Metið hefur verið að einn og hálfur milljarður tapist á ári vegna netglæpa og gæti sú upphæð hæglega verið vanmetin

Glæpamenn gerast stöðugt atkvæðameiri á netinu. Allt of mikið er um að fólk gái ekki að sér þegar svikahrappar eru á ferð, en einnig eru gerðar árásir á einstaklinga og fyrirtæki og síðan krafist lausnargjalds fyrir skil á upplýsingum eða einfaldlega fyrir að linna látum þannig að starfsemi geti haldið áfram með eðlilegum hætti á ný.

Í frétt í Morgunblaðinu í gær leiðir Daði Gunnarsson, fulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, getum að því að hátt á annan milljarð króna tapist á ári hverju. Í fyrra var umfangið metið á 1,6 milljarða króna.

Netglæpir eru erfiðir viðfangs, ekki síst vegna þess að gerendurnir geta verið niðurkomnir hvar sem er í heiminum og erfitt að ná til þeirra.

Tilefni fréttarinnar í blaðinu í gær er að lýst var yfir óvissustigi í fjarskiptageiranum í gær vegna harðrar árásar á íslenskt fyrirtæki í net- og upplýsingaþjónustu. Nafn fyrirtækisins var ekki gefið upp.

Vaxandi glæpastarfsemi á netinu kallar á varnir og þær geta kostað sitt. Það er hins vegar óhjákvæmilegt að fyrirtæki grípi til varna og reyni að búa þannig um hnúta að ekki séu margir veikir blettir á kerfum þeirra.

Hrafnkell Viðar Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir í fréttinni að hann telji að umfang netglæpa sé mjög líklega vanmetið og tapið gæti verið tífalt meira en nefnt er hér að ofan. Ein ástæðan fyrir því sé sú meinta skömm sem virðist fylgja því að hafa orðið fyrir barðinu á netþrjótum. Í raun er skömmin þó engin. Voldugustu leyniþjónustur heims hafa reynst berskjaldaðar þegar að þeim hefur verið sótt. Hins vegar er mikilvægt að tilkynna árásir og blekkingar á netinu til þess að aðrir átti sig á aðferðum netglæpamanna og geti varist, eins og Hrafnkell bendir á.

Netglæpir eru hvimleitt fyrirbæri og geta verið stórskaðlegir. Aðferðirnar verða svæsnari og blekkingarnar trúverðugri nánast með hverjum deginum. Það er því mikilvægt að vera á varðbergi, láta ekki undan hótunum, borga ekki gervireikninga og hafa í huga ef það freistar að taka gylliboði í tölvupósti að peningar vaxa ekki á netinu frekar en á trjám.