Aðalbjörg Albertsdóttir fæddist 1. maí 1934. Hún lést 28. ágúst 2020.

Útför Aðalbjargar fór fram 10. september 2020.

Elsku besta amma.

Þegar ég lít yfir farinn veg þá eru minningarnar svo ótal margar um þig. Fyrstu árin mín var ég svo heppinn að hafa þig svolítið út af fyrir mig og var alltaf ólmur í að gista hjá ykkur afa. Fékk ég ósjaldan að kúra á milli ykkar eftir að búið var að lesa spennandi sögu.

Ef mamma var að koma að kenna leikfimi þá kom ég alltaf með því að ég vissi að þú myndir skella í þínar landsfrægu pönnukökur sem voru hesthúsaðar af bestu lyst.

Það var því þungbært fyrir lítinn gutta þegar amma og afi fluttu úr sveitinni en þó var alltaf gaman að koma í heimsókn í Bogahlíðina og ekki vantaði að slegið væri upp veislu í hvert skipti. Það var því ekki mikill kvíði fyrir 14 ára ungling að fara að heiman þegar grunnskólanum á Finnbogastöðum lauk, því að eins og einhver sagði þá var þetta eins og að fara að heiman en í raun heim, að fara frá Melum til ykkar afa í Bogahlíðina.

Það var oft glatt á hjalla í Bogahlíðinni. Þegar systkinin komu í heimsókn var oftar en ekki gripið í gítarinn eða orgelið og afi stjórnaði söng af mikilli röggsemi. Helgarbíltúrar til skemmtunar og fræðslu voru ómissandi og þeim fylgdu sögur af mönnum og stöðum á leiðinni og oftar en ekki áð og dregið upp nesti sem dugað hefði hálfri sveitinni. Okkur bræðrum leið alltaf afar vel hjá ykkur og þó að við værum fluttir frá ykkur á eigin stað var alltaf hægt að leita til þín og afa.

Þegar við bjuggum erlendis var oft erfitt að halda sambandinu en ég hafði það alltaf fyrir reglu að fyrsta og síðasta stoppið í hverri heimferð var hjá ykkur, þá var nú heldur betur spjallað og farið yfir bæði þjóðmálin og heimsmálin. Þú hafðir sterkar skoðanir á hlutunum og vildir leggja þitt af mörkum til að aðstoða þá sem að minna máttu sín.

Síðustu árin urðu minningarnar þínar um æskuárin sem þú hafðir sjaldan deilt á fyrri tíð oft að umræðuefni. Eggjaferðir á Hornbjarg, heyskapur með gamla laginu og bernskubrek pabba komu þar oft fyrir og sönnuðu fyrir mér að alveg sama hvað gekk á og þótt tímarnir væru erfiðir þá gast þú samt alltaf skemmt þér og haft gaman af hlutunum. Sveitin var alltaf ofarlega í þínum huga og spurðir þú alltaf spennt eftir helstu fréttum úr sauðburði, af heyfeng og loks af fallþunga að hausti. Ullarsokkar og vettlingar fyrir smalana voru einnig fastur liður.

Veikindi þín voru áfall fyrir okkur öll en hvernig þú tókst á við þau sýndi hversu ótrúleg manneskja þú ert, tókst öllu með jafnaðargeði og jákvæðni og einbeittir þér að því að lifa í núinu og njóta hverrar stundar.

Góða skapið, hláturinn þinn og ástúðin sem þú áttir í bílförmum er það sem mun lifa með mér og fleirum alla tíð.

Guð geymi þig, elsku amma.

Guðmundur Ragnar

Björnsson.