær fulla endurgreiðslu. Sama á við ef einhver greinist með kórónuveirusmit síðustu dagana fyrir brottför, þá fær viðkomandi endurgreiðslu,“ segir Hörður. Hann segir að eins sé unnið að því að reyna að tryggja það að fólk geti farið í samdægurs í skimun síðustu dagana fyrir brottför þótt það finni fyrir vægum veikindaeinkennum á borð við særindi í hálsi.

„Það er ekki búið að klára það mál en fólk verður að lágmarki hitamælt af hjúkrunarfræðingi áður en lagt er af stað. Að auki vonumst við líka til þess að staðan á Íslandi verði mun betri og að líkurnar verði afar litlar á að fólk verði með veiruna þegar kemur að ferðinni,“ segir Hörður.

Hann segir að ekki sé búið að ganga frá bókunum farþega en um 250 manns eru á lista til þess að fara í ferðirnar. Hvor vél tekur um 180 farþega.

„Þessar ferðir eru á svipuðu verði og þær eru í venjulegu árferði. Kannski er um að ræða 3-5% verðhækkun,“ segir Hörður.