Akureyri Einar Rafn Eiðsson ógnar marki Þórs í Íþróttahöllinni í gær.
Akureyri Einar Rafn Eiðsson ógnar marki Þórs í Íþróttahöllinni í gær. — Ljósmynd/Þórir
Jafntefli varð niðurstaðan í tveimur leikjum af þremur þegar 2. umferð Olís-deildar karla í handknattleik hófst í gær.

Jafntefli varð niðurstaðan í tveimur leikjum af þremur þegar 2. umferð Olís-deildar karla í handknattleik hófst í gær.

Matthías Daðason tryggði Fram stig gegn Aftureldingu í Safamýrinni þegar hann skoraði úr vítakasti á lokasekúndunni og liðin skildu jöfn, 27:27.

Úlfar Monsi Rúnarsson hafði þá komið Aftureldingu yfir. Framarar brunuðu fram og Þorsteinn Leó Gunnarsson braut á Andra Má Rúnarssyni. Þorsteinn fékk rautt spjald og Fram víti sem Matthías skoraði úr. Þorgrímur Smári Ólafsson og Andri Már voru markahæstir hjá Fram með fjögur mörk hvor. Úlfar og Bergvin Þór Gíslason skoruðu sex mörk hvor fyrir Aftureldingu.

Sama niðurstaða varð á Seltjarnarnesi þar sem Grótta og Stjarnan mættust. Stjarnan var yfir 24:22 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir en þá komu þrjú mörk í röð hjá Gróttu. Sverrir Eyjólfsson skoraði jöfnunarmarkið fyrir Stjörnuna á 59. mínútu en liðunum tókst ekki að skora á lokamínútunni.

Grótta, Stjarnan og Fram fengu þar með sitt fyrsta stig í deildinni á þessu keppnistímabili en Afturelding er með þrjú eftir að hafa unnið Þórsara í fyrstu umferðinni.

FH-ingar eru með tvö stig eftir sigur á Akureyri gegn Þór, 24:19, en Þórsarar án stiga. FH-ingar voru með tveggja til þriggja marka forystu allan síðari hálfleikinn en slitu Þórsara ekki frá sér fyrr en þeir skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins. Ásbjörn Friðriksson skoraði átta mörk fyrir FH og Valþór Guðrúnarson sex fyrir Þór.