[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Þórhallur Hólmgeirsson fæddist 16. júlí 1953 í Keflavík. Hann lést 30. júlí 2020. Útför fór fram í kyrrþey.

Ég á mér þann draum

að eitthvað undursamlegt muni gerast

að það hljóti að gerast –

að tíminn ljúkist upp

að hjartað ljúkist upp

að dyr ljúkist upp

að bergið ljúkist upp

að lindir streymi fram –

að draumurinn ljúkist upp

að morgun einn muni mig bera

inn á vog sem ég vissi ekki af.

(Olav H. Hauge.

Þýð. Óskar Árni Óskarsson)

Það er tómlegt að hugsa til þess að Þórhallur er ekki lengur á meðal okkar. Ég var heppin að kynnast honum – handverkið lék í höndum hans og verk hans blasa við mér hvarvetna hér í kringum mig. Það er gott. En það er maðurinn Þórhallur sem ég sakna mest – umhyggjusemi hans og glaðværð. Við vinir hans í Noregi söknum nærveru sem var blíð eins og spegilsléttur sjór á vordegi við Misja.

Mary Kristoffersen.

Það eru ekki allar fréttir góðar, fréttin sem barst mér 16. júlí sl. var ekki góð. Þórhallur Hólmgeirsson vinur minn látinn. Hann var prúður, hógvær og góður félagi og handverksmaður svo af bar.

Ég minnist ferðalaga okkar hjóna með honum og Rúnu.

Allt frá því að halda jól í Róm og norður að nyrsta hafi. Ógleymanleg var ferð um Vestur-Noreg þar sem dvalið var meðal annars hátt uppi í fjöllum í Sogni. Við gistum í gamalli húsaþyrpingu sem Þórhallur átti stóran þátt í að endurgera með norskum vini sínum og koma í upprunalega mynd, það var snilldarverk.

Hann kom víða við á vegum Þjóðminjasafns, í gamla bænum á Keldum á Rangárvöllum og víðar. Hann kom að endurgerð Krýsuvíkurkirkju og byggði upp gamla bæinn á Unastöðum í Kolbeinsdal svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir mig og mína þurfti ég oft að leita til hans, alltaf var svarið já. Það var gott að þekkja hann.

Margs er að minnast, leikhúsferða, sameiginlegra kvöldverða og umræðustunda þar sem rætt var um flest milli himins og jarðar. Hans verður sárt saknað.

Rúnu og fjölskyldu sendum við hjónin einlægar samúðarkveður og biðjum þeim blessunar guðs.

Sveinn Sveinsson.