Veira Sýnatökur eru nú víða daglegt brauð. Þessi sem hér sést var framkvæmd í indversku borginni Allahabad.
Veira Sýnatökur eru nú víða daglegt brauð. Þessi sem hér sést var framkvæmd í indversku borginni Allahabad. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Dauðsföllum af völdum Covid-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, mun á næstu vikum fjölga umtalsvert á Bretlandseyjum verði ekki gripið til hertra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar. Þetta hefur fréttaveita Reuters eftir Chris Whitty, landlækni Breta.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Dauðsföllum af völdum Covid-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, mun á næstu vikum fjölga umtalsvert á Bretlandseyjum verði ekki gripið til hertra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar. Þetta hefur fréttaveita Reuters eftir Chris Whitty, landlækni Breta.

Tölur bandaríska háskólans Johns Hopkins sýndu í gær að dauðsföll vegna Covid-19 eru komin yfir 960 þúsund á heimsvísu, langflest í Bandaríkjunum eða rétt tæplega 200 þúsund. Fast á eftir koma Brasilía, um 137 þúsund látnir, og Indland með um 88 þúsund dauðsföll.

Skráð dauðsföll á Bretlandi vegna veirunnar eru nú um 42 þúsund og er það fimmta hæsta dánartala á heimsvísu. Alls eru staðfest tilfelli þar um 397 þúsund og hefur þeim fjölgað um sex þúsund daglega undanfarna viku. Landlæknir Breta varar nú við aðgerðaleysi; verði ekkert að gert kann svo að fara að í október verði dagleg smit orðin 50 þúsund. Gerist það má búast við um 200 dauðsföllum á degi hverjum.

„Haldi þessi þróun áfram mun dauðsföllum af völdum Covid halda áfram að fjölga,“ hefur Reuters eftir Whitty sem heldur áfram: „Ef við bregðumst ekki nægjanlega við mun veiran fara á flug og við erum á þeirri leið núna. Og ef við breytum ekki um stefnu munum við lenda í miklum vandræðum.“

Þá segjast sóttvarnayfirvöld á Bretlandseyjum telja innan við 8% þjóðarinnar hafa mótefni gegn kórónuveirunni. Hugsanlegt sé þó að um 17% íbúa Lundúna séu með mótefni, erfitt sé að slá því föstu.

Víða í mikilli sókn

Veiran er um þessar mundir í mikilli sókn víða um heim. Þannig fjölgaði til að mynda staðfestum tilfellum í Íran um rúmlega 3.300 á einum sólarhring. Er það mesti fjöldi nýsmita frá því í júní sl., en alls eru staðfest smit þar rúmlega 425 þúsund og dauðsföll um 24.500.

Heilbrigðisstarfsfólk í Nígeríu lagði niður störf í byrjun mánaðar til að mótmæla slæmum aðbúnaði og skorti á hlífðarbúnaði. Hópurinn hefur nú snúið aftur til vinnu, án þess þó að aðbúnaður hafi skánað, að sögn Reuters . Engin skýring hefur verið gefin á því hvers vegna verkfallinu lauk. Staðfest tilfelli kórónuveiru þar eru rúmlega 57 þúsund og dauðsföll um 11 þúsund talsins.