Bergur Hauksson
Bergur Hauksson
Eftir Bergur Hauksson: "Er ekki dómarinn hluti af þessum pólitíska veruleika þar sem þykir eðlilegt að eiga samskipti við stjórnvöld, sama hvers lags stjórnvöldin eru?"

Ef rétt er munað þá var svo, í upphafi skólaferils þess er þetta ritar, að kennarinn stimplaði með stjörnustimpli í stílabókina manns ef maður gerði það sem manni bar að gera. Líklega var maður mjög upp með sér þannig að maður sá í raun stjörnur. Eldri nemendum hefði að öllum líkindum ekki hugnast að fá stjörnur í sínar bækur, þótt það frekar hallærislegt. Konungar hengdu málmhluti sem voru nefndir orður á hirðina og að öllum líkindum hefur þeim sem fengu þótt þetta upphafning. Stjörnurnar og orðurnar eru stjórntæki. Enn í dag eru hengdar orður á hirðina, þ.e. bæði hæstaréttardómarar og ráðherrar fá orður fyrir að sinna þeim störfum sem þeir hafa óskað eftir að sinna. Líklega eru þeir jafn ánægðir með orðurnar sínar og sá er þetta ritar var með stjörnurnar í stílabókina. Jón Steinar Gunnlaugsson var gerður að heiðursfélaga hjá Lögmannafélaginu og hefur þótt það að öllum líkindum hin mesta vegtylla. Síðar óskaði Jón Steinar eftir því að verða af þessum heiðri.

Er framangreint hégómi? Er mannveran hégómleg í hugsunum sínum? Nýverið fékk dómari við Mannréttindadómstól Evrópu heiðursnafnbót frá háskóla í Tyrklandi. Telja verður að dómaranum hafi þótt hann eiga heiðurinn skilið jafnt og öðrum sem veitist heiður, sama í hvaða formi heiðurinn er. Ekki veit sá er þetta ritar hvers vegna dómarinn fékk umrædda heiðursnafnbót. Er það vegna þess að hann vinnur það starf sem hann sóttist eftir að vinna? Einhverjir telja að dómarinn hefði ekki átt að þiggja heiðurinn vegna þess að stjórnvöld í Tyrklandi séu ekki nógu góð.

Eftir síðari heimsstyrjöldina var alræðisstjórn/einræði í löndum Austur-Evrópu. Stjórnvöld þessara landa voru svo slæm að þau þurftu að neyða fólk til að búa við ógnarstjórn þeirra, samanber Berlínarmúrinn, sem var til að halda fólk inni. Töluverður hópur fólks á Íslandi blessaði þessa stjórnunarhætti og jafnvel blessar enn slíka stjórnunarhætti samanber Venesúela. Íslenskir stjórnmálamenn heimsóttu þessa einræðisherra og blessuðu þá. Meðal annarra var Ceusescu sóttur heim, stuttu áður en hann var drepinn af þjóð sinni.

Er ekki dómarinn hluti af þessum pólitíska veruleika þar sem þykir eðlilegt að eiga samskipti við stjórnvöld, sama hvers lags stjórnvöldin eru? Heimurinn er m.a. drifinn áfram af hégóma. Dómarinn er hluti af heiminum og tekur þátt í honum. Mannveran er ekki fullkomin og dómarar eru mannverur. Ef mannveran væri fullkomin þyrfti enga dómara. Það er ekki nóg að skamma dómarann eins og einhverjir hafa gert, það breytir engu. Það þyrfti mikið víðtækari breytingar, eins og dómarinn benti á þá hafa aðrir þegið svipaðar vegtyllur og hann þáði og þess vegna fannst honum eðlilegt að hann gerði slíkt hið sama. Þetta viðhorf kemur fram strax í bernsku þegar börn réttlæta óeðlilegar gjörðir sínar með því að benda á aðra. Það hefði engu breytt í hinu stóra samhengi ef dómarinn hefði ekki þegið þessa svokölluðu vegtyllu. Hégóminn, ágirndin, valdaþörfin, dómgreindarleysið og ýmislegt fleira sem er kannski ekki svo jákvætt hefði áfram ráðið ríkjum í heiminum.

Höfundur er m.a. lögmaður.

Höf.: Bergur Hauksson