Forstjórinn Á heilbrigðisstofnunum úti á landi er vel þjálfað starfsfólk, góður tækjabúnaður og geta til að sinna verkefnum, segir Gylfi Ólafsson.
Forstjórinn Á heilbrigðisstofnunum úti á landi er vel þjálfað starfsfólk, góður tækjabúnaður og geta til að sinna verkefnum, segir Gylfi Ólafsson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Sterkar kröfur samfélags og yfirvalda um öfluga heilbrigðisþjónustu í heimabyggð ráða því að hallarekstur í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á þessu ári er óumflýjanlegur. Veltan í ár er um 2,7 milljarðar króna og þar af eru framlög ríkisins 2,3 milljarðar. Sértekjur eru áætlaðar um 400 milljónir króna en umfang starfseminnar og kostnaður sem því fylgir valda því að árið verður væntanlega gert upp í halla upp á annað hundrað milljónir króna. Þá eru ekki með í breytunni útgjöld vegna Covid-faraldursins sem verður bættur síðar og sérstaklega.

Baksvið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sterkar kröfur samfélags og yfirvalda um öfluga heilbrigðisþjónustu í heimabyggð ráða því að hallarekstur í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á þessu ári er óumflýjanlegur. Veltan í ár er um 2,7 milljarðar króna og þar af eru framlög ríkisins 2,3 milljarðar. Sértekjur eru áætlaðar um 400 milljónir króna en umfang starfseminnar og kostnaður sem því fylgir valda því að árið verður væntanlega gert upp í halla upp á annað hundrað milljónir króna. Þá eru ekki með í breytunni útgjöld vegna Covid-faraldursins sem verður bættur síðar og sérstaklega.

Þunginn í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða er á Ísafirði. Þar eru 15 rúm á sjúkradeild, fæðingarþjónusta, skurðstofa, heilsugæsla og þjónusta sérfræðilækna, sem koma reglulega að sunnan. Á sjúkrahúsinu á Patreksfirði eru tvö sjúkrarúm og öll almenn læknisþjónusta veitt. Á Ísafirði, Patreksfirði, í Bolungarvík og á Þingeyri eru svo rekin hjúkrunarheimili fyrir tæplega 60 íbúa. Alls eru um 170 stöðugildi við stofnunina, og um 70% þeirra eru á Ísafirði.

100 veiktust á Vestfjörðum

„Kórónuveiran hefur verið mikil áskorun,“ segir Gylfi Ólafsson, forstjóri stofnunarinnar. „Við þurftum að bregðast hratt við þegar kórónuveirufaraldurinn fór að láta á sér kræla. Í febrúar og mars hófum við að undirbúa það sem verða vildi og svo kom aldan um mánaðamótin mars-apríl.“

Alls veiktust rúmlega 100 manns á norðanverðum Vestfjörðum af Covid-19. Átta lögðust inn fyrir vestan eða voru sendir til Reykjavíkur eða Akureyrar til sérhæfðari meðferðar. Samfélagslega var þungi faraldursins þó hvergi meiri en í Bolungarvík, þar sem um 6% af 930 bæjarbúum voru veik, á sama tíma og um fjórðungur íbúa var í sóttkví á tímabili.

„Sjálfsagt réð tilviljun því að veiran stakk sér svona bratt niður í Bolungarvík. Veruleikinn er samt sá að þegar fólk með veiruna er einkennalaust og fer víða um smitast veiran hratt. Þetta er afar lúmskt,“ segir Gylfi. Bætir við að þegar veiran var í algleymingi hafi fólk á öllum póstum íslenska heilbrigðiskerfisins starfað þétt saman. Línur voru lagðar á reglulegum samráðsfundum forstjóra heilbrigðisstofnana landsins með landlækni og fleirum – sem haldnir voru oft í viku á tímabili.

Upplýsingar og engin leyndarmál

„Heilbrigðiskerfið stóðst mikla þolraun í faraldrinum sem vissulega er enn ekki lokið. Reynslan frá þessum dögum í fyrravetur segir okkur sem störfum úti á landi hve mikilvægt er að á heilbrigðisstofnunum sé vel þjálfað starfsfólk, góður tækjabúnaður og geta til að sinna helstu verkefnum,“ segir Gylfi og heldur áfram:

„Stóra lærdóminn af þessu öllu í fordæmalaustu ástandi tel ég annars vera þann hve góð og fumlaus upplýsingamiðlun er mikilvæg. Daglegir fundir þríeykisins í sjónvarpinu, þar sem allt er uppi á borðum, hafa verið afar mikilvægir og bókstaflega haldið þjóðinni saman. Á hverri heilbrigðisstofnun landsins hefur starfsfólki, almenningi og fjölmiðlum verið sagt frá því hver staðan er. Engin leyndarmál. Samstaðan á þessum tímum hefur líka verið einstök; ég var í reglulegum samskiptum til dæmis við heilbrigðisráðherra, landlækni, bæjarstjóra, lögreglustjóra og annað forystufólk meðan mest gekk á. Þá voru falleg orð í bréfi frá forseta Íslands okkur hér á stofnuninni mikil hvatning. Við héldum einnig borgarafundi í beinni útsendingu á Facebook sem lukkuðust mjög vel við að koma réttum upplýsingum á framfæri og svara spurningum sem auðvitað voru ótalmargar.“

Nýta nærumhverfið til heilsueflingar og útivistar

Gylfi Ólafsson segir skýra kröfu úr samfélaginu á Vestfjörðum að á Ísafirði sé til dæmis skurðþjónusta og fæðingarstofa og að á öðrum stöðum sé boðleg heilbrigðisþjónusta. Þetta kunni að vera dýrt hlutfallslega miðað við hvað gerist á stærri heilbrigðisstofnunum, en þar komi á móti að sitt kosti að reka samfélag. Núverandi fyrirkomulag sé klárlega þjóðhagslega hagkvæmt. Heilbrigðisstofnanir og þjónusta þeirra ráði hins vegar ekki um heilsu og líðan fólks, enda þótt mikilvægar séu.

„Alþjóðlegar rannsóknir sýna að heilbrigðiskerfið er í 6. sæti þegar kemur að áhrifaþáttum heilbrigðis. Tekjur, félagsleg staða, menntun, umhverfi og erfðir ráða miklu um hvernig fólki almennt heilsast. Allt eru þetta þættir sem klárlega eru í góðu lagi hér á Vestfjörðum – enda skorum við hér vestra hátt í lýðheilsuvísum sem Embætti landlæknis tekur saman,“ segir Gylfi og að síðustu:

„Sjálfur hef ég til dæmis hvatt fólk til þess að nota reiðhjól til að komast leiðar sinnar í daglegum ferðum, enda aðstæður til þess frábærar til dæmis hér á Ísafirði þar sem byggðin er að mestum hluta á rennisléttri eyri. Og svona eigum við almennt að nýta það sem býðst í nærumhverfi okkar til að efla heilsuna, þótt slíkt sigri auðvitað ekki kórónuveiruna eða kreppuna sem af henni hefur leitt.“