Ragnhildur Steinunn missti móður sína aðeins sjö ára gömul og segist ekki muna neitt í heilt ár eftir andlát hennar. Hún fékk ástríkt og gott uppeldi hjá föður sínum en finnst enn erfitt að tala um missinn.
Ragnhildur Steinunn missti móður sína aðeins sjö ára gömul og segist ekki muna neitt í heilt ár eftir andlát hennar. Hún fékk ástríkt og gott uppeldi hjá föður sínum en finnst enn erfitt að tala um missinn. — Ljósmyndir/Íris Dögg Einarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir er á réttri hillu sem aðstoðardagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV en hún á að baki langan og fjölbreyttan feril í sjónvarpi. Dugnaður og þrjóska einkennir Ragnhildi, en hún segir mikilvægt að drekkja sér ekki í vinnu.

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir er á réttri hillu sem aðstoðardagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV en hún á að baki langan og fjölbreyttan feril í sjónvarpi. Dugnaður og þrjóska einkennir Ragnhildi, en hún segir mikilvægt að drekkja sér ekki í vinnu. Hamingja fjölskyldunnar er nefnilega ávallt í fyrsta sæti. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Vestast í Vesturbænum, í fallegu hvítu steinhúsi, býr sjónvarpskonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir ásamt manni sínum Hauki Inga Guðnasyni og fjórum börnum á aldrinum eins til tíu ára. Ragnhildur býður upp á dásemdarkaffi við borðstofuborðið en húsið er afar smekklega innréttað og allt er á sínum stað. Blaðamaður undrar sig á því hvernig hægt sé að halda heimilinu svona hreinu og fínu með öll þessi börn. Það virðist ekki vera mikið mál, enda viðurkennir Ragnhildur að hún þoli ekki drasl. Það kemur svo í ljós þegar líður á viðtalið að Ragnhildi er mikið í mun að gera allt vel sem hún tekur sér fyrir hendur; hvort sem það tengist vinnu hjá RÚV, leik í bíómyndum, að skrifa bók eða því sem henni finnst mikilvægast; uppeldi á börnum sínum. Hún gefur sig alla í verkin, stóru og smáu.

Tveir drengir bættust í hópinn

Það var í mars á síðasta ári sem fjölskyldan stækkaði heldur betur þegar tvíburadrengir bættust í hópinn. „Þótt oft hafi nú verið líf og fjör á heimliinu þá má segja að frá þessum tíma höfum við ekkert verið í vandræðum með dauða tímann,“ segir Ragnhildur sem hefur nýlega hafið aftur störf hjá RÚV eftir fæðingarorlof.

„Fyrsta árið í lífi tvíburaforeldra er skiljanlega strembið. Lítill svefn og að nægu að huga. Þetta hefur þó gengið framar vonum en það hefur verið mikil áskorun að samþætta vinnu og fjölskyldulífið eftir orlof. Eins og flestir foreldrar vita getur reynst þrautinni þyngra að fá dagvistun að loknu orlofi. Hér í Vesturbænum eru allir leikskólar fullir og biðlistinn langur hjá dagmömmum. Í níu mánuði höfum við, eins og margir aðrir, þurft að stilla upp vaktaplani á sunnudagskvöldum til að redda pössun fyrir vikuna,“ segir Ragnhildur, sem segir drengina nú loks hafa fengið pláss hjá dagmömmu og eru þeir í aðlögun.

„Þetta hefur valdið mestu streitunni; að hafa ekki vistun fyrir börnin á vinnutíma. Það vantar betri úrræði í dagvistunarmálum í Reykjavík, það er á hreinu. Það bjargaði hins vegar öllu að mæta mikilli velvild hjá mínum vinnuveitanda eftir að tveir drengir bættust í systkinahópinn.“

Man ekkert eftir heilu ári

Ragnhildur er fædd og uppalin í Keflavík, með viðkomu í Danmörku í fjögur ár, þar sem móðir hennar og nafna, Ragnhildur Steinunn, var í námi ásamt föður hennar.

