RÚV Hugað að menningarverðmætum í safni stofnunarinnar.
RÚV Hugað að menningarverðmætum í safni stofnunarinnar. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Auðvitað má alltaf gera betur en miðað við aðstæður og fjármagn þá hefur verið rífandi gangur í þessu síðustu ár,“ segir Helga Lára Þorsteinsdóttir, deildarstjóri safnadeildar RÚV.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Auðvitað má alltaf gera betur en miðað við aðstæður og fjármagn þá hefur verið rífandi gangur í þessu síðustu ár,“ segir Helga Lára Þorsteinsdóttir, deildarstjóri safnadeildar RÚV.

Mikið hefur áunnist við stafræna yfirfærslu og skráningu hljóð- og myndbandasafns Ríkisútvarpsins á liðnum árum. Greint var frá því í Morgunblaðinu árið 2014 að hluti safnsins lægi undir skemmdum en nú horfir til betri vegar.

Stór breyting varð á þegar tekið var í notkun tæki sem leyfir yfirfærslur á fjórum segulböndum og fjórum geisladiskum í einu og hljóðmaður var ráðinn í fullt starf við þær yfirfærslur í safninu.

Mikið starf er unnið við að frumskrá segulbönd sem ekki eru aðgengileg í gagnagrunni að sögn Helgu auk þess sem búið er að skanna inn meginhluta spjaldskrár safnsins, bæði skráningu á sjónvarpsefni og útvarpsefni.

„Dagskrárgerðin hefur í auknum mæli verið að nýta þessar heimildir og endurspegla þá vinnu sem lagt hefur verið í í safninu,“ segir hún og vísar til þátta á borð við Glans á Rás 1 og sjónvarpsefnis sem finna má í efnisflokknum Gullkistunni í spilara RÚV.

Horfir til betri vegar

Helga segir að segulbönd í safni RÚV séu um 72.500. Í lok árs 2017 höfðu 2.300 af þeim verið færð yfir á stafrænt form. Núna er fjöldi yfirfærðra segulbanda kominn í rúmlega 10.000. „Hvert segulband er yfirfært í rauntíma en hægt er að yfirfæra fjögur samtímis,“ segir Helga.

Dagskrárefni útvarpsins á geisladiskum er 12.800 diskar. Í lok árs 2017 höfðu 3.100 diskar verið yfirfærðir en nú er búið að setja 6.700 á stafrænt form. Þá eru 28.000 spólur með sjónvarpsefni í safninu. Árið 2017 höfðu 5.300 spólur verið yfirfærðar á stafrænt form. Nú hafa 10.400 spólur verið yfirfærðar og gerðar aðgengilegar stafrænt. Alls eru ríflega 3.000 filmur úr safni RÚV í Kvikmyndasafni Íslands. Um 500 á enn eftir að yfirfæra.

„Með nýjum skanna í Kvikmyndasafni Íslands bindum við vonir við aukið samstarf um skönnun á þeim filmum úr safni RÚV sem enn á eftir að yfirfæra á stafrænt form. Unnið er að því að bæta aðbúnað um filmurnar í Kvikmyndasafninu þessa dagana,“ segir Helga sem bætir því við að verið sé að taka í gagnið nýja skjalageymslu hjá RÚV og tryggja betur aðbúnað skjala og gagna með tilliti til öryggismála, t.d. hita- og rakastigs, en nýtt skjalakerfi var innleitt árið 2018 og ráðinn skjalastjóri. Nýtt brunakerfi er í skjalageymslunni.