Út Eftir að Rósa Björk er gengin út eru níu þingmenn eftir í þingflokknum.
Út Eftir að Rósa Björk er gengin út eru níu þingmenn eftir í þingflokknum. — Morgunblaðið/Eggert
Andrés Magnússon andres@mbl.is Rósa Björk Brynjólfsdóttir yfirgaf þingflokk Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (Vg) í gær og sagði sig úr flokknum í leiðinni.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Rósa Björk Brynjólfsdóttir yfirgaf þingflokk Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (Vg) í gær og sagði sig úr flokknum í leiðinni. Ekki er hægt að segja að það hafi komið mörgum á Austurvelli og næstu grösum á óvart, en þingmenn sem Morgunblaðið ræddi við sögðu að það hefði aðeins verið spurning um tíma og tilefni, sem hún veldi sér.

Tilefnið reyndist vera brottvísun egypsku fjölskyldunnar, sem mikið hefur verið fjallað um, en þrátt fyrir að Rósa Björk hafi verið varaformaður flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins hefur hún ekki fjallað um það mál opinberlega áður.

Úrsögn Rósu Bjarkar hefur engin áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið og stjórnarmeirihlutann, þar sem hvorki hún né Andrés Ingi Jónsson, sem einnig var kjörinn á þing fyrir Vg, studdu stjórnarsamstarfið í upphafi. Andrés Ingi sagði skilið við þingflokkinn í nóvember í fyrra og hefur síðan starfað utan þingflokka.

Rósa Björk hefur lítið látið uppi um framtíðina hvað það varðar og svaraði ekki í síma í gær, en ýmsir telja að hún kunni að ganga til liðs við þingflokk Samfylkingar með það fyrir augum að leiða lista hennar í Suðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum næsta haust.

Þegar er farið að ræða hvernig framboðslistar flokkanna kunni að skipast fyrir þær kosningar, en í Samfylkingunni er þar ekki síst horft til Suðvesturkjördæmis. Þar situr Guðmundur Andri Thorsson nú fyrir flokkinn, en ekki hefur komið fram hvort hann hyggist leita endurkjörs.

Það var einnig nefnt að hún kynni að vilja styðja Helgu Völu Helgadóttur, sem í gær kynnti áform um að bjóða sig fram til varaformennsku í Samfylkingunni.

Heimildir Morgunblaðsins meðal vinstrigrænna herma að þar á bænum hafi menn aðallega verið hissa á því að hún hafi ekki yfirgefið þingflokkinn fyrr. Margir bjuggust við því að hún myndi láta verða af því um svipað leyti og Andrés Ingi, en af því varð ekki.

Meðal samstarfsflokkanna á þingi voru þingmenn einnig pollrólegir og töldu stöðuna lítið breytta, það væri aðeins komið formlega fram, sem menn hefðu gengið að vísu fram að því. Eftir sem áður væri ríkisstjórnarmeirihlutinn óbreyttur og tryggur.

Eftir að Rósa Björk er gengin úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs eru níu þingmenn eftir í þingflokknum, þar af tveir ráðherrar og einn forseti Alþingis.