„Mamma var menntaður tækniteiknari og pabbi, Jón Þór Harðarson, er véltæknifræðingur og meistari í bifvélavirkjun. Hann starfaði lengst af hjá ÍSAL í Straumsvík. Ég var lengi einbirni en eignaðist svo hálfsystur, Telmu Karen, sem er þrettán ára. Hún er stór hluti af okkar fjölskyldu, það má eiginlega segja að hún sé eins og okkar fimmta barn.“

Ragnhildur var aðeins sjö ára þegar móðir hennar lést eftir baráttu við krabbamein.

„Mamma var bara 27 ára þegar hún lést, og pabbi orðinn ekkill 28 ára. Hún fékk Hodkins-krabbamein, en nú orðið er hægt að meðhöndla sjúkdóminn með góðum árangri og því hefði hún líklega lifað ef þetta hefði gerst í dag,“ segir hún.

Hvað manstu frá þessum tíma?

„Það er erfitt að vita hvað er raunveruleg minning en ég man eftir ótrúlega góðri mömmu og þó að langt sé um liðið þá finnst mér ennþá svolítið erfitt að tala um þetta, sérstaklega eftir að ég eignaðist sjálf börn,“ segir Ragnhildur.

„Þrátt fyrir að vera ung áttaði ég mig að einhverju leyti á veikindum hennar. Minningin um það þegar mér var tilkynnt að hún væri dáin er enn ljóslifandi. Ég man þéttingsfast faðmlag en eftir það ekkert. Ég man ekki eftir jarðarförinni né neinu öðru næsta árið. Mér finnst ekki ólíklegt að ég hafi fengið áfall,“ segir hún og segir tímana vissulega hafi verið öðruvísi í þá daga og minna talað við börn um sorg og missi.

„Við vorum því bara tvö eftir, ég og pabbi, og hann elur mig einn upp. Ég var fljótt mjög sjálfstæð enda gerði ég mér grein fyrir því að við pabbi þyrftum að standa saman til að komast í gegnum þetta. Eitt af því dýrmætasta sem pabbi kenndi mér er að maður uppsker eins og maður sáir og það hafa svo oft reynst orð að sönnu,“ segir hún.

„Það er svo nokkuð mörgum árum seinna sem pabbi eignast systur mína. Þau búa hér rétt hjá þannig að það er mikill samgangur á milli húsa og mjög kært samband, enda á ég alveg frábæran pabba.“

Skoraði fyrir mig mark

Ástin kviknaði strax á unglingsárum og hafa þau Haukur Ingi og Ragnhildur verið saman síðan þá.

„Ég æfði bæði fimleika og körfubolta og valdi svo fimleikana sem ég æfði alveg til tvítugs,“ segir Ragnhildur en það voru einmitt íþróttirnar sem leiddu táningana saman.

„Ég var bara fimmtán og hann að verða átján þegar við kynntumst. Það var auðvitað í íþróttahúsinu þar sem hann var á fótboltaæfingu en ég á fimleikaæfingu,“ segir hún og upplýsir að þau hafi þá fylgst með hvort öðru úr fjarlægð í einhvern tíma.

„Svo fékk ég skilaboð frá vini hans um að ég ætti að mæta á næsta úrvalsdeildarleik því hann ætlaði að skora fyrir mig. Hann stóð við stóru orðin og þá var þetta bara komið,“ segir Ragnhildur og brosir.

Haukur var efnilegur fótboltamaður og fljótlega eftir að þau kynntust fór hann til Englands, á samning hjá Liverpool.

„Ég fór þá út til hans af og til og flutti svo til Englands þegar ég átti ár eftir af framhaldsskólanunum. Við fluttum svo heim og fórum bæði í háskólanám,“ segir hún.

