Liðið mitt í ensku knattspyrnunni vann sinn fyrsta leik í efstu deild í sextán ár á laugardag. Vann liðið þá nýliðaslag við Fulham, 4:3. Var síðasti sigurleikur Leeds í deild þeirra bestu fyrir laugardaginn hinn 10. apríl 2004. Þá var ég tólf ára.
Liðið mitt í ensku knattspyrnunni vann sinn fyrsta leik í efstu deild í sextán ár á laugardag. Vann liðið þá nýliðaslag við Fulham, 4:3. Var síðasti sigurleikur Leeds í deild þeirra bestu fyrir laugardaginn hinn 10. apríl 2004. Þá var ég tólf ára. Nú er ég 28 ára. Kærkomið!

Komst Leeds í 4:1 snemma í seinni hálfleik á móti Fulham og lék á als oddi. „Mikið er þessi úrvalsdeild létt,“ hugsaði ég með mér og hló. Ég sendi vinum mínum, sem eru löngu orðnir þreyttir á Leeds-blaðrinu í mér í gegnum árin, skilaboð þess efnis. Mikið er þessi úrvalsdeild létt.

Þarna gerði ég mistök því ég lagði að sjálfsögðu álög á mína menn. Áður en ég vissi var staðan orðin 4:3 og Fulham hársbreidd frá því að jafna í 4:4 þegar enn voru 25 mínútur eftir. Síðustu 25 mínúturnar liðu eins og 125 mínútur, en liðið hélt út. Þrjú sæt stig.

Eftir sextán erfið ár átti ég auðvitað að vita betur en að fara að monta mig þegar staðan var góð. Næst bíð ég þangað til eftir lokaflautið. Félagarnir eru ekki lausir við Leeds-blaðrið í mér þrátt fyrir þessi mistök.

Annars má gera ráð fyrir fjöri í leikjum Leeds á tímabilinu. Hinn magnaði Marcelo Bielsa er á hliðarlínunni og er markatalan 7:7 eftir tvo leiki. Mínir menn gáfu Englandsmeisturunum sjálfum alvöruleik í fyrstu umferð á Anfield þar sem lokatölurnar urðu einnig 4:3.

Ég er ekki viss um að hjartað í mér ráði við að allir leikir endi 4:3 þótt skemmtanagildið sé mikið. Þá vona ég líka innilega að ég þurfi ekki að bíða sextán ár í viðbót því mikið rosalega var þetta gaman!