Doddi fæddist 23. janúar 1930 í Vestmannaeyjum. Hann lést 6. september 2020 á HS Vm.

Foreldrar hans voru Sigurður Einarsson, f. 29. nóv. 1904, d. 6. feb. 1943, og Oddný Ólafía Eyjólfsdóttir, f. 18. feb. 1904, d. 18. sept. 1970. Alsystkin Eyrún Anna, f. 21. júní 1931, d. 9. júlí 1931, Agnar Reynir, f. 5. ágú. 1933, d. 5. des. 1999, sammæðra Sigurður Þorkelsson, f. 10. apr. 1925, d. 31. okt. 1985. Eiginkona Dodda var Ása Valtýsdóttir, f. 7. ágúst 1933, d. 24. apr. 1981, þau gengu í hjónaband 1. nóv. 1954. Foreldrar Ásu voru Valtýr Brandsson, f. 1901, d. 1976, og Ásta S. Guðjónsdóttir, f. 1905, d. 1999.

Doddi og Ása eignuðust 4 syni. 1) Sigurður, f. 1954, maki Elínborg Óskarsdóttir, f. 1958, dætur 1. Ása, maki Sigurfinnur Viðar Sigurfinnsson og eiga þau 4 börn. 2. Ásta Ósk, maki Viðar Valdimarsson og eiga þau 3 börn. 2) Valtýr, f. 19. apríl 1956, d. 10. mars 2018, maki Sigríður Guðbrandsdóttir, f. 1958, frá Unhóli í Þykkvabæ. Synir 1. Guðbrandur, f. 15. sept. 1988, d. 22. sept. 1988. 2. Sindri, maki Bryndís Jónsdóttir, 3. Reynir. 3) Guðni, f. 1957, maki Vigdís Rafnsdóttir, f. 1958, dætur 1. Björk, maki Magnús Þór Einarsson, eiga þau 2 börn 2. Alma, maki Bragi Snær Ragnarsson, eiga þau 1 dóttur, fyrir á Bragi 3 börn. 4) Jóhann Brandur, f. 1959, maki Ragna Birgisdóttir, f. 1961, synir 1. Atli, maki Íris Elíasdóttir og eiga þau tvær dætur. 2. Egill, maki Selma Dögg Vigfúsdóttir, þau eiga eina dóttur 3. Hjalti, maki Linda Dögg Rúnarsdóttir.

Georg, sem kallaður var Doddi Lóu í æsku, ólst upp í foreldrahúsum ásamt Reyni bróður sínum á Brekastíg 19, faðir hans drukknaði í Fleetwood í UK 6. febrúar 1943, það var fjölskyldunni mikill harmur og þurfti Doddi að fara að vinna fyrir heimilinu, skólagangan varð því ekki löng. Doddi og Ása hófu búskap á Brekastíg 19 í sambýli við móður hans.

Doddi var handlaginn og byggði þeim heimili á Strembugötu 12. Á þeim tíma starfaði hann hjá Vinnslustöðinni. Heimilið varð stórt og Ása heilsuveil og var þá gott að hafa fjölskyldu Ásu til aðstoðar í næsta húsi ásamt góðum nágrönnum. Í gosinu vann hann í Gúanóinu í Keflavík, fjölskyldan sneri aftur heim um haustið 1973. Doddi vann í Áhaldahúsi Vm. en 1976 urðu Doddi og Ása að flytja til Rvk. vegna veikinda Ásu og hóf Doddi þá störf hjá Herjólfsafgreiðslunni í Reykjavík. Við andlát Ásu 1981 flutti Doddi aftur til Eyja og hélt áfram að starfa hjá Herjólfi og hjá Flþ. Magnúsar uns hann lét af störfum. Strembuna varð Doddi að selja því að heilsan leyfði ekki lengur búsetu þar og var það Dodda erfitt. Hann flutti í Eyjahraun 8 í desember 2000.

Doddi gekk í Félag eldri borgara og ferðaðist með félögum sínum bæði innanlands og utan. Eignaðist hann þar góða vinkonu, Jakobínu Ólöfu Sigurðardóttur, Obba lést 2009. Púttsalurinn og spilakvöldin leiddu hann og Halldóru Hallbergsdóttur saman, þar til Halldóra lést árið 2016.

