Ættaróðal Vatnsendi við Elliðavatn er ein af óðalsjörðum landsins.
Ættaróðal Vatnsendi við Elliðavatn er ein af óðalsjörðum landsins. — Morgunblaðið/Ómar
Nái frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingar á jarðalögum fram að ganga á Alþingi falla endanlega úr gildi öll ákvæði um ættaróðul.

Nái frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingar á jarðalögum fram að ganga á Alþingi falla endanlega úr gildi öll ákvæði um ættaróðul. Raunar hafa ákvæðin ekki haft neinn tilgang frá því ákveðið var með breytingum á sömu lögum fyrir sextán árum að láta óðalsjarðir erfast með sama hætti og aðrar eignir.

Fyrstu ákvæði um óðalsjarðir á Íslandi eru frá árinu 1833 og fyrsta heildstæða löggjöfin er frá 1936. Löggjöfin var undir áhrifum frá norskum lögum og hefð en þar hafa gilt ákvæði um óðalsréttindi í aldir.

Tilgangur með óðalsrétti var að halda jörðum í ábúð og tryggja sem mest að bændur ættu ábúðarjarðir sínar. Það var gert með því að auðvelda ættliðaskipti, með því að gera einum erfingja auðveldara um vik að taka við ættaróðalinu, oftast elsta syni bóndans. Einnig voru kvaðir um hagnýtingu jarðarinnar og takmarkanir á veðsetningu hennar.

Ekki mun hafa verið mikið um að bændur gerðu jarðir sínar að ættaróðali nema hjá þeim ábúendum ríkisjarða sem keyptu jarðirnar enda var þeim um tíma skylt að gera þær að ættaróðali.

Með breytingum á jarðalögum árið 2004 var sett bann við stofnun nýrra ættaróðala og lögfest að við andlát þáverandi óðalseiganda eða maka hans skyldi ættaróðalið falla úr óðalsböndum og jörðin erfast í samræmi við ákvæði erfðalaga. Þá voru 90 óðalsjarðir í landinu og þeim hefur væntanlega fækkað verulega síðan þá.

Verði frumvarp til breytinga á jarðalögum sem nú hefur verið kynnt að lögum falla úr gildi öll bönd á meðferð og ráðstöfun jarða sem töldust eða teljast enn til ættaróðala. Tekið er fram að lagaákvæðin hafi í raun engan tilgang eftir þær breytingar sem gerðar voru á óðalsrétti árið 2004. helgi@mbl.is