Örn Sigurðsson
Örn Sigurðsson
Eftir Örn Sigurðsson: "Í stað miðborgar kom flugvöllur. Reykvíkingar glötuðu þá besta mannvistar- og þróunarsvæði sínu og yfirráðum á allri lofthelgi vestan Elliðaáa."

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson (VÞV) ritar grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 3. september sl. um flugvöll í Vatnsmýri. Greinin vekur óþægilegar minningar frá árum Vilhjálms í áhrifastöðum hjá Reykjavíkurborg og frá samskiptum Samtaka um betri byggð (BB) við borgaryfirvöld á þeim tíma.

Efnistök VÞV gætu bent til þess að hann hyggi e.t.v. á endurkomu í pólitíkina, jafnvel með atkvæðum flugvallarvina. Hann þræðir í öllu falli slóð þröngra sér- og sýndarhagsmuna. Hann virðir faglegar niðurstöður að vettugi og sniðgengur víðtæka almannahagsmuni. Full ástæða er til að hressa ögn upp á þekkingu og heimssýn VÞV og hans nóta.

Vatnsmýrarsvæðið var fært úr Seltjarnarneshreppi til Reykjavíkur þann 1. janúar 1932 vegna fyrirsjáanlegs og yfirvofandi skorts á heppilegu byggingarlandi í ört stækkandi höfuðborg.

Fordæmalaus og fjandsamleg yfirtaka ríkisins 6. júlí 1946 á svæðinu undir flugvöll til leigufrírra afnota fyrir ríkisstyrkt flugfélag (Flugfélag Íslands, áður Flugfélag Akureyrar, síðar Air Iceland Connect) var óréttmæt og án lagastoðar. Engin skilgreind þjóðarnauðsyn lá fyrir. Hvorki voru greiddar skaðabætur né lóðarleiga.

Í stað NÝRRAR MIÐBORGAR kom flugvöllur. Reykvíkingar glötuðu þá besta mannvistar- og þróunarsvæði sínu og yfirráðum yfir allri lofthelgi á Nesinu vestan Elliðaáa. Skipulagsvald borgarinnar færðist til ríkisins og forsendur borgarskipulags, byggðarþróunar, samfélags og stjórnsýslu gjörbreyttust.

Stjórnlaus útþensla borgarinnar (Urban Sprawl) tók við og glænýtt þéttbýli fyrir aðflutta landsbyggðarbúa spratt upp á áður óbyggðu landi umhverfis Reykjavík. Höfuðborgarsvæðið varð til.

Uppsafnað tjón af því að skipta út miðborg fyrir flugvöll er ólýsanlegt fyrir Reykvíkinga, íslenskt samfélag og þjóðarhag. M.a. eru bílaeign, samgöngukostnaður, mengun og útblástur CO2 hvergi meiri en hér.

Langvarandi og stöðugan landflótta a.m.k. 500 vel menntaðra Íslendinga að meðaltali á hverju ári áratugum saman má að verulegu leyti rekja til lélegs borgarskipulags af völdum flugvallar í stað miðborgar í Vatnsmýri.

Vegna Vatnsmýrarflugvallar er höfuðborgarsvæðið útþanið, óskilvirkt og dýrt í rekstri. Það bitnar með neikvæðum hætti á öllum þáttum mannlífs, á lýðheilsu, efnahag, borgarmenningu o.s.frv. Víðátta byggðar dregur úr tækifærum, tekjumöguleikum og öðrum lífsgæðum landsmanna. Án vafa er landsbyggðarflótti t.d. mun meiri og afdrifaríkari en ella hefði orðið án flugvallar í Vatnsmýri.

Aðeins með róttækri þéttingu byggðar í og við Vatnsmýri geta borgarbúar og aðrir landsmenn staðið við alþjóðlegar skuldbindingar um minnkun á losun CO2 fyrir 2030. Með NÝRRI MIÐBORG í Vatnsmýri vænkast hagur borgarbúa og annarra landsmanna mjög. Allar forsendur byggðar og borgarskipulags vestan Elliðaáa gjörbreytast þegar Reykvíkingar endurheimta loks lofthelgina yfir Nesinu. Flest eða allt sem áður fór úrskeiðis getur þá færst til betri vegar.

Misnotkun VÞV og annarra flugvallarvina á hugtakinu „sjúkraflug“ til þess eins að festa flugvöll í Vatnsmýri er auðvitað vítaverð. Í sjúkraflutningum á Íslandi koma flugvélar sjaldnast við sögu og þá aðeins í einum af fjórum þáttum sjúkraflutnings. Hinir þrír þættirnir eru flutningur sjúklings að ökutæki, akstur að flugvelli og akstur frá flugvelli að sjúkrastofnun. Notkun þyrlu minnkar hnjask sjúklings, styttir flutningstíma og styður batahorfur.

Þvert gegn fullyrðingum VÞV eru í Hvassahrauni kjöraðstæður fyrir flugvöll, sem byggja má upp í markvissum áföngum, allt frá innanlandsflugvelli upp í mjög stóran millilandaflugvöll, skv. þörfum samfélagsins á hverjum tíma, sbr. t.d. úttekt Airport Research Center ARC árið 2000, skýrslu Rögnunefndarinnar í júní 2015 og Áfangaskýrslu starfshóps um framtíð Reykjavíkurflugvallar í nóvember 2017.

Flugvellir í Vatnsmýri og á Miðnesheiði voru byggðir á hernaðarforsendum seinni heimsstyrjaldar án nokkurra undangenginna rannsókna, nánast með því að smella fingri. Þeir eru báðir á röngum stað m.t.t. hagsmuna íslensks nútímasamfélags, hvor með sínum hætti. Þeir sanna báðir þá kenningu að koma megi upp flugvelli nánast hvar sem er enda eru hátt í tvö þúsund „alþjóðaflugvellir“ víðsvegar um jörðina, m.a. á báðum heimskautasvæðunum, í hitabeltinu, við sjávarstrendur og á hásléttum.

Hin fordæmalausa og fjandsamlega yfirtaka ríkisins á Vatnsmýrarsvæðinu er jafnandstyggileg og ófyrirgefanleg á árinu 2020 og hún var þann 6. júlí 1946. Í ramma gildandi laga er réttur Reykvíkinga til að krefja ríkið skaðabóta fyrir ódæðið löngu fyrndur en réttur þeirra til að krefjast eðlilegrar lóðarleigu fyrir borgarlandið undir flugvellinum er enn í fullu gildi.

Landtakan 1946 var framkvæmd í skugga mikils misvægis atkvæða og hefur henni verið viðhaldið í 74 ár án bóta og lóðarleigu, einkum fyrir tilstyrk Akureyringa og samherja þeirra á landsbyggðinni með tvöfalt vægi atkvæða. Samkvæmt samkomulagi borgar og ríkis frá 24. október 2013 skal flugvöllur nú loks víkja úr Vatnsmýri eigi síðar en 31. desember 2022 eða innan 852 daga (m.v. 1.9. 2020).

Höfundur er arkitekt. arkorn@simnet.is

Höf.: Örn Sigurðsson