Án Dyflinnarreglugerðarinnar verður aðild að Schengen enn óhagstæðari

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, lýsti því yfir á miðvikudag, að sambandið hygðist setja sér nýjar reglur um málefni flóttamanna og kæmu þær í stað Dyflinnarreglugerðarinnar svonefndu, sem hefur verið grundvöllur málsmeðferðar í þessum efnum í þrjátíu ár.

Samkvæmt reglugerðinni ber að meta umsókn um hæli einungis í einu af aðildarríkjunum sem samþykkt hafa að gangast undir hana, en auk Evrópusambandslandanna eru Ísland og Noregur þar á meðal. Reglugerðin á að koma í veg fyrir að einn og sami hælisleitandinn geti verið með umsókn um hæli í nokkrum ríkjum á sama tíma, en í einhverjum tilfellum var slíkum brögðum beitt til þess að fólk gæti haldið sér „á floti“, sent frá einu aðildarríki til annars, jafnvel án þess að nokkur fótur væri fyrir hælisumsóknunum.

Hin síðari ár hefur hrikt í stoðum reglugerðarinnar, þar sem flóttamannavandinn, sem hófst 2015, setti langmestan þrýsting á þau ríki sem fyrst urðu fyrir straumnum, einkum Ítalíu og Grikkland, en einnig að einhverju leyti Spán. Hin síðari ár hafa því heyrst háværar raddir um að hinum aðildarríkjum Evrópusambandsins beri að axla auknar byrðar í þessum efnum.

Enginn vill þó verða fyrstur til að taka þessar byrðar á sig, og skyldi engan undra. Sem dæmi má nefna að við Ermarsundið hefur undanfarin tvö ár ríkt allsérstakt ástand, þar sem flóttafólk, einkum ungir karlmenn, sem vilja sækja um hæli í Bretlandi, hefur safnast saman við Calais og leitar færis til að sigla á gúmbátum yfir sundið. Hvorki Frakkar né Bretar hafa áhuga á að taka við fólkinu, en þeir sem komast alla leið fá í langflestum tilfellum hæli, þvert á vilja breskra stjórnvalda, sem leita nú leiða til þess að breyta löggjöf sinni til að auðvelda þeim að vísa fólki úr landi.

Ein ástæðan sem bresk stjórnvöld hafa gefið fyrir afstöðu sinni er sú, að hinar ólöglegu siglingar eru oftar en ekki skipulagðar af glæpahópum, sem hætta lífi flóttafólksins fyrir persónulegan ávinning og senda það af stað á troðfylltum bátum, sem í mörgum tilfellum geta vart talist haffærir.

Frönsk stjórnvöld, sem hafa brýnt fyrir öðrum ríkjum Evrópusambandsins að gera meira í móttöku flóttafólks, virðast ekki hafa mikinn áhuga á að koma í veg fyrir Ermarsundsferðirnar, en alls óvíst er hvað muni taka við eftir næstu áramót þegar útganga Breta úr Evrópusambandinu kemur að fullu til framkvæmda. Víst þykir þó að þeir muni ekki vilja taka þátt í Dyflinnarreglugerðinni eða boðuðum arftaka hennar og reyna eflaust að verja landamæri sín með skilvirkari hætti.

Þetta er einungis eitt dæmi, en málin eru fleiri og hafa teygt sig um alla Evrópu, þar á meðal hingað til lands. Umræðan hér hefur of oft markast af því að þeir sem ná að koma málum sínum á framfæri við fjölmiðla telji sig geta fengið einhvers konar sérmeðferð, hvað sem Dyflinnarreglugerð líður. Slík nálgun kann ekki góðri lukku að stýra, sama hversu sár einstök mál geta orðið.

Augljóst er að hugmyndir um að galopna landið og hleypa öllum inn sem hingað vilja koma ganga þvert gegn hagsmunum Íslendinga sem gætu með engu móti tekið á móti þeim fjölda sem hingað vill koma. Raunsæi verður að ráða för og ljóst er að á liðnum árum hefur, þrátt fyrir Dyflinnarreglugerð og vegna þeirra lausataka sem „fjölmiðlanálgunin“ hefur haft í för með sér, gríðarlegur fjöldi fólks komið hingað til lands á þeirri forsendu að það sé á flótta undan slæmum aðstæðum af einhverju tagi. Við getum tekið við einhverjum í slíkri stöðu, en það má ekki gerast á þann hátt sem verið hefur á undanförnum árum þar sem fólkið hefur flætt nánast stjórnlaust inn í landið.

Yfirlýsing Von der Leyen hlýtur að verða að skoða í því ljósi að stjórnvöld hér á landi hafa vísað í Dyflinnarreglugerðina þegar erfið mál hafa komið upp. Og þó að reglugerðinni hafi ekki verið beitt af þeirri festu sem skyldi hefur hún hjálpað og án hennar dytti varla nokkrum manni í hug að verja þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu, sem er í meira lagi vafasamt, jafnvel með reglugerðinni.

Arftaki Dyflinnarreglugerðarinnar verður kynntur betur í næstu viku. Ljóst er að það mun skipta íslensk stjórnvöld miklu máli, að þar verði áfram tryggt, að Ísland eigi einhverja möguleika á að verja landamæri sín og ákveða hverjir geta komið hingað og sest að.