Stóri-Kollabær Svipsterk teikning í gömlu húsunum sem voru reist árið 1935 og verið er að gera upp nú.
Stóri-Kollabær Svipsterk teikning í gömlu húsunum sem voru reist árið 1935 og verið er að gera upp nú. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Fljótshlíðin enda á milli, frá ysta bæ að þeim innsta, er rúmlega 20 kílómetrar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fljótshlíðin enda á milli, frá ysta bæ að þeim innsta, er rúmlega 20 kílómetrar. Samkvæmt hreppaskipan fyrri tíðar er komið í Hlíðina á móts við bæinn Núp, og þá erum við á beinum og breiðum vegi með grónar brekkur á vinstri hönd. Í þeim standa flestir bæir sveitarinnar en nokkrir eru neðan og sunnan þjóðvegarins. Frá þeim flestum er einstakt útsýni til Stóra-Dímons og Eyjafjallajökuls, sem þarna gnæfir yfir með sínum hvíta skalla sem sífellt gefur eftir.

Í aðrar áttir

Til annarra átta litið í Fljótshlíð, það er upp til heiða í norðvestri, blasir Þríhyrningur við, 678 metra hár og með sínum þremur hornum. Milli þeirra er Flosadalur, en í Njálu greinir frá því að þar hafi Flosi á Svínafelli og félagar falið sig eftir Njálsbrennuna.

Margir atburðir Njálu gerast einmitt í Fljótshlíð og sumar persónurnar eru enn sem ljóslifandi í sögum nútímans. „Hér er giska huggulegt,“ er haft eftir Gunnari á Hlíðarenda í bókinni Dýrbítar eftir Fljótshlíðinginn Óskar Magnússon sem leggur hetjunni orð í munn. Efnislega eru þessi ummæli hin sömu og Gunnar sagði í Njálu : „Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.“

Fjölbreytt starfsemi

Á um 50 bæjum í Fljótshlíð búa nærri 200 manns. Hefðbundinn búskapur hefur víða látið undan, en fólk snúið sér að öðrum viðfangsefnum, svo sem ferðaþjónustu og iðnum ýmiskonar. Margir sækja sömuleiðis vinnu „út í Hvolsvöll“ eins og er málhefð í sveitinni. Nokkuð er jafnframt um að jarðir í sveitinni hafi farið úr ábúð og þar reist glæsihús sem eru griðastaðir manna sem hafa látið að sér kveða í viðskiptum og stjórnmálum. Lágstemmdari sumarhús eru annars víða í sveitinni og gömul hús á nokkrum bæjum hafa verið gerð upp.

Víða við bæi eru yndisgarðar eða stórir, þéttir trjálundir og víðfeðmir, ræktaðir skógar með birki, barrtrjám og fleiru góðu í landi Tumastaða, þar sem Skógræktin hefur verið með starfsemi og ræktun í áratugi. Í næsta nágrenni er Tunguskógur, þar sem útbúin hefur verið góð útivistaraðstaða. Gönguferðir þar geta verið skemmtilegar, til dæmis nú síðsumars þegar skógarsveppir skjóta upp kollinum í haustlituðum lundum. Þá er starfrækt ferðaþjónusta á nokkrum bæjum í sveitinni, vinsæl tjaldsvæði og hótel, svo sem á Langbrók og í Smáratúni.

Sitthvað fleira en Njála skapar Fljótshlíðinni sess í því sem heitir menning. Fyrr var oft í koti kátt, orti Þorsteinn Erlingsson í ljóði sínu Í Hlíðarendakoti . Brjóstmynd er af skáldinu í minningarlundi við bæinn, þaðan sem er ekki langt að Nikulásarhúsum við Hlíðarenda, þar sem er Nínulundur. Vísar hann til þess að þarna ólst upp Nína Sæmundsson (1892-1965), einn af frumherjum íslenskrar höggmyndalistar. Þá eru kirkjurnar tvær í sveitinni báðar eftirtektarverð listaverk, það er á Hlíðarenda og Breiðabólstað. Sú síðarnefnda hönnuð af Rögnvaldi Ólafssyni, fyrsta íslenska arkitektinum, en kirkjan er í sama stíl og þær sem eru á Húsavík og Hjarðarholti í Dölum.

Náttúran njóti vafans

„Í Fljótshlíð er þykkur jarðvegur og frjósöm mold. Slíkt gerir ræktun auðveldari en ella og svo er hér líka yfirleitt veðursæld. Við höfum skjól fyrir norðanáttinni,“ segir Eggert Pálsson, bóndi á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Hann er þar fæddur og uppalinn og gagnkunnugur öllu í sveitinni. Þau Eggert og Jóna Guðmundsdóttir, kona hans, eru með nokkuð stórt bú sem þau reka nú í samvinnu með Páli, syni sínum, og Kristínu Jóhannsdóttur, hans konu. Alls eru þau með um 60 kýr í fjósi og 300 fjár.

„Bændum hér í Fljótshlíð eins og annars staðar hefur fækkað, sem er afleiðing tæknivæðingar og kröfu um hagræðingu í landbúnaði. Þróunin er í eina átt. Sjálfum finnst mér starf bóndans alltaf áhugavert og þykir sjálfsagt að umgangast skepnur af virðingu. Sama má segja um náttúruna, sem alltaf á að njóta vafans. Sú hugsun held ég að flestum bændum sé eðlislæg,“ segir Eggert á Kirkjulæk.