Útför fer fram í Landakirkju í dag, 12. september 2020, kl. 14.

Stuttafi Doddi.

Með rósemd og friði sveif hann á braut saddur lífdaga sáttur við allt og alla. Algjörlega í takti við Dodda. Golustíllinn. Nægjusemi, rósemd og aðlögun að aðstæðum. 90 ár er ekkert smáræði og þessi kynslóð fólks sem lifir enn, hefur upplifað ýmislegt á sinni ævi.

Það fór ekki mikið fyrir stuttafa Dodda eins og barna- og langafabörnin kölluðu hann. Doddafakex var ómissandi í Eyjahrauninu, Smarties, súkkulaðirúsínur og gos í flösku var alltaf til. Ekki mörg orð sögð en alltaf til í spjall þegar að umræðan var tekin upp. Fótboltinn í uppáhaldi ekki síst þegar að afkomendurnir voru í knattspyrnuharkinu með ÍBV. Enski boltinn auðvitað á sínum stað og að sjálfsögðu hélt hann með Liverpool, því heldur auðvitað Smáragötufjölskyldan fram. Fjölskylduboðin þar sem myndir af flækjum stórfjölskyldunnar voru kvikmyndaðar kölluðu oft fram ofsahlátur hjá afa þannig að hann blánaði og startkaplarnir voru á hliðarlínunni ef að hann næði ekki andanum aftur.

Doddi varð ekkill um fimmtugt eftir að Ása kona hans lést eftir langvarandi veikindi sem setti mark sitt á hann og drengina hans. En hann naut stuðnings fjölskyldu Ásu við heimilis- og uppeldisstörfin því Ása dvaldi langdvölum á spítala. Hann var afskaplega dulur og kvartaði aldrei en vann vel út úr þeim verkefnum sem lífið úthlutaði honum og þau voru risastór. Föðurmissirinn er hann var 13 ára varð honum einstaklega þungbær og lauk hann þá sinni skólagöngu og fór að vinna. Verkamaður, verklaginn, reisti hann sér hús fyrir fjölskylduna. Stremban var fjölskyldureitur þeirra og drengjanna fjögurra sem hann kallaði oft englana sína með glotti, og í næsta húsi bjuggu tengdaforeldrar og systkini Ásu þannig að samgangur var mikill.

Drengirnir hans fengu í vöggugjöf verklagni hans og dugnað. Doddi var í félagi eldri borgara og púttið með félögum hans þar var fastur punktur í lífinu. Eftir lát Ásu bjó hann einn í húsinu sínu í 20 ár en fluttist þá að Eyjahrauni 8 og bjó þar til yfir lauk, alltaf sæll með sitt. Þetta eru fátækleg orð og það verður tómlegt í hádeginu á aðfangadag á jólum og áramótum, nú þegar að enginn afi Doddi kemur í mat eða í kaffibolla um helgar. Arfleifð hans eru afkomendurnir, hörkuduglegt fólk sem kveður ástkæran föður, tengdaföður og afa. Hann er nú kominn þangað sem golan er alltaf hlý, eins og á Kanarí sem hann elskaði, veikindi engin og kærleikur umvefur hann. Vertu sæll. Minning þín lifir. Takk fyrir allt.

Fyrir hönd Doddalinganna,

Björk Guðnadóttir.

Elsku afi, að hlusta á þig hlæja var ógleymanlegt, það skipti engu hvort um var að ræða góða sögu um prakkarastrik eða fimmaurabranda, þú hlóst svo innilega og djúpt að allir í kringum þig hlógu með þér. Í hvert skipti héldum við að þú mundir annað hvort kafna eða fá hjartaáfall úr hlátri og höfðum orð á hver skyldi sækja hjartastuðtækið. Það var mikill púki í þér og nokkuð ljóst hvaðan synir þínir hafa aulahúmorinn sinn. Það sem þið gátuð hlegið yfir Tomma og Jenna, svo ekki sé talað um Mr. Bean, þið gátu hlegið endalaust að sömu vitleysunni aftur og aftur.

