Vínveitingastaður Greint var frá því að fjölda smita mætti rekja til föstudagskvöldsins 11. september á Irish Pub.
Vínveitingastaður Greint var frá því að fjölda smita mætti rekja til föstudagskvöldsins 11. september á Irish Pub. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hyggst leggja það til við heilbrigðisráðherra að öllum skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu verði lokað í dag og staðirnir verði lokaðir um helgina. Staðan verði svo endurmetin eftir helgi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hyggst leggja það til við heilbrigðisráðherra að öllum skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu verði lokað í dag og staðirnir verði lokaðir um helgina. Staðan verði svo endurmetin eftir helgi. Tillagan mun ekki ná yfir matsölustaði sem eru með vínveitingaleyfi.

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ákváðu síðdegis í gær að greina frá nafni veitingastaðarins þar sem talið er að margt fólk hafi verið útsett fyrir kórónuveirusmiti, í samráði við eigendur staðarins. Um er að ræða The Irishman Pub, á Klapparstíg 27, en fólkið var samankomið á barnum að kvöldi föstudagsins 11. september.

Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur verið mikil undanfarna daga og í gær höfðu 38 smit greinst þrjá sólarhringa þar á undan. Aðeins ellefu þeirra sem greindust voru í sóttkví. Tólf smitanna tengjast Irishman Pub og hafa yfirvöld beðið þá sem voru á staðnum milli klukkan 16 og 23 föstudaginn 11. september að fara í sýnatöku. Það geta þeir gert í dag með því að skrá sig á vefnum Heilsuveru.