[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af mörgum vondum hugmyndum sem við mennirnir höfum fengið er hugmyndin um okkur og hin sennilega ein af þeim allra verstu.

Af mörgum vondum hugmyndum sem við mennirnir höfum fengið er hugmyndin um okkur og hin sennilega ein af þeim allra verstu. Við fyrstu sýn getur hún virst fögur: við sem eigum heima á sama svæði, tölum svipað tungumál, höfum svipaðar trúarhugmyndir, siði og venjur, við hjálpumst að. En hugmyndin versnar þegar við ímyndum okkur að það sem við gerum sé á einhvern hátt réttara og betra en það sem hin gera; að okkar land sé fallegast, tungumálið tilkomumest og trúin sú eina rétta. Afkáraskapur þessarar hugmyndar hefur oft leitt til hörmunga og stríða þegar við veljum okkur andstæðinga af öðru þjóðerni, með aðra trú, hörundslit eða kynhegðun en við höfum, og teljum okkur rétt og skylt að fara að hinum með vopnum, hneppa þau í varðhald eða aflífa fyrir þá sök eina að hugsa um guð og kynhegðun á annan veg en við .

Mörgum er ekki ljóst hvað einsleitni þjóðernishyggjunnar hefur leikið málpólitíkina grátt. Þegar núverandi þjóðríki í Evrópu voru að festa sig í sessi þurfti einhver hinna fjölmörgu mállýskna innan ríkjanna að verða opinbert ríkismál. Guðmundur Björnsson, landlæknir og skáld, var áhugamaður um slíka samræmingu hér á landi við upphaf síðustu aldar en þekktastar eru tillögur Björns Guðfinnssonar um samræmingu framburðar „svo sem í flestum menningarlöndum“ um miðja öldina. Bar þar hæst sunnlenskan hv-framburð og harðmæli að norðlenskum hætti – sem þótti sérlega fagurt mál. Þá var sjálfsagt að halda flámæltu fólki frá útvarpi og Þjóðleikhúsi – og útlendur hreimur mátti ekki heyrast opinberlega eins og lesa má um í bók Kjartans Ottóssonar, Íslenskri málhreinsun .

Enda þótt breytileiki í máli hér á landi kallist ekki mállýskur má finna svæðisbundin máleinkenni sem auðga málsamfélag okkar og gera það fjölbreyttara og þar með skemmtilegra – eins og á almennt við um mannlífið. Kristján Árnason skrifaði um þetta í 1. bindi Íslenskrar tungu og óskandi væri að þau sem misstu sig í ofstækisfullri vandlætingu í ágústbyrjun yfir svokölluðum n-framburði menntamálaráðherra – í nafni hugmyndarinnar um hinn eina rétta framburð okkar – hefðu kynnt sér það sem vitað er um framburðinn að segja skól an ir en ekki skól ardn ir eða skól arn ir. Kristján rekur að þessi framburður þekkist á svæðinu frá Rangárvallasýslu til Mýrasýslu og eigi sér langa sögu. Til dæmis ritar Páll Hákonarson (1693-1742) lögsagnari (um tíma skrifari Árna Magnússonar) ekki –r- í sögu r nar – sem er þannig elsta þekkta dæmið um þennan n-framburð. Páll var fæddur í Norðtungu í Borgarfirði en fluttist ungur með foreldrum sínum í Rangárþing – eins og Jón Helgason skrifar í Opuscula 4. Enda þótt faðir Páls hafi verið orðaður við málaþras og ofdrykkju og Páll sjálfur drukknað við veiðiskap í Vetleifsholti getur hver íslenskumælandi maður verið ánægður með framburð sem var skrifara Árna Magnússonar eiginlegur.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is

Höf.: Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is