Hún er undarleg þessi niðursveifla núna. Venjuleg kreppa lýsir sér í alvarlegum samdrætti í neyslu, fjárfestingum, bílakaupum og viðhaldi fasteigna. Nú er öldin önnur, þökk sé stjórninni að hluta.

Hún er undarleg þessi niðursveifla núna. Venjuleg kreppa lýsir sér í alvarlegum samdrætti í neyslu, fjárfestingum, bílakaupum og viðhaldi fasteigna. Nú er öldin önnur, þökk sé stjórninni að hluta. Menn keppast við að mála húsin og skipta um járn á þökum, og ef komin er móðuögn í horn á þrefalda glerinu frá í hitteðfyrra, þá burt með það. Fólk er hvatt til þess arna með loforði um endurgreiðslu vasksins, þótt það bitni auðvitað á sjóði okkar allra, ríkissjóði.

Iðnaðarmenn hafa aldrei haft viðlíka að gera og mega gera svo vel og flytja inn undirverktaka austan um haf.

Það er nefnilega til glás af peningum, síðan landinn hætti að spandera í útlöndum og liggja í kæruleysi suðrá Spáni.

Svo fengu menn líka forskot á sælu séreignasparnaðarins, svo það er allt fljótandi í monningum fram á haustið.

Hvað þá tekur við veit enginn. Kannski erum við komin til „síðustu daga Rómverja“, þó að ekki megi dansa lengur en til klukkan ellefu. Það má þó alltént úða í sig vínberjum.

Sunnlendingur.