Playstation Spenna er vegna útgáfu Playstation 5-leikjatölvunnar.
Playstation Spenna er vegna útgáfu Playstation 5-leikjatölvunnar. — AFP
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Mikil eftirvænting er meðal þeirra sem hafa ánægju af tölvuleikjaástundum eftir að Playstation kynnti nýjasta útspil sitt, leikjatölvuna Playstation 5, í fyrradag.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Mikil eftirvænting er meðal þeirra sem hafa ánægju af tölvuleikjaástundum eftir að Playstation kynnti nýjasta útspil sitt, leikjatölvuna Playstation 5, í fyrradag. Playstation 4 kom út árið 2013 og að sögn Ólafs Jóelssonar framkvæmdastjóra Senu, sem heldur utan um sölu á tölvunum hérlendis, hafa selst um 50 þúsund Playstation 4-tölvur á Íslandi.

Sony framleiðir Playstation og kemur fram í kynningu frá fyrirtækinu að tölvan komi á markað 19. nóvember í Evrópu. „Síminn hefur ekki stoppað hjá mér eftir kynninguna og í spjallsamfélögum á íslenskum samfélagssíðum finnur maður fyrir gríðarlegri spennu. Þetta er því stórviðburður og maður finnur það á eigin skinni,“ segir Ólafur.

Í kynningunni komu m.a. fram tilmæli um að tölvan með diskadrifi myndi kosta um 500 evrur eða sem nemur 81 þúsund krónum. Tölva án diskadrifs, sem er fyrir þá sem nálgast tölvuleiki sína eingöngu á netinu, mun hins vegar kosta nær 400 evrum eða sem nemur 64 þúsund krónum.

Dýrara á Íslandi

Aðspurður segir Ólafur að um sé að ræða einhvers konar meðalverð í kynningunni. Líkur séu á að verðið verði hærra hér á landi sökum þess að virðisaukaskattur er hærri á Íslandi en víðast hvar annars staðar. „Í þessum tölvuleikjaiðnaði er gjarnan mikið stríð á milli XBox og Playstation og XBox var búið að leggja línurnar með útgáfudegi og verði og nú kemur Sony í kjölfarið,“ segir Ólafur.

Að sögn hans hefur Playstation verið með markaðsráðandi stöðu í Evrópu og Asíu. Hins vegar hefur XBox átt Bandaríkjamarkað. „Microsoft, sem framleiðir XBox, hefur til að mynda algjörlega hunsað Ísland sem markaðssvæði og sú tölva er ekki seld hér,“ segir Ólafur. Hann segir að meginbreytingin sem verður með Playstation 5 sé mun raunverulegri grafík í leikjunum en í eldri tölvum og vinnslan sé hraðari en áður. „Biðin eftir því að leikir hefjist þegar kveikt er á tölvunni er engin og hægt verður að hefja leik samstundis á sama stað og hætt var áður,“ segir Ólafur.

Finna fyrir atvikum í leiknum

Að sögn hans er því spáð að Playstation muni einnig höfða betur til næstu kynslóðar en XBox. „Playstation 5 verður með nýja stýripinna þar sem leikmenn finna fyrir atvikum í leiknum. T.a.m. ef þú ert að skjóta úr byssu og svo hættir hún að virka þá mun takkinn á fjarstýringunni einnig standa á sér. En svo losnar hann aftur um leið og búið er að laga byssuna,“ segir Ólafur.