Þóra Hallgrímsson fæddist 28. janúar 1930. Hún lést 27. ágúst 2020.

Útför Þóru fór fram 4. september 2020.

Enn man ég þegar ég sá Þóru fyrst. Hún var ásamt vinkonu sinni, systur vinkonu minnar, á skautum á Tjörninni. Hún var glæsileg og ógleymanleg 10 ára stelpu. Síðar kynntumst við í félagsskap kvenna sem hittist fyrir meira en 30 árum, Lellunum svokölluðu, og stundaði leikfimi árla dags í Kramhúsinu. Þar var Þóra elst okkar og áhugasöm um að rækta líkamann, alltaf brosandi, kurteis og prúð og bar með sér gott uppeldi og góða menntun. Hún var glæsileg og bar aldurinn vel og hikaði ekki við að taka þátt í að sýna dans á samkomum í Kramhúsinu og auðvitað tróð hún upp með okkur í gleðskap og veislum félaganna. Og enn var hún í æfingu og dansaði við Björgólf á 90 ára afmæli sínu.

Ávallt fengum við góðar viðtökur á heimili þeirra hjóna. Eitt sinn þegar hún bauð heim eftir leikfimi leið okkur svo vel við spjall og hlátur, að komið var fram á kvöld þegar haldið var heim. Þóra var fagurkeri og var heimili þeirra hjóna fallegt og bar vott um smekkvísi hennar, myndarskap og rausn. Í samtölum okkar kom oft fram hversu annt henni var um vini sína og vildi ávallt fylgjast með hag okkar og líðan.

Hópurinn hefur ferðast mikið innan lands og utan og oftar en ekki var Þóra með. Hún var góður og rólegur ferðafélagi og kom tungumálakunnátta hennar okkur oft vel.

Þegar aldurinn tók að færast yfir og danssýningar og leikfimi heyrðu sögunni til mynduðum við spilaklúbb. Í bridsinu var Þóra síður en svo viðvaningur. Þar kunni hún sitt fag, var vön að spila brids og varð liðtækur félagi okkar. Dáðist ég oft að minni hennar og útsjónarsemi við spilaborðið.

Við munum sakna Þóru og minnumst góðrar vinkonu. Við sendum Björgólfi og fjölskyldu samúðarkveðjur.

María V. Heiðdal.