Ragnhildur segist fljótt hafa vitað að Haukur væri maðurinn í lífi hennar.

„Hann er einstakur. Við erum ólík en samt lík og ég gæti ekki hugsað mér betri lífsförunaut.“

Eldey kom í draumi

Ragnhildur ber nafn móður sinnar, en fleiri konur í ættinni bera þetta mikla og sterka nafn.

„Amma mín og langalangamma hétu líka Ragnhildur Steinunn,“ segir hún og brosir.

Sjálf á hún eina stúlku sem fékk nafnið Eldey. Mögulega „neyðast“ þau hjón til að eignast eina stúlku í viðbót til þess að rjúfa ekki hefðina, en Ragnhildur segir góða ástæðu fyrir nafngiftinni á dótturinni.

„Eldey var eina nafnið sem ég var búin að viðra við manninn minn þegar ég var ólétt. Mér fannst nafnið sterkt og fallegt en súlubyggðin Eldey blasir við frá Reykjanesinu. Svo hringir mágkona mín einn daginn og segist hafa dreymt að ég gengi með stúlku og ég hafi skírt hana nafni sem hún hafði aldrei áður heyrt, Eldey. Það leið næstum yfir mig. Ég hafði engum sagt frá þessum hugleiðingum mínum, nema manninum mínum. Ég þorði ekki annað en að hlusta á draum mágkonu minnar. Þannig að það kom aldrei neitt annað til greina en að skíra hana Eldeyju, ef það yrði stelpa.“

Tvíburar í felum

Ragnhildur og Haukur giftu sig árið 2018 á fallegum stað á Ítalíu en þau hafði lengi dreymt um brúðkaup á erlendri grundu, innan um blóm og falleg tré.

„Við fundum stað í hæðunum rétt fyrir utan Verona. Í brúðkaupinu voru aðeins nánustu vinir og ættingjar. Ég er algjör blóma- og trjáaunnandi og þarna fann ég garð sem meðal annars er notaður við kennslu í garðyrkjufræðum. Umhverfið heillaði okkur undir eins enda á garðurinn sér langa og merkilega sögu,“ segir hún og sýnir blaðamanni dásamlegar brúðarmyndir sem eru eins og úr ævintýraveröld.

„Svo þegar við vorum að leggja af stað heim til Íslands var ég alveg viss um að ég væri ólétt. Ég fann það á mér,“ segir hún og segist hafa fengið staðfestingu á því við heimkomuna.

„Við fórum svo í sónar og þá er okkur sagt að ég sé líklegast með utanlegsfóstur. Það var auðvitað áfall og við tók tveggja daga rannsókn. Okkur var sagt að mögulega þyrfti ég að fara í aðgerð til að fjarlægja annan eggjaleiðarann. Nokkrum dögum síðar var ég svo kölluð inn í aðra skoðun og þá sást fósturvísir. Hins vegar var enginn hjartsláttur greinanlegur og við vorum því beðin um að koma aftur viku seinna. Við krossuðum fingur að þetta litla líf myndi dafna. Í þriðju skoðuninni var okkur svo sagt að ég gengi með tvíbura,“ segir hún og þó að það hafi tekið smá tíma að melta þessar fréttir var gleðin að vonum mikil,“ segir hún.

„Tindur og Stormur fæddust svo í mars 2019 og enn eru þeir stöðug uppspretta gleði en eiga eflaust líka eitthvað í baugunum og gráum hárum sem við foreldrarnir skörtum, “ segir hún og brosir.

„Við vorum komin með eldinn og ísinn og vantaði bara loftið og jörðina,“ segir Ragnhildur, en fyrir eiga þau fyrrnefndu Eldeyju, fædda 2010, og Jökul, fæddan 2013.

„Nöfnin lýsa tvíburunum ágætlega; Tindur er mjög jarðtengdur og yfirvegaður á meðan Stormur er skapmeiri,“ segir hún.

