Sýnendurnir Nina Zurier, Katrín Elvarsdóttir og Lilja Birgisdóttir nálgast viðfangsefnin með ólíkum hætti.
Sýnendurnir Nina Zurier, Katrín Elvarsdóttir og Lilja Birgisdóttir nálgast viðfangsefnin með ólíkum hætti. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gróður er heiti sýningar á ljósmyndaverkum þriggja listakvenna, Katrínar Elvarsdóttur, Ninu Zurier og Lilju Birgisdóttur sem verður opin frá og með deginum í dag í galleríinu BERG Contemporary að Klapparstíg 16.
Gróður er heiti sýningar á ljósmyndaverkum þriggja listakvenna, Katrínar Elvarsdóttur, Ninu Zurier og Lilju Birgisdóttur sem verður opin frá og með deginum í dag í galleríinu BERG Contemporary að Klapparstíg 16.

Sýningarstjóri er Ingibjörg Jónsdóttir, eigandi gallerísins, og segir hún hugmyndina um gróður vera útgangspunkt sem listakonurnar þrjár sem hún bauð að sýna útfæri hver fyrir sig með persónulegum hætti í nýjum verkum.

Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur fylgir sýningunni úr hlaði með texta, hugleiðingu um gróðurinn sem getur haft svo margbreytilega merkingu en líka tilgang, og hefst hann með þessum hætti:

„Við endimörk gróskunnar – þar sem eplatré eru eins og japönsk kryppluð dvergtré í metnaðarfullum garði – á sárum jaðri frjósömu græðandi þekjunnnar sem umlykur heiminn – við upphaf eyðimerkur og auðnar – tala umskiptin til okkar.

Gegn rofinu fara orrustuplöntur, fjólubláar, bleikar, gular, grænar. Skora auðnina á hólm. Ágengar jurtir sem reynast líka máttugar í viðureign við plágur sem herja á líkamann. En valda sjálfar eyðileggingu ef ekkert ögrar þeim á móti.“

Undirstaða lífs og menningar

Ingibjörg segir að „Gróður“ hafi upphaflega verið opinn vinnutitill sem átti að ná yfir hugmyndina að baki sýningunni en svo hafi heitið fest við sýninguna.

Hún nefnir hugmyndir tengdar gróðri sem þær listakonunar hafi rætt og unnið með. Gróðurinn sé undirstaða lífsins, þar sé hringrás, vöxtur, hnignun, endurfæðing; þar er ljóstillífun og súrefnisuppsprettan, allt frá náttúrunni í stórum skala niður í smæstu einingu.

„Maðurinn lifir ekki af án planta, hann nýtir og notar plöntur sér til framdráttar, nú eins og áður, fæði og klæði þökkum við gróðrinum, við byggjum úr timbri og í menningarlegu tilliti skipa ýmsar plöntur stóran sess og þær standa sem táknmyndir, til að mynda í trúarbrögðum og skáldskap. Lengi vel skráðum við söguna á pappír sem gerður var úr plöntum,“ segir Ingibjörg og bætir við að umgengni mannsins við náttúruna í dag komi síðan vitaskuld niður á öllu lífi.

Ingibjörg segir að listakonurnar þrjár hafi getað tekið hugmyndir um gróður í ólíkar áttir og geri það svo sannarlega. „Mig langaði til að setja upp sýningu með ljósmyndaverkum ólíkra listamana og á sýningunni Rúllandi snjóbolta á Djúpavogi hreifst ég af myndum sem Lilja hafi gert af rótum. Þær áttu þátt í að kveikja á þessari hugmynd um gróðurinn. Nina hefur notað plöntur í eins konar kyrralífsmyndum og svo er Katrín einn listamannanna sem við vinnum með hér í galleríinu. Hún hefur til að mynda gert myndir af plöntum sem eru að deyja út og öðrum sem eru ekki á sínum réttu heimaslóðum. Þær eru ólíkar í sinni nálgun og hafa allar farið áhugaverða leið að verkunum,“ segir Ingibjörg um sýninguna. efi@mbl.is