Baldur Hafstað sagði á feisbókarsíðunni að erlendir fréttaritarar hefðu komið að máli við sig og spurt sig um kvenráðherrana og hann hefði talið sér skylt að verða við bón þeirra, - „Spurt og svarað um kvenráðherrana“: Katrín?

Baldur Hafstað sagði á feisbókarsíðunni að erlendir fréttaritarar hefðu komið að máli við sig og spurt sig um kvenráðherrana og hann hefði talið sér skylt að verða við bón þeirra, - „Spurt og svarað um kvenráðherrana“:

Katrín? Úfinn siglir sjó.

Svandís? Fetar brautir hálar.

Áslaug? Þeysti á þyrlu og jó.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð? Skálar.

Alltaf er gott að rifja upp stökur Kristjáns Fjallaskálds um haustið:

Allt fram streymir endalaust,

ár og dagar líða;

nú er komið hrímkalt haust,

horfin sumars blíða.

Fölna grös en blikna blóm,

af björkum laufin detta;

dauðalegum drynur óm

dröfn við fjarðar-kletta.

Allt er kalt og allt er dautt,

eilífur ríkir vetur,

berst mér negg í brjósti snautt

en brostið ekki getur.

Mér hefur alltaf þótt gaman að þessu erindi Kristjáns sem ber yfirskriftina „Misskilningur“:

Misskilur heimur mig,

misskil ég einnig hann,

sig skilið síst hann fær,

sjálfan skil ég mig ei;

furða er því ei þótt okkar

hvorugur skilji skaparann.

Og svo kannski eðlilegt í framhaldi af þessu að Kristján skuli fara um Andskotann svofelldum orðum:

Þótt allir lasti Andskotann,

það aldrei skal ég gera:

þetta er soddan gentleman,

ég senn fer hann að þéra.

Hannes Arnórsson Vatnsfirði orti:

Ráði sá sem ráðið hefur fyrri,

það sem þykir barni best

barnið tíðum skaðar mest.

Kristján H. Theodórsson segir frá því, að fyrrverandi stöðvarstjóri Flugfélagsins á Akureyrarflugvelli hafi gefið eftirmanni sínum eftirfarandi heilræði, að sögn:

Þá útlendingar æmta mest,

og athugasemdir gera vilja.

Alltaf það mér þótti best

að þykjast bara ekkert skilja.

Gömul vísa í lokin ort á vökunni og stjarnan er sjöstjarnan:

Áðan kom ég út á hlað,

enginn maður þess mig bað,

í hádegis stóð þá stað

stjarnan sem að mark er að.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is