Það er alltaf líf og fjör á heimilinu, að sögn Ragnhildar, enda nóg að gera með fjögur börn og báðir foreldrarnir í krefjandi störfum, en Haukur Ingi vinnur hjá SidekickHealth sem er íslenskt heilbrigðistæknifyrirtæki.

Öldin var önnur

Ragnhildur Steinunn hefur snert á fjölbreyttum og ólíkum verkefnum á sínum náms- og starfsferli.

„Ég er með B.Sc. í sjúkraþjálfun en hef aldrei unnið við það. Þegar ég var að klára námið og var í verknámi á Landspítalanum, starfaði ég á sama tíma bæði í Kastljósinu og kynnti Söngvakeppnina. Þá lenti ég iðulega í því að gamla fólkið á spítalanum sagði; „þú ert svo lík þessari stelpu sem ég sá í Kastljósi í gær!“ án þess að átta sig á að um sömu manneskju væri að ræða,“ segir Ragnhildur og hlær.

„Það var auðvitað brjálað að gera en þarna var maður ungur og barnlaus,“ segir hún.

Fleira tók hún sér fyrir hendur á þessum árum, því eins og margir muna var hún kosin Ungfrú Ísland árið 2003.

Ragnhildur segist sem minnst vilja tala um það, enda hefur hún áorkað ýmsu síðan þá sem hún vilji frekar ræða um.

„Öldin var önnur þá. Ég horfi ekkert til baka með eftirsjá því allt er reynsla. Ég hef hins vegar afrekað margt síðan þá og finnst miklu áhugaverðara að tala um það og miðla þeirri reynslu.“

Söngvakeppnin vítamínsprauta

Hvernig dastu inn í sjónvarpið, nemi í sjúkraþjálfun?

„Ég tók þátt í nokkrum leiksýningum, meðal annars Fame sem var sett upp í Smáralindinni. Þá var bent á mig fyrir prufu í unglingaþátt sem hét Ópið. Ég fékk starfið, og varð einn þriggja umsjónarmanna. Eftir ár í Ópinu fór ég yfir í Kastjósið þar sem ég öðlaðist gríðarlega reynslu. Ég vann með reynslumiklu fólki og fékk að takast á við fjölbreytt verkefni og er ég óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið það tækifæri,“ segir hún.

„Síðar meir duttu fleiri verkefni á borðið eins og Söngvakeppnin, Óskalög þjóðarinnar, Dans dans, dans, Ísþjóðin og beinar útsendingar frá ýmsum viðburðum. Auk þess vann ég að heimildamyndum líkt og „Ég gafst ekki upp“ og „Hrafnhildur“ en þar fékk leikstjórinn og framleiðandinn í mér útrás. Við tóku svo verkefni eins og að ritstýra Hæpinu og öðrum þáttum sem var virkilega skemmtilegt,“ segir hún.

Söngvakeppnin er eitt af þeim stóru verkefnum sem Ragnhildur Steinunn hefur haldið utan um og leitt nær viðstöðulaust frá árinu 2007 og sinnir enn.

„Í upphafi kom ég inn í Söngvakeppnina sem kynnir enda hafði ég litla sem enga reynslu af dagskrárgerð og framleiðslu á þeim tíma. Hlutverk mitt þar hefur svo breyst með árunum og hef ég haldið utan um dagskrárgerð og kem að flestu sem við kemur keppninni ásamt Rúnari Frey Gíslasyni. Fyrir um sex árum byrjuðum við markvisst að byggja keppnina upp og óhætt er að segja að sú vinna hafi gengið vel. Þetta er algjör vítamínsprauta inn í janúar og febrúar hjá mér og einstaklega skemmtileg vinna,“ segir hún.

