Eva Margit Wang Atladóttur
Eva Margit Wang Atladóttur
Eftir Evu Margit Wang Atladóttur: "Ég kemst ekki hjá því að finnast eins og þetta ár og næstu árin, þar til við komumst endanlega yfir þennanhjalla, hafi líf mitt verið sett á bið."

Um hálft ár er liðið frá því að framhaldsskólar og háskólar voru lokaðir og strangar samkomutakmarkanir voru settar á. Þá var ég á minni síðustu önn í framhaldsskóla og kláraði stúdentspróf heima, fyrir framan tölvuskjáinn. Að vera svona aðskilin vinum og kunningjum í skólanum tók mjög á og ég fann fyrir mikilli depurð og einsemd eins og aðrir síðasta misserið. Við fundum samstöðu á fjarfundum þar sem allir voru sammála um að láta sig hafa þær breytingar sem nauðsynlegar voru til að komast yfir þennan hjalla. Sjálf einbeitti ég mér bara að skólanum og því sem ég þurfti að gera til að ná mínum markmiðum og fá stúdentsprófið í hendurnar. Tíminn leið hratt og fyrr en varði var ég mætt á bílastæði Verzlunarskólans og fylgdist himinlifandi með samnemendum mínum útskrifast á skjánum. Stuttu síðar var slakað á samkomutakmörkunum enn frekar. Ég fann vel hvernig síðustu mánuðir höfðu tekið á og það var gott að fá aðeins að komast út fyrir dyr og í fjölmenni aftur. Ég tók eftir því hvernig kórónuveirufaraldurinn hætti að vera málefni líðandi stundar hjá aldurshópnum. Það var eins og hann væri ekki til lengur.

Þetta þykir mér mikilvægt að hafa í huga því í raun var það vonin um að þetta myndi fljótt líða hjá sem kom okkur í gegnum fyrstu mánuðina af samkomutakmörkunum. Aftur á móti sjá allir sem fylgjast með að það muni ekki gerast á næstunni. Umtalað er að lausnin liggi í því að „lifa með Covid-19“. Það er það eina sem hægt er að gera í stöðunni sem við nú erum í. Við verðum að hafa hægt um okkur um tíma og passa upp á einstaklingssóttvarnir. Þar með þurfum við að halda okkur frá fjölmenni, viðhalda fjarlægðartakmörkunum, þvo hendur og nota andlitsgrímur. Skiljanlegar kröfur ekki satt? Þetta er það sem þarf að gera og við verðum bara einfaldlega að verða við því. Það breytir því nú samt ekki að þetta tekur á og áskoranir eru mjög ólíkar eftir aldurshópum.

Á síðasta misseri eltist ég um eitt ár, nú er ég 19 ára gömul samkvæmt almanakinu. 19 ára gömul stúlka ætti varla að hugsa svona mikið um aldur sinn en ég kemst ekki hjá því að finnast eins og þetta ár og næstu árin, þangað til við komumst endanlega yfir þennan hjalla, hefur líf mitt verið sett á bið. Frá því í marsmánuði hef ég mjög takmarkað hitt vini mína og kunningja sem ég sakna meira en ég gerði ráð fyrir. Jú, ég get hitt eina og eina manneskju en ég sakna þess mikið að sjá aðra en mína nánustu. Að sjá aðra og vera séð. Af þessari ástæðu finnur stór hluti ungmenna í dag fyrir einmanaleika. Okkur leiðist, það er ekkert að frétta og við bíðum bara eftir því að fá að gera eitthvað. Þótt staðan gæti vel verið verri þá kemst ég ekki upp úr þessari vanlíðan sem grípur mig stanslaust. Ég sé fram á að ég muni vakna eftir kannski eitt, tvö eða þrjú ár og jú, lausn hefur verið fundin á faraldrinum en ég er á sama stað og ég var þegar ég var 18 ára að klára stúdentspróf.

Af þessari ástæðu finn ég til með þeim sem bregðast við þessari vanlíðan og fá fyrir það óvægna gagnrýni. Það að framkvæma í hugsunarleysi er víst engin afsökun en er það ekki það sem maður gerir á þessum aldri? Við erum öll að reyna að læra að lifa með Covid-19 en þetta er snúið og þá sérstaklega fyrir ungt fólk sem þarfnast þess félagsskapar sem fylgir því að mæta í skóla og samkvæmi.

Þess vegna er mjög skiljanlegt að fólk og þá sérstaklega ungt fólk með lífið framundan geri mistök við að reyna að viðhalda geðheilsunni og um leið virða sóttvarnareglur. Það er mikilvægt að forðast þá slæmu umræðu sem hefur myndast um þau sem gera slík mistök. Umræðan einkennist gjarnan af miklum fordómum og mér þykja kynþáttafordómar og kynjamismunun mjög áberandi hluti af henni. Satt að segja veit ég ekki hvort þeir sem láta mest í sér heyra í þessum málum hefðu gert betur en við í þessum aðstæðum. Kannski, en mér þykir það nú samt ólíklegt. Ég get að minnsta kosti sagt að þegar þyrmir yfir mig vegna þessa faraldurs er ég líkleg til þess að finna upp á alls konar vitleysu til að komast hjá því að vera jafn föst og einangruð og ég hef upplifað mig síðustu daga og mánuði.

Höfundur er háskólanemi.

Höf.: Evu Margit Wang Atladóttur