Varnir Tien-Kung I skotið á loft.
Varnir Tien-Kung I skotið á loft. — AFP
Stjórnvöld í Taívan segja hersveitir sínar eiga fullan rétt á að verja sig og ráðast til atlögu gegn hugsanlegri ógn.

Stjórnvöld í Taívan segja hersveitir sínar eiga fullan rétt á að verja sig og ráðast til atlögu gegn hugsanlegri ógn. Kemur þetta fram í tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti landsins, en tilefnið er það sem kallað hefur verið „ögrandi hegðun“ kínverska hersins sem síðastliðinn föstudag flaug orrustuþotum og sprengjuvélum, alls 18 talsins, yfir miðlínu Taívan-sundsins.

Stjórnvöld í Beijing hafa þó sagt flug þotna sinna vera hluta af æfingu hersins og að slíkt sé nauðsynlegur liður í vörnum landsins og fullveldi. Loftvarnir Taívans voru virkjaðar vegna flugsins, orrustuþotur og radarturnar sem stýra loftvarnaskeytum, og segir Taívansforseti, Tsai Ing-wen, Kínverja með þessu ógna svæðinu öllu.

Fram kemur í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytisins að Kínverjar hafi allt þetta ár ógnað stöðugleika og friði á svæðinu með því að beita orrustuþotum sínum og herskipum ítrekað með ögrandi hætti. Hersveitir Taívans muni ekki sýna sömu ögrandi tilburði en séu þó reiðubúnar til að verja landsvæði ríkisins. Þá er þar sérstaklega tekið fram að hersveitirnar séu ekki hræddar við óvininn.

Enginn formlegur samningur er í gildi milli ríkjanna sem kveður á um að bannað sé að fara yfir miðlínuna, þótt litið sé á slíkt sem ögrun.