Trausti Þór Stefánsson fæddist 6. júlí 1974. Hann lést 14. júlí 2020.

Útförin fór fram 22. júlí 2020.

Trausti Þór Stefánsson hóf störf hjá Aðföngum árið 2003 og reyndist strax góður vinnufélagi og vinur okkar allra sem með honum unnum. Trausti var, eins og nafnið gefur til kynna, traustur og góður starfsmaður sem gat gengið í öll þau störf sem honum voru falin. Meðal annars sá hann um tíma um ráðningar starfsmanna í vöruhúsi. Undanfarin ár starfaði Trausti sem móttökubókari í vöruhúsi Aðfanga, allt þar til hann fór í veikindaleyfi síðastliðið vor.

Síðustu þrjú árin fylgdumst við með Trausta takast á við veikindin með æðruleysi og jákvæðni að vopni. Hann heimsótti okkur reglulega og hélt góðu sambandi við okkur, enda átti Trausti marga vini í Aðföngum. Alltaf var stutt í grínið hjá Trausta, hann var hjálpsamur og alltaf tilbúinn til þess að leiðbeina með hvað sem er.

Meðal annars um hótel og veitingastaði erlendis, ábendingar sem reynst hafa mörgum okkar vel. Trausti hafði gaman af því að ferðast, helst án þess að ákveða of mikið fyrir fram hvert leiðin lægi. Hann vildi geta hoppað með litlum fyrirvara í ævintýraferð, dottið inn á tónleika eða farið á skemmtileg leikrit á ferðum sínum. Trausti heimsótti okkur síðast núna í sumar þegar hann kom hjólandi til okkar úr Kópavoginum og við glöddumst með honum að þrek hans hefði aukist þannig að hann gæti verið úti og notið sín.

Það bíður okkar bak við dauðans haf

hið bjarta land, sem trúarvissan gaf

og þar er ekki þjáning lengur til

né þyrnibraut við il.

Að láni fenginn lífsins neisti er.

Til landsins bjarta hann við andlát fer

og vinir koma þar með hjálparhönd

á hinni miklu strönd.

Úr sorgarfjötrum sálin verður leyst,

á sigur yfir broddi dauðans treyst

og gengið fram í gleði yfir því

að geta sést á ný.

(Guðmundur Kristjánsson)

Við í Aðföngum sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu Trausta, ættingja hans og vina. Við þökkum Trausta samstarfið og vináttuna í gegnum árin og kveðjum vin okkar með söknuði.

Fyrir hönd starfsmanna Aðfanga,

Hafdís Rósa

Sæmundsdóttir.