„Ég hef verið svo lánsöm að fá tækifæri til að vaxa og þróast í starfi innan veggja RÚV. Smátt og smátt fékk ég að koma meira að dagskrártengdum málefnum sjónvarps og það, meðal annars, leiddi af sér að ég var ráðin aðstoðardagskrárstjóri sjónvarps árið 2018; starf sem ég gegni enn. Það hefur verið lærdómsríkt að vinna með Skarphéðni Guðmundssyni dagskrárstjóra; hann er reynslubolti í faginu og hefur einstaklega gott nef fyrir góðum hugmyndum. Við erum sannarlega ólík sem styrkir okkur sem teymi. Það er mikilvægt að fjölbreyttur hópur fólks komi að vali dagskrárefnis og gerð dagskrárstefnu almannamiðilsins. Það er magnað að upplifa þá ástríðu og þann áhuga sem samstarfsfólk RÚV hefur fyrir sínu starfi. Helgun starfsfólks er auðvitað gríðarlega dýrmæt og eitthvað sem stjórnendur þurfa að vera meðvitaðir um,“ segir Ragnhildur og segir starfið henta sér fullkomlega.

Þurfum að vera á tánum

Ertu fullkomnunarsinni?

„Ég myndi segja að ég hafi verið það meira áður. Núna hef ég lært að láta það ekki þvælast fyrir mér og geri það meðvitað. Ef þú þorir aldrei að taka skot á markið munt þú aldrei skora,“ segir hún.

„Það vita allir sem vinna með mér að þegar ég tek að mér verkefni er ég „all in“. Þau eiga þá hug minn og hjarta. Ég get legið í tölvunni til þrjú, fjögur á nóttinni að textaklippa þætti, skrifa handrit og útfæra viðtalssenur. Þetta er bæði áhugamál og vinna. Ég held að sumir geri sér ekki grein fyrir að maður er allt í öllu. Mér finnst gott að vera með góða yfirsýn yfir mín verkefni vegna þess að það nærir mig og auðgar hugmyndaflug mitt,“ segir hún.

Spurð um mannkosti sína og galla nefnir Ragnhildur að hún sé dugleg og fylgin sér, en mögulega svolítið þrjósk.

„Ég er örugglega svolítið stjórnsöm á sama tíma og ég legg mig fram um að vera opin fyrir tillögum annarra. Við Rúnar Freyr vinnum til að mynda ofsalega vel saman í Söngvakeppninni og öðrum verkefnum. Það ríkir gagnkvæmt traust og við vitum hvar styrkleikar okkar og veikleikar liggja. Það er ekkert sjálfsagt að mynda svona samstarf og því þarf að rækta það vandlega.“

Ragnhildur segir að kórónuveiran hafi að sjálfsögðu haft veruleg áhrif á alla dagskrárgerð og sér ekki fyrir endann á því.

„Ég byrjaði að vinna eftir fæðingarorlof um það leyti sem fyrri bylgja kórónuveirunnar skall á. Það var auðvitað bæði erfitt og svekkjandi en um leið rifjaðist upp fyrir mér hvað þetta er magnað starf og vinnustaður. Á meðan önnur fyrirtæki þurftu að draga saman seglin þurftum við á RÚV heldur betur að spýta í lófana. Við þurftum ekki bara að sinna hlutverki okkar sem öryggis- og almannavarnir, heldur líka að bregðast á einhvern hátt við skertri afþreyingu í þjóðfélaginu. Við settum á laggirnar MenntaRÚV sem var nokkurs konar viðbragð við skertu skóla- og frístundastarfi og því til stuðnings framleiddum við þættina Heimavist,“ segir hún.

„Við streymdum beint frá Sinfó og reyndum að færa fólki menninguna með öðrum leiðum og eldri borgarar fengu sína leikfimi í gegnum sjónvarpið. Á þessu nærumst við; að geta brugðist við þörfum almennings. Við erum auðvitað búin að leggja línurnar fyrir vetrardagskrána, en í þessu óvissuástandi er viðbúið að ýmsir viðburðir falli niður og við þurfum að bregðast við því. Við þurfum að vera á tánum og spila þetta eftir eyranu. Það eru nýjar áskoranir á hverjum degi.“

Bíð eftir að Balti hringi

Bökkum aðeins; nú hefur þú leikið í kvikmyndum líka. Hvernig vildi það til?

