Magnús Álfsson fæddist í Reykjavík 7. janúar 1935. Hann lést á Dvalarheimilinu Fellaskjóli 9. september 2020. Foreldrar hans voru Guðrún Magnúsdóttir, f. 5. júlí 1894, d. 5. mars 1969, og Álfur Arason, f. 9. október 1897, d. 22. maí 1983. Magnús var yngstur af 11 systkinum þau eru, Ingibjörg, f. 1916, d. 2009, Sigurður Aron, f. 1918, d. 1998, Sigríður, f. 1920, d. 2007, Ólöf, f. 1922, d. 2004, Magnea, f. 1923, d. 1987, Guðrún, f. 1926, d. 2010, Sveinbjörn Óskar, f. 1927, d. 1927, Jón Óskar, f. 1929, d. 2020, Ágústa, f. 1932, og Sigurbjörg, f. 1935, d. 1935.

Hinn 25. maí 1957 kvæntist Magnús Aðalheiði Magnúsdóttur frá Kirkjufelli við Grundarfjörð, f. 29 janúar 1932, d. 3. febrúar 2007. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Magnúsdóttir, f. 4 júlí 1961, í sambúð með Þresti Líndal Gylfasyni, f. 14 febrúar 1956. Börn þeirra eru a) Sigrún Líndal Þrastardóttir, f. 2. febrúar 1981, sambýlismaður hennar er Finnbogi Guðmundsson, f. 16. janúar 1979, börn þeirra eru Brynjar Daði, f. 2004, Birgitta Rún, f. 2008, og Katrín Heiða, f. 2012. b) Magnús Líndal Þrastarson, f. 17. ágúst 1983, kvæntur Höllu Maríu Þórðardóttur, f. 31. október 1986, börn þeirra eru Victor Líndal, f. 2011, Halldóra Líndal, f. 2013, og Camilla Líndal, f. 2019. 2) Valgeir Þór Magnússon, f. 9. ágúst 1967, kvæntur Ingibjörgu Sigurðardóttur, f. 22. febrúar 1968, börn þeirra eru a) Helga Sjöfn, f. 31. ágúst 1985, b) Sigurður Heiðar, f. 30. júlí 2002.

Magnús var uppalinn á Bergþórugötu í Reykjavík, en fluttist til Grundarfjarðar og bjó þar öll sín búskaparár. Hann sinnti ýmsum störfum, var kokkur á sjó, vann í verslun, var verkstjóri í fiskvinnslu og umsjónarmaður við sundlaug og íþróttahús Grundarfjarðar.

Magnús verður jarðsunginn frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 18. september 2020, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni: https://youtu.be/Sk0Yei_Cl2w/. Virkan hlekk á streymi má nálgast á https://www.mbl.is/andlat/.

Elsku afi/langafi hefur nú kvatt þessa jarðvist. Okkur langar að minnast hans með nokkrum orðum. Afi/langafi var mikill barnakarl og hafði unun af því að vera í kringum barnabörnin sín og barnabarnabörnin.

Heima hjá honum var alltaf til ís og fengu krakkarnir alltaf eins mikinn ís eins og þau vildu og fengu foreldrarnir litlu um það ráðið.

Hann var alltaf til í að gera eitthvað með þeim eins og mála, lita, spila, horfa á teiknimyndir og fleira. Þegar við fjölskyldan komum í heimsókn til hans á Hlíðarveginn var alltaf tekið á móti okkur með heimsins besta hakki og spagettí, já hann afi/langafi var góður kokkur.

Hann hafði gaman af því að fara með okkur í fjöruna við Kirkjufell og tína skeljar og steina og voru Birgitta og Katrín ánægðar með steinasafnið sem hann gaf þeim. Hann var mikill húmoristi og hafði gaman af því að stríða aðeins.

Brynjar, Birgitta og Katrín sögðu langafa sinn vera töframann, hann gat látið peninga hverfa og koma úr eyrunum á þeim og eins gat hann tekið þumalfingurinn á sér í sundur og Brynjar reyndi mikið að læra þetta hjá langafa sínum.

Afi/langafi var mjög músíkalskur og söng mikið og var oft mikið stuð í kringum hann.

Hann var alltaf til í að verja tíma með okkur fjölskyldunni og keyrði langa vegalengd til að vera með okkur í bústað. Það var erfitt fyrir okkur að vera svona langt í burtu frá honum og geta ekki heimsótt hann í hverri viku en fyrir vikið voru stuttu heimsóknirnar okkar innihaldsríkar og skemmtilegar.

Það verður skrítið að koma til Grundarfjarðar og hitta afa/langafa ekki þar.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús, þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti, sjáðu,

blíði Jesús, að mér gáðu.

(Ásmundur Eiríksson)

Elsku afi/langafi, mikið rosalega munum við sakna þín en minningarnar munu fylgja okkur áfram. Takk fyrir allt og allt.

Sigrún, Brynjar Daði, Birgitta Rún og Katrín Heiða.