Jónína Ingibjörg Árnadóttir fæddist í Keflavík 6. september 1957. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 29. ágúst 2020.

Foreldrar hennar voru Árni Björgvinsson og Íris Sveinbjörnsdóttir (látin).

Systkini Jónínu: Indíana, Elín, Skafti og Don Ómar.

Jónína giftist 26. des. 1978 Ólafi Þórði Björnssyni, f. 19. nóv. 1956. Börn þeirra eru: 1) Íris Þóra, sambýlismaður Elvar Ágúst Ólafsson, dóttir þeirra Elva Björg. 2) Árni Björn, kvæntur Karen Rúnarsdóttur, börn þeirra Natalía Nótt og Daníel Dagur. 3) Arngrímur Anton, kvæntur Lovísu Hilmarsdóttur, börn þeirra Styrmir Marteinn, Bjartmar Breki og Eyrún Nótt.

Jónína Ingibjörg, alltaf kölluð Ninna Bogga, ólst upp á Akureyri hjá fósturforeldrum sínum, Jónínu Sæmundsdóttur og Arngrími Antoni Benjamínssyni. Þau eru bæði látin.

Eftir grunnskóla vann Ninna Bogga í fiskvinnslu á Akureyri. Þau Óli bjuggu hjá fósturmóður Ninnu Boggu þangað til þau fluttu á Suðurnesin, fyrst til Keflavíkur, svo Ytri-Njarðvíkur.

Árið 1986 fluttu þau á Kirkjubraut 8, Innri-Njarðvík, og hafa búið þar síðan.

Ninna Bogga vann ásamt vinkonu sinni sem matráðskona í Slippnum í Ytri-Njarðvík í um 20 ár og í samlokugerð um tíma, svo í Flugeldhúsinu.

Síðustu ár hefur Ninna Bogga verið hjartasjúklingur, oft þurft að fara á sjúkrahús en náð sér aftur.

Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju föstudaginn 18. september 2020 klukkan 13. Í ljósi aðstæðna verða einungis nánustu aðstandendur viðstaddir athöfnina. Athöfninni verður streymt á https://youtu.be/1Nrxy6VUQZs/. Virkan hlekk á slóð má nálgast á https://www.mbl.is/andlat/.

Í dag verður lögð til hinstu hvílu elskuleg tengdadóttir, Jónína Ingibjörg Árnadóttir, alltaf kölluð Ninna Bogga.

Hún kom til okkar ung að árum og varð fljótt ein af fjölskyldunni og góður lífsförunautur Ólafs sonar míns.

Þau eignuðust þrjú yndisleg börn og sex yndisleg barnabörn, sem elskuðu mömmu sína og ömmu, enda var hún dugleg að halda utan um hópinn sinn og systkini sín.

Hún var mjög gestrisin og var oft fjölmennt við eldhúsborðið.

Oft talaði hún um hvað nágrannar sínir væru góðir.

Við mig tengdamömmu sína var hún einstaklega góð og notaleg, vildi allt fyrir mig gera, enda naut ég oft samverustunda með henni og fjölskyldunni.

Ég sakna Ninnu Boggu minnar.

Vertu Guði falin mín kæra.

Þangað til næst. Þín tengdamóðir,

Þóra Sigríður Jónsdóttir (Tóta).