Edda Ólafsdóttir
Edda Ólafsdóttir
Eftir Eddu Ólafsdóttur: "Spurningar til ráðamanna Sundhallarinnar og mannréttindastjóra."

28. maí sl. skrifar Kolbrún Baldursdóttir grein í Mbl. er hún nefnir „Kvenbúningsklefar Sundhallarinnar hönnunarmistök?“ Í greininni bendir hún á að Sundhallarkonur eru ekki allar ánægðar með þá aðstöðu (búningsklefa og bað) sem þeim er ætluð í nýbyggingunni við Sundhöllina og finnst þeim að jafnréttis sé ekki gætt. Leitað var álits mannréttindastjóra um hvort breytingar á kvennaklefum í Sundhöllinni séu í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum og hvort kynjajafnrétti hafi verið virt.

Svar mannréttindastjóra er eftirfarandi:

„Fyrir breytingar nutu konur ekki sömu þjónustu og karlar í Sundhöll Reykjavíkur og fatlaðir ekki sömu þjónustu og ófatlaðir. Aðstaða fyrir konur var lélegri en fyrir karla og líkamlega fatlað fólk átti þess ekki kost að fara í Sundhöllina. Til að færa þetta til betra horfs þurfti endurbætur og í þær var ráðist samhliða byggingu útisundlaugar. Það er ekki hægt að sjá annað en að Sundhöll Reykjavíkur uppfylli, eftir breytingar, mannréttindastefnu borgarinnar bæði með tilliti til kynjajafnréttis og réttar fatlaðs fólks til þjónustu.“

Í svari sínu hefði mannréttindastjóri þurft að skilgreina betur eftirfarandi atriði. Hver er sú þjónusta sem karlar hafa notið í Sundhöllinni umfram konur? Að hvaða leyti var aðstaða fyrir konur lélegri en karla og er hún betri núna, og þá hvernig?

Hverjar eru hinar svokölluðu endurbætur? Það væri fróðlegt að fá svar við þessum spurningum.

Þegar rætt er um Sundhöllina verður að hafa í huga að hún tók til starfa árið 1937 og hafði þá verið í byggingu í nokkur ár og einnig að sundkunnátta var ekki eins almenn og nú á dögum. Lyftur voru ekki í húsum á þeim tíma og stigar voru ekki hindrun göngufæru fólki.

Kolbrún setur spurningarmerki við hönnun á kvenbúningsklefum. Greinarhöfundur vill einnig setja spurningarmerki við hönnun útilaugarsvæðis. Var kannað til hlítar hvort hanna mætti svæðið á annan hátt en gert var, án þess að valda skemmdum á Sundhöllinni, tekið tillit til allra sundlaugargesta, einnig kvenna sem kjósa Sundhöllina og ungra telpna sem fara í skólasund?

Sundhöllin stendur í halla, var athugaður sá möguleiki að hafa inngang í útilaug að austanverðu? Þá hefðu búningsklefar í nýbyggingu verið á jarðhæð og hvorki þurft stiga né lyftu til að komast í þá.

Kom aldrei til greina að hafa útilaugina aðskilda frá Sundhöllinni og nýbyggingu væri skipt jafnt milli kvenna og karla sem eingöngu ætluðu í útilaugina? Eflaust hefði verið hægt að hafa einhverja tengingu á milli útilaugar og Sundhallar.

Hefði ekki verið eðlilegra að hafa lyftuna í hinu geysistóra anddyri nýbyggingar í stað þess að hafa hana í anddyri Sundhallar? Það er frekar furðulegt að hafa lyftu í öðru húsi en því sem hún á að gagnast.

Hvers vegna var hluti af búningsklefum kvenna eyðilagður? Var það kannski liður í endurbótum á Sundhöllinni?

Var nauðsynlegt að setja klefa fyrir gæslumann útilaugar á svalir Sundhallar og taka þannig af Sundhallargestum lítið útivistarsvæði sem þar var?

Hvers vegna var baðklefinn í nýbyggingu hafður svona lítill þar sem stórt herbergi er fyrir framan hann? Í fyrstu sjö sturtur, tveimur bætt við en klefinn stækkaði ekki við það.

Var ekki gert ráð fyrir eftirlitskonu í baðklefa?

Hafi hönnuður ekki séð aðra leið en þá sem farin var, var þá ekki hægt að hafa búningsklefana í eystri enda nýbyggingar, þá hefði leiðin frá þeim inn í Sundhöll styst um u.þ.b. tvo þriðju.

Var svæðið sunnan Sundhallar í raun nægjanlega stórt fyrir útilaug og það sem henni fylgir? Áhersla hefur verið lögð á að útilaugarsvæði yrði sem glæsilegast á kostnað Sundhallar og kvenna.

Ekki er alltaf sólskin og sunnanvindur. Oftar er útsynningshraglandi eða norðanbeljandi og þá er leiðin frá kvennaklefum í nýbyggingu og inn í Sundhöll löng og köld fyrir konur, ungar sem aldnar, verandi í blautum sundbolum. Hvað finnst mannréttindastjóra um þá „þjónustu“? Örfá skref eru frá baði karla inn í Sundhöll og í laug.

Njóta konur og karlar jafnréttis í Sundhöllinni hvað varðar aðstöðu? Karlar í búningsklefum og rúmgóðum baðklefa inni í Sundhöll, konur í þröngum búningsklefa og þröngum baðklefa í útbyggingu góðan spöl frá Sundhöll. Er þetta jafnrétti að áliti mannréttindastjóra? Hann fullyrðir þó að mannréttindastefnu borgarinnar sé framfylgt með tilliti til kynjajafnréttis. Hann fullyrðir einnig í svari sínu, og varla fer mannréttindastjóri með fleipur, að konur hafi ekki notið sömu þjónustu og karlar fyrir breytingar í Sundhöllinni og aðstaða þeirra hafa verið lélegri en karla. Er þá ekki kominn tími til að áralangri mismunun kynjanna linni? Ráðamenn Sundhallar geta sannað mannréttindastefnu borgarinnar og sýnt í verki að konur hafi sama rétt og karlar, einnig til sambærilegrar aðstöðu á sundstað. Þeir geta kveðið niður ásakanir um kynbundið misrétti og kvenfyrirlitningu með því að láta kynin skipta um búningsklefa, þ.e. að konur fái karlaklefana inni í Sundhöllinni og karlar nýju kvennaklefana í nýbyggingu. Þá yrðu allir sáttir. Eða hvað?

Höfundur hefur verið sundhallargestur í meira en 80 ár.

Höf.: Eddu Ólafsdóttur