Bryndís Pétursdóttir leikkona lést sl. mánudag, 21. september, tæplega 92 ára að aldri. Bryndís fæddist 22. september 1928 á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði en flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur er hún var sex ára.

Bryndís Pétursdóttir leikkona lést sl. mánudag, 21. september, tæplega 92 ára að aldri.

Bryndís fæddist 22. september 1928 á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði en flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur er hún var sex ára. Foreldrar hennar voru Pétur Sigurðsson, bóndi og vitavörður, og Guðlaug Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri.

Bryndís gekk í Verzlunarskóla Íslands en fór 16 ára í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og útskrifaðist þaðan. Hún steig fyrst á svið undir leikstjórn Lárusar sem Cecilía í Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu 18. nóvember 1946. Hún sté fyrst leikara á svið í vígslusýningu Þjóðleikhússins sem Guðrún í Nýársnóttinni.

Í Þjóðleikhúsinu lék Bryndís uns hún lét af störfum fyrir aldurs sakir ef frá eru talin nokkur leikrit hjá Leikfélagi Reykjavíkur auk þess að taka þátt í leikriti hjá Leikfélagi Akureyrar. Á yngri árum fór Bryndís á sumrum í margar leikferðir um landið.

Meðal minnisstæðra hlutverka Bryndísar við Þjóðleikhúsið eru Rósalind í Sem yður þóknast, Helga í Gullna hliðinu ('52 og '55), Sybil í Einkalífi, Sigríður í Pilti og stúlku, Leónóra í Æðikollinum, Ismena í Antígónu Anouhils, Essí í Er á meðan er, Sigrún í Manni og konu, Doris í Brosinu dularfulla, María mey í Gullna hliðinu, Júlía í Romanoff og Júlíu, Helena Charles í Horfðu reiður um öxl, Louise í Eftir syndafallið, Vala í Lausnargjaldi, Enuice í Sporvagninum Girnd og Munda í Stalín er ekki hér. Síðast lék hún Helgu í Kaffi eftir Bjarna Jónsson á Litla sviði Þjóðleikhússins árið 1998.

Bryndís lék einnig í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Hún fór m.a. með aðalhlutverk í fyrstu íslensku talsettu kvikmyndunum Milli fjalls og fjöru og Niðursetningunum.

Eiginmaður Bryndísar var Örn Eiríksson loftsiglingafræðingur, hann lést 1996. Synir þeirra eru Eiríkur Örn, Pétur og Sigurður.