Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
Eftir Guðbjörn Jónsson: "Ég er undrandi að vera með fyrir framan mig tvö tilvik um afvegaleiðingu trúargilda kristinnar trúar á Íslandi og finna ekki eina einustu tilvísun í lögum eða starfsreglum fyrir slíkum breytingum."

Sem meðlimur þjóðkirkjunnar hef ég undrast verulega fréttaflutning og umræður að undanförnu, þar sem fjallað hefur verið um umtalsverðar breytingar á boðunarháttum í kirkjustarfi þjóðkirkjunnar. Reyndar er rétt að geta þess að enn sem komið er tengist umfjöllunin að mestu einu prestsembætti utan höfuðborgar. Einnig var sagt að í barnastarfi þjóðkirkjunnar skyldi nú tekið tillit til þess að Jesús gæti hafa verið samkynhneigður og því rétt að taka mið af því í barnastarfi, þó börn verði ekki kynþroska fyrr en á unglingsaldri, ef þau fá frið til að vera börn og lifa eðlilegu lífi samkvæmt aldri sínum.

Bernskuár mín var ég alinn upp hjá fósturföður, sem var starfsmaður þjóðkirkjunnar. Einnig var afar djúp og einlæg vinátta milli hans og sóknarprestsins. Ræddu þeir mikið saman um skilning nútímamannsins á helstu kennisetningum kristinnar trúar, eins og þær birtast í Biblíunni og öðrum ritum sem lýsa kenningum og beinum tilvísunum til orða Jesú. Þegar ég nálgaðist fermingaraldur hlustaði ég oft á samræður þeirra af athygli og tók stundum þátt í umræðunum með einföldum spurningum. Mér fannst merkilegt að heyra hve óskólagenginn alþýðumaður og menntaður kennimaður voru almennt sammála um á hvað grundvelli boðskapur Jesú hefði verið byggður.

Þeirra óbilandi trú var sú að grundvöllur kristindómsins stæði föstum fótum í kærleiksviljanum, sem stæði öðrum fæti í hjartanu en hinum fæti í vitund og greind mannsins. Meðan sköpunarverk Guðs væri í þeirri mynd sem verið hefði óbreytt frá upphafi yrði engin breyting þar á frá hendi Guðs. Engar breytingar lífsafkomu manna á komandi öldum myndi í neinu breyta þeim grundvelli sem trúin byggðist á, vegna þess að uppskrift Guðs að vellíðan manna myndi ekki breytast. Guð hafði fengið manninum sjálfum fullt sjálfræði til nýtingar á öllu kærleikssviðinu, frá því besta til þess versta, að eigin vali. Og hvað það væri svo sem færði mönnum hina eftirsóttu vellíðan myndi að ytra útliti breytast en undirstaðan yrði um ókomna tíð hin fölskvalausa og einlæga kærleikstilfinning sem gróðursett væri hjarta hvers manns og hann stjórni sjálfur hvernig hann nýti þá hæfileika.

Þegar ég sá mynd af áðurnefndum presti, í fullum messuskrúða standa fyrir altari þjóðkirkjunnar, og vera þar merkisbera kynferðislegrar öfgastefnu og misþyrminga, varð mér verulega brugðið. Ekki batnaði líðan mín er ég fékk fregnir af því að biskup landsins hefði samþykkt að birta börnum á Íslandi skrumskælda mynd af frelsaranum, færðan í búning ófrjósamrar kynlífsiðkunar, sem með engu móti getur talist eiga erindi við börn. Ég varð að kyngja þessari staðreynd þegar ég skoðaði sjálfur heimasíðu biskupsembættis og gat kallað þar fram umrædda skrípamynd af frelsaranum í líkamsmynd konu.

Þegar ég hafði séð það ógæfuspor sem þarna var stigið, fletti ég upp á lögum og starfsreglum um þjóðkirkjuna, í leit að breytingum á grundvallarundirstöðum í boðun kristinnar trúar á Íslandi. Enn hef ég engar slíkar breytingar fundið. Ég er því vægast sagt undrandi að vera með fyrir framan mig tvö mjög alvarleg tilvik um grófa afvegaleiðingu trúargilda kristinnar trúar á Íslandi, en finna ekki eina einustu tilvísun í lögum eða starfsreglum fyrir slíkum breytingum. Áður en ég tek þá alvarlegu ákvörðun að segja mig úr þjóðkirkjunni vil ég fara fram á við kirkjuráð að það gefi mér skýra mynd af því með hvaða hætti og undir hvaða formerkjum þær grundvallarbreytingar kristinnar trúar voru teknar, sem að framan er vísað til. Jafnframt vildi ég gjarnan fá sjónarmið kirkjuráðs á því hvort svo róttækar aðfarir að mikilvægustu undirstöðum kristninnar ættu ekki að eiga lokaafgreiðslu sína í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu allra kristinna manna í landinu? Ég vænti heiðarlegra svara á grundvelli kærleiksvitundar.

Höfundur er fv. ráðgjafi.

Höf.: Guðbjörn Jónsson