Sigfríður Nieljohníusdóttir fæddist 9. maí 1920. Hún lést 4. september 2020.

Útförin fór fram 10. september 2020.

Það er margt hægt að segja um manneskju sem hefur lifað í heila öld. Um Fríðu getur maður farið mörgum orðum um mannkosti, glaðværð og heiðarleika. Um skáldskapargáfu, greind og staðfestu. Maður getur líka sagt að það eru ekki margir sem hafa kveikt sér í sígarettu á Hekluhrauni árið 1947.

En það gerði Fríða og hló að. En síðan eru liðin mörg ár og einhvern tímann endar allt. Það er gott að vita að Fríða kvaddi sátt við sig og sína. Minning hennar lifir. Ólöf mín, Sæli, fjölskyldur ykkar og Júlla.

Við sendum ykkur hugheilar kveðjur.

Kristín (Stína) og Stefán (Stebbi).

Allt er í heiminum hverfult en elsku Fríða Nill, eins og hún var alltaf kölluð á heimili okkar, var einhvern veginn eilíf í huga okkar systkina.

Það eru hrein forréttindi að hafa átt hana að og verið hluti af hennar lífi. Það var mannbætandi að vera í návist hennar og hún jók bjartsýni á lífið og tilveruna með sínu fallega lífsviðhorfi.

Á þessari stundu er okkur efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að fagna með henni 9. maí sl. er hún hélt upp á 100 ára afmælið sitt í miðjum heimsfaraldri.

Þar lék hún við hvern sinn fingur og lýsti eins og sólin sem skein á heiðum himni á þessum fallega degi. Fríða hélt einlæga ræðu þar sem hún þakkaði öllum þeim sem fylgt höfðu henni á lífsleiðinni og fyrir það sem hún hafði fengið að njóta. Í orðum hennar kom í ljós það sem einkenndi hana: jákvæðni, glaðlyndi, jafnaðargeð og umfram allt þakklæti.

Fríða var æskuvinkona foreldra okkar, þeirra Erlu Haraldsdóttur og Gísla Ólafssonar, auk þess sem hún og faðir okkar voru bekkjarsystkini og samstúdentar í MR. Alla tíð hélst þessi einlægi og fallegi vinskapur og er foreldrar okkar voru fallnir frá hélt þetta dásamlega samband áfram á milli hennar og okkar systkina. Við áttum fast stefnumót við hana tvisvar á ári og var það á afmælisdaginn hennar og fyrir jólin.

Á þessum stundum nutum við þess að spjalla um allt milli himins og jarðar því Fríða var hafsjór af fróðleik.

Hversu yndislegt var það líka að heyra um lífið og tilveruna í gamla daga og allt sem hún og foreldrar okkar höfðu upplifað saman. Það var eins og að ganga inn í tímavél því minni hennar var óþrjótandi og nutum við þess til hins ýtrasta að hlusta á hana.

Margt og mikið væri hægt að setja á blað er við rifjum upp allar dásamlegu stundirnar sem við áttum með Fríðu en fyrst og síðast er okkur þakklæti efst í huga fyrir allt sem hún var okkur og gaf.

Við sendum hugheilar kveðjur til allra ástvina Fríðu.

Elsku Fríða okkar Nill, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Arndís, Hildur og Ólafur Ágúst Gíslabörn.

Sumar manneskjur eru þannig að þær lýsa upp sitt umhverfi og lyfta anda allra viðstaddra. Sigfríður Nieljohníusdóttir var svona kona. Hvar sem hún kom stafaði af henni glaðværð og innileiki. Í hennar návist var bókstaflega ekki unnt að vera þungbúinn.

Ég var orðinn fullorðinn maður er ég fyrst hitti Sigfríði og þekkti hana í rauninni aldrei vel.

En mér er tjáð að svona hafi hún verið öll hundrað árin sem hún lifði.

Hún fékk sinn skerf af áföllum lífsins en stóð ætíð óbifuð sem klettur og hélt ótrauð áfram að létta okkur hinum lífið. Að þessari góðu konu er mikill missir.

Ragnar Árnason.