Tvö eftir partí Kristín Þóra og Hilmar í hlutverkum sínum í Upphafi.
Tvö eftir partí Kristín Þóra og Hilmar í hlutverkum sínum í Upphafi. — Ljósmynd/Hörður Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Mér finnst skemmtilegast þegar verk bjóða upp á vítt litróf í tilfinningaskalanum. Þetta er allt saman svolítið vandræðalegt og fyndið, en þarna er líka tregi og einmanaleiki sem svífur yfir.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Mér finnst skemmtilegast þegar verk bjóða upp á vítt litróf í tilfinningaskalanum. Þetta er allt saman svolítið vandræðalegt og fyndið, en þarna er líka tregi og einmanaleiki sem svífur yfir. Eftir því sem verkinu vindur fram og við kynnumst þessu fólki betur, því lengra köfum við inn í sálartetur þess og þar með opnast á kvikuna. Við sjáum inn í sálina, sem er bæði fallegt, sorglegt og stundum svolítið kómískt,“ segir María Reyndal um leikritið Upphaf , sem hún leikstýrir og frumsýnt verður í Kassanum í Þjóðleikhúsinu á morgun, laugardag 19. september.

„Í þessu verki erum við stödd á miðnætti heima hjá Guðrúnu framkvæmdastjóra að nýloknu innflutningspartíi í glæsilegri íbúð hennar í Vesturbænum. Hún er um fertugt, einhleyp kona, og einn af gestunum hefur orðið eftir, Daníel, maður á svipuðu reki. Hann er fráskilinn faðir sem býr tímabundið hjá móður sinni. Þau eru ókunnug en það liggur í loftinu að þau hafa áhuga hvort á öðru og eru að reyna að ná saman þessa nótt, en það gengur á ýmsu. Þetta er létt og skemmtilegt leikrit, en undirtónninn er alvarlegur,“ segir María og bætir við að hlutverkin tvö séu í höndum þeirra Kristínar Þóru Haraldsdóttur og Hilmars Guðjónssonar.

Hefðu gefist upp á Tinder

Upphaf er nýtt verk eftir David Eldridge sem frumsýnt var í London fyrir þremur árum. Fyrir vikið er í verkinu komið þó nokkuð inn á samskipti fólks í netheimum, á samfélagsmiðlunum þar sem fólk upplifir allskonar tilfinningar út frá því hvernig einhver bregst eða bregst ekki við skilaboðum á þeim vettvangi.

„Mér finnst skemmtilegt núna á covid-tímum að vera með verk þar sem einhleypt fólk er að reyna að nálgast hvort annað í stofunni heima hjá öðrum aðilanum. Það gengur nokkuð brösuglega, kannski vegna þess að fólk er vanara því að vera í samskiptum eða viðreynslum á Tinder eða öðrum netmiðlum, þar sem það getur verið í einhverjum hlutverkum. Þegar Guðrún og Daníel eru tvö ein eftir í rýminu, augliti til auglitis, þá reyna þau til þrautar. Þau hefðu eflaust ekki gert það á samfélagsmiðlum, þar hefðu þau örugglega gefist fljótt upp. Þau hefðu ekki reynt svona lengi í netheimum, því þau eru með mjög ólíkan bakgrunn og eru í ólíkri stöðu í lífinu. Í verkinu er dregin upp mynd af Guðrúnu sem sterkum framkvæmdastjóra, sjálfstæðri konu með flotta nýja íbúð og í góðri stöðu. Hún þarf í rauninni ekkert á manni að halda í sínu lífi, eins og hún segir sjálf. Hann er aftur á móti fráskilinn og brenndur með forsögu, þannig að þau eru ekki tvítugir krakkar að hoppa upp í rúm, heldur er miklu meira í húfi hjá þessu fólki. Þau eru á miðjum aldri og með heilmikinn pakka sem gerir þeim erfitt fyrir, hvort þau eigi að hrökkva eða stökkva. Óttinn við nánd og skuldbindingu þvælist fyrir þeim sem og óttinn við að vera berskjaldaður. Svo er það efinn og hugrekkið, hvort eigi að þora að sýna veikleika, þrátt fyrir að verða mögulega hafnað. Við sjáum í gegnum verkið mismunandi hliðar á þessu fólki, í lok verks sjáum við allt aðra mynd af þeim en í upphafi verks.“

Þekktir Íslendingar nefndir

Hvernig gekk að staðfæra breskt leikrit að íslenskum samtíma?

„Þýðandinn Auður Jónsdóttir hefur unnið frábært verk í staðfæringu, en við leggjum líka í púkkið á æfingum. Mér finnst spennandi að gera verkið að okkar íslensku sögu og margir þjóðþekktir Íslendingar koma fyrir í samtölum Guðrúnar og Daníels. Þannig leyfum við áhorfendum að nálgast verkið eins mikið og hægt er tilfinningalega.“

Eruð þið ekkert hrædd um að þetta nafngreinda fólk í litla íslenska samfélaginu fyrtist við að vera sett inn í leikritatexta? „Nei, ég held að það sé engin hætta á því, ekkert af því sem þau segja um þetta fólk er illkvittnislegt.“

Æfðu fyrst á skæpinu

Á einum stað í verkinu er covid nefnt á nafn, var það meðvitað gert til að færa verkið til dagsins í dag?

„Heimurinn er svo breyttur að það er í raun ekki hægt að fjalla um nútímann án þess að taka covid inn í myndina. Vissulega er það pínu snúið og við reynum að hafa þetta tímalausan nútíma. Verkið fjallar um tvær einhleypar manneskjur sem eru að nálgast hvor aðra, en með covid-kröfu um eins metra fjarlægð milli ókunnra er harla erfitt fyrir einhleypa að athafna sig. Þráin eftir nánd og löngunin til að tengjast annarri manneskju verður einmitt enn sterkari á covid-tímum. Þessi veira hefur ýtt undir einmanaleika og einangrun fólks, svo verkið er eins og skrifað inn í samtímann, þótt það hafi fyrst komið fram áður en veiran breytti heiminum. Verkið á fyrir vikið ótrúlega vel við núna,“ segir María og bætir við að sér finnist mjög viðeigandi að fá að opna Þjóðleikhúsið aftur með þessu verki, eftir að húsið hefur verið lokað í rúmlega hálft ár.

„Okkur finnst virkilega gaman að fara aftur af stað og það er spenningur í fólki. Þetta er líka þannig leikrit að nánd við áhorfendur er mikil, sem er skemmtilegt. Við höfum verið að æfa þetta verk frá því í vor á skæpinu, með myndsímtölum, af því við máttum ekki hittast vegna covid. Okkur fannst mjög erfitt til lengdar að æfa með þeim hætti og kættumst þegar við máttum hittast og æfðum þá með tveggja metra millibili leikaranna. Við erum rosalega glöð núna að mega loks snertast.“