Navalní-málið Novichok-eitrið fannst á vatnsflösku Navalnís.
Navalní-málið Novichok-eitrið fannst á vatnsflösku Navalnís. — AFP
Sérfræðingar þýska hersins eru sagðir hafa fundið leifar af novichok-taugaeitrinu á vatnsflösku, sem fannst í hótelherbergi því er rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní gisti í kvöldið áður en hann veiktist í síðasta mánuði.

Sérfræðingar þýska hersins eru sagðir hafa fundið leifar af novichok-taugaeitrinu á vatnsflösku, sem fannst í hótelherbergi því er rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní gisti í kvöldið áður en hann veiktist í síðasta mánuði. Þýsk stjórnvöld hafa áður sagt að þau hafi „óyggjandi sannanir“ fyrir því að eitrað hafi verið fyrir Navalní með novichok, en rússnesk stjórnvöld hafa borið brigður á þá niðurstöðu.

Kíra Yarmysh, talskona Navalnís, sagði að uppgötvunin væri sönnun þess að eitrað hefði verið fyrir hann áður en hann yfirgaf hótel sitt í borginni Tomsk í Síberíu, en ekki á flugvellinum eða í flugvélinni þar sem leið yfir hann 20. ágúst síðastliðinn.

Vladimír Uglev, einn af þeim sem hönnuðu novichok-eitrið, sagði að sú staðreynd að Navalní hefði lifað af þýddi líklega að hann hefði einungis komist í snertingu við eitrið, en ekki drukkið það.

Hvetja til þvingunaraðgerða

Evrópuþingið samþykkti ályktun í gær um málið, þar sem Evrópusambandið var hvatt til þess að setja umfangsmiklar viðskiptaþvinganir á Rússland, á sama tíma og stjórnvöld þar voru sökuð um að beita sér markvisst gegn stjórnarandstöðunni með „pólitískum morðum og eiturárásum“.

Ályktunin er ekki bindandi fyrir sambandið og sagði María Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, að hugmyndir um refsiaðgerðir væru markaðar af Rússafælni. Rússnesk stjórnvöld hafa vísað öllum ásökunum á hendur sér varðandi Navalní-málið á bug.