Fjölskyldan Nitinkumar, Garima, Dhanashri og Riya á æfingu í fyrradag.
Fjölskyldan Nitinkumar, Garima, Dhanashri og Riya á æfingu í fyrradag. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Systurnar Garima, bráðum tíu ára, og Riya, nær átta ára, eru í Alþjóðaskólanum á Íslandi, sem er í Garðabæ, og gengur vel í námi. Stúlkurnar hafa vakið athygli fyrir miklar framfarir í tennis og markmiðið er að ná sem lengst. „Það er svo gaman að spila marga leiki og fá bikara og svoleiðis, ég á níu bikara,“ segir Garima stolt. Riya veit líka hvað hún vill. „Það er gaman að spila, vinna og hafa gaman.“

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Systurnar Garima, bráðum tíu ára, og Riya, nær átta ára, eru í Alþjóðaskólanum á Íslandi, sem er í Garðabæ, og gengur vel í námi. Stúlkurnar hafa vakið athygli fyrir miklar framfarir í tennis og markmiðið er að ná sem lengst. „Það er svo gaman að spila marga leiki og fá bikara og svoleiðis, ég á níu bikara,“ segir Garima stolt. Riya veit líka hvað hún vill. „Það er gaman að spila, vinna og hafa gaman.“

Foreldrarnir Nitinkumar Rangrao Kalugade og Dhanashri V. Pawar eru frá Indlandi og hafa búið hérlendis í um 12 ár. „Við fylgjumst ekki mikið með íþróttum og höfum aldrei leikið tennis en komumst ekki hjá því að sjá Pete Sampras og Steffi Graf í keppni í útsendingu sjónvarps á sínum tíma,“ segir Nitinkumar og þakkar frístundakortinu áhuga systranna, sem fæddust á Íslandi, á íþróttinni. Þegar Garima hafi náð fimm ára aldri hafi hún farið í fimleika og tennis og foreldrarnir fljótt séð að þar væri hún á réttri hillu, sérstaklega í tennis. Riya hafi fetað í fótspor systur sinnar og þau hafi fyrst haldið að með því vildi hún fyrst og fremst ná athygli foreldranna en annað hafi komið á daginn. „Þegar hún tapaði leik í annarri keppni sinni gafst hún ekki upp og var ekki reið. „Ég verð að æfa meira því ég vil bæta mig og sigra,“ sagði hún við okkur á leið út í bílinn.“

Góðir þjálfarar

Garima keppir fyrir Víking og Riya fyrir Hafna- og mjúkboltafélag Reykjavíkur (HMR), en þær æfa hjá Víkingi og Tennisfélagi Kópavogs í Tennishöllinni. Þær hafa auk þess æft hjá Fjölni og tekið þátt í námskeiðum fyrir ungt og efnilegt tennisfólk hjá Tennissambandi Íslands. „Hér eru margir frábærir þjálfarar í tennis og dætur okkar hafa notið góðs af því,“ segir Nitinkumar. Bætir við að þau Dhanashri aðstoði þær eftir mætti, fylgist með þeim á æfingum og í keppni og sýni þeim kennslumyndbönd og annað fræðsluefni um íþróttir almennt.

Þótt tennis sé málið gefa systurnar sér tíma til að gera ýmislegt annað í frítímanum, eins og til dæmis að horfa á teikni- og kvikmyndir. „Mér finnst gaman að lesa, ég les bækur nefnilega,“ segir Riya. „Ég teikna og les bækur eins og Dvergastein . Svo fer ég út að hjóla, tína ber og alls konar,“ segir Garima.

Næstu tvö árin vill Garima keppa á alþjóðlegum mótum fyrir 12 ára og yngri og Riya á mótum fyrir 10 ára og yngri til að sjá hvar þær standa í samanburði við jafnaldra sína í Evrópu, en ekki síður til þess að efla sig enn frekar á öllum sviðum. „Við höfum bara spilað tennis á Íslandi og Indlandi,“ segir Garima og ekki fer á milli mála að þær ætla að bæta úr því.

Markmiðin eru skýr og langtímadraumurinn er að verða meistari á einu af stórmótunum, Opna ástralska, Wimbledon á Englandi, Opna franska og Opna bandaríska. „Mig langar til þess að sigra á Wimbledon og US Open,“ segir Garima. Riya tekur í sama streng. „Ég vil ekki bara vinna bæði heldur allt saman! Grand Slam!“

Þær segja samt að óhjákvæmilegt sé að tapa af og til. „Stundum verður maður að tapa,“ segir Garima. „Ef enginn getur tapað þá getur enginn unnið,“ útskýrir Riya.