„Já, einmitt,“ segir hún og hlær.

„Þegar ég var lítil þá átti ég mér draum um að verða leikkona og sótti um hlutverk í Bíódögum, en fékk ekki. Eftir að hafa tekið þátt í nokkrum leiksýningum, eins og Kalla á þakinu og Fame eins og ég nefndi áðan, leiddi eitt af öðru,“ segir Ragnhildur.

„Ég var svo beðin um að koma í prufu fyrir aðalhlutverkið í Astrópíu. Leikstjóri myndarinnar taldi mig réttu manneskjuna í hlutverkið, en mér fannst launin of lág þannig að ég afþakkaði gott boð. Leikstjórinn var hins vegar staðráðinn í að ráða mig þannig að ég settist aftur við samningsborðið með framleiðendum myndarinnar og það tókst að semja. Í kjölfar þess lék ég í fleiri kvikmyndum. Það er gaman að leika; að geta fjarlægst sjálfa sig í smá stund,“ segir Ragnhildur.

„Ég er ekki menntuð leikkona en ég er ágæt í að taka leiðsögn. Ef leikstjórinn er góður er hægt að galdra ýmislegt fram,“ segir Ragnhildur en hún hefur leikið alls í sex kvikmyndum.

„Nú bíð ég bara eftir að Balti hringi,“ segir hún og hlær.

Hamingja barna minna

Kaffið er löngu kólnað í bollunum og börnin þurfa athygli móður sinnar. Við eigum þó eftir að tala um áhugamálin, þó að ljóst sé að fjölskyldan og vinnan séu áhugamál númer eitt, tvö og þrjú. En eitt á hug Ragnhildar sem er algjörlega ótengt vinnu og fjölskyldu.

„Það eru blómin, hin börnin mín; ég elska blóm,“ segir hún og hlær.

„Mig dreymir um að eignast gróðurhús. Það er skemmtilegt að segja frá því að ég erfði víst þennan áhuga frá mömmu minni. Pabbi lét mig hafa allar gömlu garðyrkjubækurnar hennar. Mér þykir mjög vænt um það; það tengir okkur á einhvern hátt,“ segir hún.

„Svo finnst mér æðislegt að fara í göngu- og hjólatúra. Það er ekki mikið pláss í lífinu fyrir ræktina þannig að ég reyni að hreyfa mig um leið og ég get notið samverustunda með fjölskyldunni. Það tekur á að ýta á undan sér tvíburavagni,“ segir hún kímin.

Ragnhildur nýtur þess að lifa lífinu og njóta augnablikanna.

„Maður þarf að leyfa sér að taka þátt í eigin tilveru; það má ekki drekkja sér í vinnu. Lífið er ævintýralegt ferðalag.“

Spurð um framtíðarplön segir Ragnhildur: „Langtímaplanið snýr að hamingju barna minna og að njóta lífsins með þeim. Ég hefði aldrei ímyndað mér að eignast fjögur börn, ég sem er alin upp sem einbirni. Ég nýt þess í botn að vera mamma. Það er vissulega krefjandi á köflum en að sama skapi svo mikil betrun,“ segir Ragnhildur.

„En svo er það þetta jafnvægi milli vinnu og fjölskyldu eins og ég nefndi áðan. Þessi dýrkun á duglega fólkinu sem vinnur allan sólarhringinn er hættuleg. Ég vil að það sé dáðst að mér fyrir hvernig ég sinni börnum og fjölskyldu; ekki bara vinnunni minni. Það geta margir leyst mig af í vinnunni en það á enginn að leysa mig af í móðurhlutverkinu.“