Ómar Bergmann Lárusson fæddist á Akranesi 27. nóvember 1955. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands 8. september 2020.

Foreldrar hans voru Lárus Jón Engilbertsson, f. 23. maí 1924, d. 11. september 2001, og Gunnhildur Bergmann Benediktsdóttir, f. 17. mars 1927, d. 12. mars 2015.

Systkini Ómars eru: Valgerður Olga, f. 1958, gift Bjarna E. Gunnarssyni, Benedikt Gunnar, f. 1961, giftur Guðbjörgu S. Baldursdóttur, og Eðvarð Rúnar, f. 1963.

Ómar ólst upp á Akranesi. Hann fór í Gagnfræðaskóla Akraness og síðan í Iðnskólann á Akranesi og lærði þar blikksmíði og starfaði við það til æviloka, lengst af hjá Blikksmiðju Guðmundar Hallgrímssonar.

Útför Ómars fer fram frá Akraneskirkju 18. september 2020 kl. 13 og verður athöfninni streymt af vef Akraneskirkju (www.akraneskirkja.is) Virkan hlekk á streymið má finna á https://www.mbl.is/andlat/.

Ómar Bergmann Lárusson blikksmíðameistari, af vinnufélögum kallaður Ommi Lár er jarðsunginn í dag.

Ommi hefur verið hluti af mínu lífi og fjölskyldunnar allrar ansi lengi.

Hann var einn af fyrstu starfsmönnunum í blikksmiðjunni hans pabba, Blikksmiðju Guðmundar, byrjaði árið 1975 og starfaði þar þar til nýlega, þegar veikindi Omma bundu enda á það. 45 ár eru langur tími og í raun nær öll starfsævi Omma.

Ommi var eldklár húmoristi og ótrúlegur hæfileikabolti. Músíkalskur með afbrigðum og hafsjór fróðleiks um tónlist, spilaði á gítar, munnhörpu og fleira, frábær ljósmyndari og síðast en ekki síst afburða flinkur blikksmiður.

Það var afskaplega gott að vinna með Omma, ég man hreinlega ekki eftir að hann hafi skipt skapi en þolinmæðin óendanleg, það hefur ábyggilega tekið á að hafa 10 ára pjakk að grallarast í kringum hann, innan um stórvarasamar vélar og tæki. Ommi var óspar á góð ráð og leiðbeiningar þegar maður var að byrja að vinna í blikkinu og alltaf var hægt að leita til hans ef maður lenti í vandræðum með einhverja smíði, yfirleitt lumaði Ommi þá á einhverju töfrabragði til að leysa málið.

Þegar upp komu flókin og vandasöm verkefni í blikksmiðjunni sem kröfðust vandaðra vinnubragða var lendingin yfirleitt: “Ommi reddar því“ og ávalt græjaði Ommi það, ekki með æsingi eða stressi heldur yfirvegun og útsjónarsemi.

Það var heiður að fá að vera vinnufélagi og vinur Omma Lár og sendi ég Edda, Gunna og Olgu og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Finnbogi Rafn

Guðmundsson.