[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Beethoven: Sinfónía nr. 1, lokaþáttur (III.); Píanókonsert nr. 3. Philip Glass: Upphaf úr Glassworks (úts. Christian Badzura). Einleikari: Víkingur Heiðar Ólafsson píanó. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi: Eva Ollikainen. Kynnir: Halla Oddný Magnúsdóttir. Fimmtudaginn 17.9. kl. 20.

Að hálfu ári liðnu virðist aldararftaki spænsku veikinnar, Covid-19, enn í fullu fjöri – með hrapallegum afleiðingum fyrir tónlistarlífið jafnt hérlendis sem víðast hvar. Fyrir vikið hafa unnvörpum fallið niður tónleikar – og þar með einnig gagnrýn umfjöllun, sem í mínu tilfelli hefur dregizt allt frá 5. marz þar til nú. Þá var, líklega í fyrsta skipti í sögu Morgunblaðsins, um „fjarstadda“ umsögn að ræða, og svo er einnig að þessu sinni, enda um sams konar neyðaraðstæður að ræða – fáskipaða tónleikasókn sakir smithættu.

Á móti vó sem í fyrra sinn bein sjónvarpsútsending, er gerði heimasætum hlustendum kleift að njóta sýnilegra hliða viðburðarins að mörgu leyti líkt og ef staddir væru á staðnum. Einna bezt með nálægri myndfókusun á staka spilara – en kannski síður ef miðað er við mismikil hljómflutningsgæði heimilanna sem seint munu skáka þrívíðri staðarheyrð. Enn bar þó fátt á sýnilegum viðbrögðum hlustenda úti í sal.

Hvað sem líður e.t.v. frómustu ósk margra í núríkjandi áþján – að raungild „verðmætasköpun“ nái loks að vega ögn þyngra en var meðan nöpur neyzluhyggja stóð sem hæst – þá má óhætt fullyrða að 250 ára afmælisbarn ársins, Ludwig van Beethoven, hafi skilað sínum æverandi kjarnagæðum að fullu.

Sem betur fer þarf músíkalskt alþýðunæmi ekki alltaf á menningarsöguþekkingu að halda (þótt spilli ekki fyrir), og í frísklega samtaka útfærslu SÍ á lokaþætti frumraunar hans í sinfóníugreininni frá 1795-1800 var oft kampakátt á hjalla undir hvetjandi forystu nýja aðalstjórnandans Evu Ollinkainen.

Aðalvirtúós lýðveldisins, Víkingur Heiðar Ólafsson, sá síðan með bravúr um 3. Píanókonsert Ludwigs frá téðu aldamótaári – og læddi um leið fram marga kím-íhugula náverustund innan um brilljöntu hápunktana í kjörgóðum samleik er beindi við hæfi athyglinni að ýmsum afgerandi nýbrumum verksins fyrir sína samtíð við eldheitar undirtektir.

Loks léku þau Víkingur og strengjadeild SÍ upphafið að Glassworks ameríska naumhyggjutónsmiðsins Philips Glass, um 7 mín. að lengd, er laðaði fram þónokkrar ljóðrænar andrár, þrátt fyrir ítrækan ritháttinn. Sólístinn lét að því loknu undan þrálátum fagnaðarkröfum áheyrenda og lék sem aukalag prelúdíu eftir Debussy; að vonum af íðilfágaðri innlifun.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson