Ferðalag forseta Mannréttindadómstóls Evrópu til Tyrklands hefur vakið athygli víða. Þar átti dómsforsetinn viðræður við Erdogan Tyrklandsforseta sem er einn valdaþyrstasti stjórnmálaforingi nú um stundir.

Ferðalag forseta Mannréttindadómstóls Evrópu til Tyrklands hefur vakið athygli víða. Þar átti dómsforsetinn viðræður við Erdogan Tyrklandsforseta sem er einn valdaþyrstasti stjórnmálaforingi nú um stundir. Í skiptum fyrir að kyssa vönd Erdogans öðlaðist dómsforsetinn heiðursdoktorsnafnbót við háskólann í Istanbúl. Áðurnefndur Erdogan hefur staðið framarlega í flokki við að ofsækja pólitíska andstæðinga sína, einkum háskólaborgara, blaðamenn og mannréttindafrömuði, auk þess að beina spjótum sínum að kvenfrelsiskonum, dómurum og embættismönnum. Tyrklandsforseti hefur nýtt sér til fulls ástand sem skapaðist í landinu eftir meinta uppreisnartilraun. Dómsforsetinn ákvað að líta fram hjá athöfnum Tyrklandsforseta til að eiga við hann orð, væntanlega um framgöngu hans í mannréttindamálum. Það er nefnilega svo nauðsynlegt að „eiga samtalið“ eins og þar segir. Hugsanlega hefur tal þeirra félaganna hneigst að stöðu þeirra tugþúsunda sem nú sitja í yfirfullum fangelsum vegna pólitískra skoðana sinna. Dómsforsetinn vitnar til hefða vegna heimsóknarinnar. Nú kann vel að vera að það sé hefð hjá Mannréttindadómstólnum að heimsækja brotamenn, væntanlega til þess að reyna að reyna að hafa áhrif á hegðan þeirra. Greinarhöfundi er til efs að grundvallarbreytingar verði á stöðu mannréttindamála í Tyrklandi eftir spjall þeirra félaganna yfir tesopanum nú um daginn. Hvað sem því líður er dómsforsetinn snúinn aftur til síns heima skreyttur silkihúfu Erdogans og hugleiðir næstu skref. Hann hlýtur að hugsa með sjálfum sér hvort heimsóknin sé líkleg til að efla virðingu og sjálfstæði Mannréttindadómstólsins til framtíðar. Einnig hlýtur dómsforsetinn að hugleiða með tilliti til undirtekta og viðbragða vegna Tyrklandsheimsóknarinnar nú um daginn hvort hefðin svokallaða hafi orðið til góðs og hvort hún kalli hugsanlega á enn frekari heimsóknir til brotamanna. Þá verður greinarhöfundi á að hugsa til annars meints brotamanns sem nú um stundir fer mjög fram í mannréttindamálum í kjölfar kosninga sem hafa notið lítillar virðingar útífrá, nefnilega Alexanders Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands. Sá dánumaður hlýtur nú að skoða þann möguleika að bjóða dómsforsetanum í tesopa og bjóða fram eins og eina heiðursdoktorsnafnbót honum til handa að loknu góðu spjalli. Það er niðurlæging við bæði Mannréttindadómstólinn og forseta hans að éta úr lófa Erdogans og óvíst að fundum þeirra hafi verið fagnað í yfirfullum fangelsum harðstjórans. Traust á dómstólnum hefur enda snarminnkað ef marka má viðbrögð víða við Tyrklandsför dómsforsetans. Það virðist hins vegar ríkja nokkur fögnuður yfir heimsókninni hjá tveim íslenskum þingmönnum sem hafa að jafnaði borið mannréttindi fyrir brjósti að eigin sögn.

Höfundur er alþingismaður Miðflokksins í Reykjavík suður. thorsteinns@althingi.is

Höf.: Þorsteinn Sæmundsson