Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Eftir Hjörleif Hallgríms: "Fréttamannaelítan ætti stundum að fara sér hægar. Það er ekki oft sem ráðist er á frettamenn að ósekju."

Ýmislegur ósómi og óréttlæti viðgengst hér á Íslandi og er t.d. orðið ansi hart ef ráðist er á einstakling af heilli stétt í landinu fyrir það eitt að svara fyrir sig og jafnvel þótt um upplognar sakir hafi verið að ræða. Rammt kvað að þessu fyrir skömmu er Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja kom á framfæri leiðréttingu á því sem rannsóknarblaðamaðurinn Helgi Seljan hafði borið á hann að ósekju í Seðlabankamálinu svokallaða, því óþverramáli þar sem Þorsteinn Már var sýknaður af ótrúlegum áburði fyrrverandi seðlabankastjóra Más Guðmundssonar, sem lenti svo á rassgatinu með allt saman. En þá tók Helgi Seljan við, sem raunar hefur haft Þorstein Má í einelti um árabil, og klíndi á hann að talið er fölsuðum pappírum og gerði mál úr.

Akureyringarnir á RÚV láta í sér heyra

En þegar Þorsteinn Már fór eðlilega að svara fyrir sig reis fréttamannaelítan upp sem aldrei fyrr með Akureyringana á RÚV í broddi fylkingar þar sem er Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og fyrrverandi lögreglustjóri, sem maður skyldi ætla að hefði í heiðri lög og rétt, en hver veit, þar sem hann að undanförnu hefur títt skipt um starf. Hinn Akureyringurinn og fréttastjórinn Rakel Þorbergsdóttir fylgdi fast á eftir sínum yfirboðara, ábúðarfull án þess trúlega að hafa kynnt sér málið til fullnustu en tók samt þátt í ófrægingunni.

Og þá kem ég að þætti Þóru Arnórsdóttur, sem gat auðvitað ekki látið sitt eftir liggja að mæra vin sinn Helga Seljan, samfylkingarkonan og fyrrverandi forsetaframbjóðandinn, sem virðist ekki enn vera búin að ná sér eftir hrakfarir í þeim málum, enda las ég, sem eftir henni var haft, að hún kenndi ágætum Ólafi Ragnari meðframbjóðanda sínum um allar sínar ófarir.

Hjá framangreindu starfsfólki RÚV hefur allt gengið út á að mæra og taka upp hanskann fyrir Helga Seljan þó svo hann hafi jafnvel haft í frammi ólöglegt athæfi og verði jafnvel sóttur til saka að mati lögfræðinga.

Það er orðið gjörsamlega óviðunandi ef einstaklingur í þessu þjóðfélagi getur ekki orðið borið hönd fyrir höfuð sér eins og ég hef áður komið inn á og heil stétt manna hrópar úlfur, úlfur og tekur ekkert tillit til hvort um rangt eða rétt sé að ræða.

Að lokum

Í meira en 20 ár var ég útgefandi blaða og ritstýrði og skrifaði jafnvel eina og eina frétt ef á þurfti að halda. Í aðeins eitt skipti á þessum árum varð ég verulega hræddur um að fá á mig kæru, en þá hafði ég álpast til að skrifa frétt um eiturlyfjamál, sem margir fréttamenn eru ekki ókunnir, og hafði ekki nógu tryggar heimildir. Sem betur fór hafði ég rétt fyrir mér en það var raunar engin afsökun þá. Svona hluti gerir maður bara ekki.

Ég ætla að enda þennan pistil með því að minnast aðeins á grein um sama mál og um hefur verið fjallað hér að framan eftir Kristin Hrafnsson til mikillar ófrægingar um Þorstein Má Baldvinsson. Ég verð að segja, að minnsta kosti fyrir mitt leyti, að ég geld mjög varhug við því sem Kristinn rausar eftir margra ára baráttu með mjög misjöfnum árangri í WikiLeaks-málinu og hefur hann verið duglegur við að reyna að ná sér niðri á mönnum, hvort sem er að sekju eða ósekju að virðist.

P.s. Meira um Namibíu/Samherjamálið seinna.

Höfundur er eldri borgari á Akureyri.

Höf.: Hjörleif Hallgríms