[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðríður Karen Bergkvistsdóttir fæddist 22. september 1940 í Baldurshaga á Fáskrúðsfirði. Þegar Guðríður rifjar upp æskuminningar sínar er greinilegt að hún hefur verið glatt og uppátækjasamt barn.

Guðríður Karen Bergkvistsdóttir fæddist 22. september 1940 í Baldurshaga á Fáskrúðsfirði. Þegar Guðríður rifjar upp æskuminningar sínar er greinilegt að hún hefur verið glatt og uppátækjasamt barn. „Mér fannst gaman að vera á bryggjunni og í sjóhúsinu hans pabba. Ég var ekki gömul þegar ég ásamt bróður mínum og vini hans fór með pabba á sjóinn. Það var ekki vanalegt í þá daga að stelpur færu til sjós. Við fórum á bátnum hans pabba til Djúpavogs og sváfum þar tvær nætur á milli róðra á miðin. Við vorum líka í Papey en þar var frændfólk okkar. Ég man að vinur bróður míns var mjög sjóveikur og ældi mestallan tímann. Þess á milli sagði hann með smá svekkelsi í röddinni: „Og hún ælir ekki enn.““

Guðríður fékk líka að fara með á bátnum til þess að sækja hey í Papey, en flestir voru með kindur, kýr og hænur og sumir með hesta. „Ég fór líka með pabba á bátnum til Stöðvarfjarðar til þess að kaupa mjólkurkú. Það var svo maður sem tók að sér að teyma hana eftir stíg yfir til Fáskrúðsfjarðar, en þá voru engir vegir á milli fjarðanna.“

Guðríður Karen gekk í grunnskólann á Fáskrúðsfirði og fór 18 ára í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Vefnaðurinn var það sem heillaði mest og fór hún einnig á heimilisiðnaðarnámskeið til Akureyrar. Hún vann um tíma í Amaró, sem þótti á þeim tíma ein flottasta verslun landsins. Seinna, þegar börnin voru orðin sex, kom það sér vel að kunna hannyrðir. Jólafötin á allan hópinn voru sniðin og saumuð rétt fyrir jól og oft var stuðst við nýjustu tískuna í auglýsingum dagblaðanna.

Guðríður gekk í kvenfélagið 15 ára og varð síðar formaður félagsins. Hún tók þátt í stofnun félagsheimilisins Skrúðs, en félagasamtök á staðnum áttu fulltrúa í nefndinni og var Guðríður fulltrúi kvenfélagsins. Hún var einnig í leikfélaginu og átti meðal annars stórt hlutverki í gamanleikritinu Saklausa svallaranum. Einnig starfaði Guðríður lengi í þágu Sjálfstæðisflokksins á Fáskrúðsfirði.

Guðríður man vel eftir því þegar hún fór fyrst til Reykjavíkur, enda var það heilmikið ferðalag og ólíkt því sem fólk á að venjast í dag. Hún sigldi með móður sinni með Esjunni sem var þá strandferðaskip og þær fóru frá Fáskrúðsfirði og ferðin tók mjög langan tíma. „En við mamma vorum að fara til þess að forframa okkur í borginni og heilsa upp á föðurfólkið mitt, þá helst föðursystur mína Guðríði, sem var mér kær og ég er skírð í höfuðið á,“ segir hún.

Guðríður á forláta jólakort sem hún heldur mikið upp á enda fylgir því saga. „Afi Þórður var með skrifstofu verkalýðsfélagsins á jarðhæð Baldurshaga og hann átti margar bækur og las fyrir okkur krakkana. Um haustið 1952 var hann í Reykjavík vegna veikinda. Hann vildi greinilega vera tímanlega með jólakortin því ég fékk kort frá honum í pósti í byrjun desember, en afi Þórður kvaddi þennan heim rétt fyrir jól og var jarðsunginn á milli jóla og nýárs. Jólakortið sem hann sendi mér var mér dýrmæt minning og hef ég haft það með mér í lífinu.“

Guðríður hefur komið víða við á starfsævinni og má þar nefna afgreiðslu- og verslunarstörf auk þess að sinna bónda og búi og ala upp börnin. Hún hefur rekið tvær verslanir, sá um félagsheimilið Skrúð á Fáskrúðsfirði um tíma, saltaði síld og svo var hún sundlaugarvörður í 16 ár. Á þessum tímamótum segir Guðríður að ríkidæmið sitt sé fjölskyldan sem er orðin ansi stór, en líklega muni afmælisveislan bíða betri tíma.

Fjölskylda

Eiginmaður Guðríðar er Jón B. Guðmundsson, f. 26.12. 1942, fv. sjómaður. Áður átti Guðríður dótturina Helenu, f. 14.2. 1963, með Stefáni Smára Kristinssyni, f. 5.1. 1941, d. 13.10. 1962. Helena er gift Ólafi Þóri Auðunssyni, f. 22.9. 1960. Börn Guðríðar og Jóns eru Nanna Þóra, f. 6.10. 1967, gift Árna Gíslasyni, f. 15.6. 1970; Sigurjóna, f. 9.3. 1969, gift Víglundi Þórðarsyni, f. 26.12. 1967; Guðmundur Bergkvist, f. 30.3. 1972, giftur Ólínu Björgu Einarsdóttur, f. 24.2. 1977; Þórður Már, f. 12.1. 1974, giftur THanh Tam Ha, f. 10.2. 1988, og Aðalsteinn, f. 19.11. 1975, í sambúð með Júlíönu Guðrúnu Þórðardóttur, f. 23.3. 1977. Barnabörn Guðríðar eru orðin 20 og barnabarnabörnin tvö.

Systkini Guðríðar eru Jón, f. 16.10. 1938, Rannveig, f. 26.6. 1942, og Bergþóra, f. 4.3. 1951. Einnig á hún hálfsysturina Sigurbjörgu Bergkvistsdóttur, f. 2.9. 1928.

Foreldrar Guðríðar voru Bergkvist Stefánsson, útgerðarmaður og sjómaður, f. 15.9. 1903, d. 5.6. 1986, og Nanna Steinunn Þórðardóttir, húsfreyja og fiskverkakona, f. 2.4. 1913, d. 11.11. 2003.