Liðinn tími Jaðarsel við Vesturgötu á mynd Guðmundar frá 1965 eða 66.
Liðinn tími Jaðarsel við Vesturgötu á mynd Guðmundar frá 1965 eða 66. — Ljósmynd/Guðmundur Ingólfsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gamlar syndir og nýjar er heiti sýningar á ljósmyndum eftir Guðmund Ingólfsson sem verður opnuð í sýningarsalnum Ramskram að Njálsgötu 49 í dag, laugardag. Er sýningin opin milli klukkan 14 og 18 um helgar til 4.
Gamlar syndir og nýjar er heiti sýningar á ljósmyndum eftir Guðmund Ingólfsson sem verður opnuð í sýningarsalnum Ramskram að Njálsgötu 49 í dag, laugardag. Er sýningin opin milli klukkan 14 og 18 um helgar til 4. október en Ramskram er sjálfstætt starfandi sýningarrými tileinkað samtímaljósmyndun.

Guðmundur er einn þekktasti ljósmyndari landsins; starfaði um áratuga skeið sem iðnaðarljósmyndari en hefur einnig verið merkur frumkvöðull á sviði skapandi ljósmyndunar. Á þessari sýningu verða, að sögn Guðmundar, „einar 7-8 nýjar myndir, aðallega af fólki sem ég hitti og þó einkum fólkinu mínu, og tæplega 20 gamlar syndir“. Um þær myndir segir hann að við tiltekt á ljósmyndastofunni hafi fundust litslæður frá árunum 1966 til 70. Myndirnar tók Guðmundur á Hasselblad-vél áður en hann hélt til náms í Þýskalandi, þar sem hann lærði hjá hinum þekkta ljósmyndara Otto Steinert í Essen. Hann hafði hætt námi í Háskólanum og vann við múrverk um skeið.

„Fyrst eignaðist ég Hasselblad 1966 en mér voru gefnir svo miklir peningar í stúdentsgjöf að ég gat keypt vélina,“ segir hann. „Þá byrjaði ég að mynda á hana og svo þénaði ég ágætlega í múrverkinu, lagði fyrir aura, og gat keypt mér 150 mm linsu sem pabbi smyglaði inn fyrir mig frá Kaupmannahöfn. Hún kostaði 200 dollara. Ég var að prufa hana þegar ég tók þessar myndir af múrurunum, og fleiri til sem ég sýni nú, en til að sýna þeim myndirnar setti ég þær í gler-slædsramma. Þessar myndir hafa síðan verið í kassa sem hefur þvælst fyrir mér gegnum árin.

Þegar ég var að tæma vinustofuna fyrir nokkru þá fann ég þessar myndir aftur og skannaði þær loksins inn og prentaði,“ segir Guðmundur.