London Rúnar Alex Rúnarsson er orðinn markvörður Arsenal.
London Rúnar Alex Rúnarsson er orðinn markvörður Arsenal. — Ljósmynd/arsenal.com
Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, skrifaði í gær undir fjögurra ára samning við enska félagið Arsenal sem keypti hann af Dijon í Frakklandi fyrir tæplega tvær milljónir punda.

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, skrifaði í gær undir fjögurra ára samning við enska félagið Arsenal sem keypti hann af Dijon í Frakklandi fyrir tæplega tvær milljónir punda.

Rúnar Alex verður þar í baráttu við Bernd Leno, einn af landsliðsmarkvörðum Þýskalands, sem er aðalmarkvörður liðsins, en Arsenal seldi á dögunum argentínska markvörðinn Emiliano Martínez til Aston Villa fyrir 17 milljónir punda.

Þriðji markvörður Arsenal er Matt Macey en reiknað er með að hann sé á förum og viðbúið að annar markvörður komi í hans stað til að veita Leno og Rúnari samkeppni.

Þetta er í annað sinn sem íslenskur markvörður semur við enskt úrvalsdeildarfélag. Árni Gautur Arason var í röðum Manchester City í nokkra mánuði árið 2004. Hann spilaði ekki í deildinni en lék tvo bikarleiki. Reikna má með að það verði einmitt hlutverk Rúnars að spila bikarleiki og mögulega Evrópuleiki með liðinu. Á síðasta tímabili spilaði Leno 32 leiki og Martínez 22 af 54 mótsleikjum liðsins. vs@mbl.is