Þú hafðir lúmskt gaman af prakkarastrikum strákanna þinna hér á árum áður en varst alltaf fljótur að koma þeim til varnar því englarnir hans Dodda gerðu aldrei neitt.

Ár hvert á aðfangadag um hádegi komu allir til þín, jólalegir, til að eiga skemmtilega stund saman og skiptast á pökkum og kortum. Þú passaðir að nammiskálin væri stútfull og leystir krakkana oft út með nammikassa. Við söknuðum þessarar stundar mikið þegar við systur hættum að koma til eyja um jólin, en fengum í staðinn oftast að heyra og sjá alla með nútímatækninni.

Því miður náðir þú ekki að hitta yngsta stuttafabarnið í persónu, dóttur Ölmu, en við hvísluðum að þér nafninu hennar síðustu dagana. Þú varst svo stoltur af öllum þínum afkomendum og hafðir mjög gaman af því að fá þau í heimsókn. Öll lærðum við fljótt hvar pokinn með bílunum var og þrátt fyrir aldur þeirra voru þeir fjarsjóður sem hver kynslóð kunni að meta.

Nú hefur þú fengið hvíldina góðu og hafa amma Ása og Valtýr tekið á móti þér, elsku afi og stuttafi, minning þín lifir í hjörtum okkar stórra og smárra sem passa enn þá að stuttafi komi ekki að stela nefinu þeirra.

Alma, Björk og fjölskyldur.

Elsku „stutt“ afi Doddi stríðnispúki sem trúði engu upp á englana sína, synina fjóra sem voru og eru miklir prakkarar.

Þegar fyrsta langafabarnið fæddist, sem er dóttir mín, þá sagðist afi ekki vera nógu langur til að verða langafi, af því hann væri svo stuttur og því fékk hann heitið „stutt“afi Doddi sem hélst á honum alla tíð síðan – hann sagðist styttast enn frekar þegar fleiri börn bættust í hópinn.

Við nutum þeirra forréttinda að afi Doddi mætti í öll afmæli hjá fjölskyldunni, hvort sem það var hjá mér, Finnsa, Elínborgu Eir, Sigurbjörgu, Ásdísi Söru eða Sigurfinni Óskari. Þegar afi mætti í afmælið, þá laumaði hann pening til afmælisbarnanna og svo stundum poka sem í var íspinnakassi, það fannst börnunum mjög vinalegt og afalegt.

Það var alltaf gaman að koma við hjá afa Dodda, fá nammi og leika með gömlu bílana og dótið í pokanum, sérstaklega var í uppáhaldi fallbyssan sem virkar enn, sem Valtýr frændi kenndi börnunum mínum á.

Við vorum dugleg að kíkja við hjá afa á covid-tímanum, komum við á gluggann eða svalahurðina, pössuðum fjarlægðina og að heilsast með því að beygja okkur fram, þetta fannst afa fyndið og skemmtilegt en skrítnir tímar.

Afi Doddi var oft að stríða og vildi prufa hjólið hans Sigurfinns Óskars en afi var of þungur á hjólið sagði Sigurfinnur Óskar en þegar hann fékk stærra hjól, þá sagði hann að afi gæti prufað það hjól, afi hló einhver ósköp að þessu af því hann var enn þungur.

Það verður nú skrítinn aðfangadagur í ár, fjölskyldan hefur í mörg ár hist hjá afa Dodda um hádegi á aðfangadag, jólaleg að vanda og var afi engin undantekning frá því, aðaljólasveinninn, þeir sem voru í Eyjum um jólin mættu.

Við byrjuðum árið á því að halda upp á 90 ára afmælið þitt og skáluðum fyrir þér 23. janúar en því miður komust ekki allir í afmælið vegna veðurs. Við ætluðum að halda partý síðar en svo kom covid og ekkert varð úr því partýi.

Elsku afi minn, þú klárar afmælisárið með ömmu Ásu og Valtý. Við elskum þig og þökkum fyrir allar yndislegu og skemmtilegu samverustundirnar með þér.

Ása, Sigurfinnur Viðar, Elínborg Eir, Sigurbjörg, Ásdís Sara og Sigurfinnur Óskar.