Rósa Eggertsdóttir
Rósa Eggertsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Rósu Eggertsdóttur: "Hermundur fullyrðir að hljóðaaðferð sé besta kennsluaðferð í lestri og deilir á Byrjendalæsi. Kallað er eftir rökstuðningi frá Hermundi."

Í áraraðir hefur þú fjallað um lestrarkennslu á Íslandi (sjá t.d. Morgunblaðið 4. febrúar 2014 og Ísland í dag, 7. september 2020). Þú hefur áhyggjur af slakri stöðu íslenskra barna og ungmenna í lestri, einkum stráka, og vísar til dalandi gengis á PISA-prófum frá árinu 2000. Í sömu andrá hnýtir þú iðulega í Byrjendalæsi en segir ekki hvað það er í aðferðinni sem fer fyrir brjóstið á þér. Þar af leiðandi er erfitt að bregðast við þessari sérkennilegu gagnrýni. Ég hef ítrekað kallað eftir upplýsingum frá þér um þessa gagnrýni í tölvupósti og óskað eftir samtali við þig án árangurs. Gagnrýni þín er því órökstudd.

Frammistaða íslenskra barna á PISA-prófunum bendir ekki til þess að aðdáun þín á hljóðaaðferðinni sé á rökum reist. Íslendingar hafa þekkt aðferðina í meira en 100 ár (Jón Þorkelsson, 1908) og frá árinu 1932 var hún kennd öllum kennaranemum (Gísli Magnússon, 1972). Í skýrslu sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið (Auður M. Leiknisdóttir o.fl. 2009) er fullyrt að hljóðaaðferðin sé ríkjandi í lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum og að sáralítil formleg læsiskennsla eigi sér stað eftir að yngsta stigi grunnskóla lýkur. Það bendir því flest til að 90-100% þeirra barna sem tóku PISA-prófið á árunum 2000 til og með 2015 hafi lært að lesa með hljóðaaðferðinni. Skólar gátu fyrst innleitt Byrjendalæsi haustið 2006 en þann vetur voru innan við 10 skólar sem tóku upp aðferðina. Þeirra nemendur tóku PISA-prófið 2015 (sjá töflu).

Kjarninn í hljóðaaðferðinni er að ná tökum á sambandi stafa og hljóða og umskrárfærni. Í þeirri aðferð vinna nemendur aðallega með einfalda færni sem gerir litlar kröfur um rökhugsun. Þeir læra einn staf í einu og sjá ekki merkingarbæran texta fyrr en seint og síðar meir. Aðferðin einkennist af tæknilegum áherslum. Fyrir þær sakir, meðal annars, hefur aðferðin sætt gagnrýni (Resnick og Resnick, 1992; Rumelhart, 1977). Í síðustu viku kom sex ára nemandi sem ég þekki heim með lesefni. Það var á þessa leið: I I I I, i i i i, L L L L, l l l l. il il il il. Ó Ó Ó Ó, ó ó ó ó. Ló Ló Ló Ló, ló ló ló ló. Lóló, Óli, Lóló, Óli, Lóló, Óli. Í þessum „texta“ er ekkert samhengi og engin merking.

Það er misskilningur að halda því fram að hljóðaaðferðin sé ein um að leggja áherslu á samband stafs og hljóðs. Það er gert ítarlega í samvirkum aðferðum í læsiskennslu (e. balanced approach og integrated approach) þar sem Byrjendalæsi á rætur sínar. Slíkar aðferðir eru vel þekktar meðal læsisfræðinga og byggðar á víðtækum rannsóknum. Í bókinni Hið ljúfa læsi (Rósa Eggertsdóttir, 2019) er gerð grein fyrir báðum þessum aðferðum.

Á sviði lestrar og læsis verða framfarir eins og á öðrum sviðum skólastarfs. Að ná tökum á sambandi stafs og hljóðs og umskráningu er einungis anddyri þess að vera læs. Til að geta mætt kröfum þjóðfélagsins um flókna læsisfærni þarf því meira að koma til. Samvirkar aðferðir, og þar með Byrjendalæsið, hafa mætt þessum kröfum. Í samvirkum aðferðum er læsiskennslan sett í merkingarbært samhengi svo nemandinn sjái tengsl talmáls og ritmáls. Auk umskráningar er lögð rík áhersla á orðaforða, blæbrigði máls, margvíslegar lesskilningsaðferðir, greiningu á textum og ritun. Þetta og meira til einkennir Byrjendalæsið. Í Töflu 2 er gerður samanburður á helstu þáttum lestrarkennslunnar á milli Byrjendalæsis og hljóðaaðferðarinnar.

Hljóðaaðferðin var kærkomið barn síns tíma fyrir nær hundrað árum. Á þeim tíma sem liðinn er hefur rannsóknum fjölgað gríðarlega, einkum síðustu fjóra áratugina. Þekking á árangursríku námi og kennslu læsis hefur aukist að sama skapi. Samvirkar aðferðir hafa reynst farsæll farvegur nýja starfshætti við læsiskennslu.

Í mestu vinsemd bendi ég þér á kynningarmyndband um Byrjendalæsi en þar má sjá hvernig staðið er að kennslu stafs og hljóðs í Byrjendalæsi, sjá slóð https://tinyurl.com/y3nuejd2/ .

Höfundur er fv. sérfræðingur hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og er höfundur Byrjendalæsis. rosa@ismennt.is

Höf.: Rósu Eggertsdóttur