Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson
Eftir Helga Áss Grétarsson: "Nýmóttekin heiðursdoktorsnafnbót frá háskólanum í Istanbúl er embætti forseta MDE til vansa. Dómgreindarleysi af þessu tagi ætti að hafa afleiðingar."

Hinn 3.-5. september sl. fór starfandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í opinbera heimsókn til Tyrklands þar sem hann m.a. tók á móti heiðursdoktorsnafnbót við ríkisháskólann í Istanbúl. Þótt ástæða væri til að fjalla um aðra þætti heimsóknarinnar verður hér eingöngu vikið að móttöku þessarar nafnbótar.

Akademískt frelsi og helstu ógnir við það

Í akademísku frelsi felast gildi sem byggjast á sannleiksleit og rétti einstaklings til að tjá sig án íþyngjandi takmarkana. Akademískir starfsmenn háskóla eiga því að hafa meira hugrekki en ýmsir aðrir við að tjá skoðanir sem fara gegn straumi almenningsálitsins. Oft á tíðum er því freistandi fyrir ráðandi öfl í hverju samfélagi, ekki síst stjórnvöld, að hrinda af stað atburðarás þar sem akademískir starfsmenn eiga á hættu að missa starf sitt og jafnvel frelsi.

Um langt árabil hefur legið fyrir að akademískt frelsi á undir högg að sækja í ýmsum háskólum Tyrklands. Sem dæmi, jafnvel fyrir valdaránstilraunina í júlí 2016 höfðu margir tyrkneskir háskólamenn glatað mikilvægum réttindum vegna þess eins að hafa ritað undir áskorun til stjórnvalda um að láta af herskárri stefnu í garð Kúrda þar í landi, sbr. t.d. skýrslan Academic Purge in Turkey, executive summary , útgefin í febrúar 2020, bls. 1. Ríkisháskólinn í Istanbúl var þar ekki undanskilinn en eftir valdaránstilraunina í júlí 2016 er talið að yfir 200 akademískir starfsmenn skólans hafi verið reknir, sjá t.d. grein fræðikonunnar Dilek Kurban sem birt var 9. september sl. á vefsíðunni verfassungsblog.de .

Forseti MDE og heiðursdoktorsnafnbót

Mál sem þessu tengjast hefur á undanförnum árum rekið á fjörur MDE. Þekking dómara við dómstólinn á stöðu mála í Tyrklandi ætti því að vera fullnægjandi, sbr. t.d. opið bréf Mehmets Altans 31. ágúst sl. til núverandi forseta MDE en Mehmet var hagfræðiprófessor við háskólann í Istanbúl á þriðja áratug áður en hann var rekinn árið 2016 og sat eftir það í fangelsi í tvö ár. Því kemur verulega á óvart að starfandi forseti MDE skuli fyrr í þessum mánuði hafa þegið heiðursdoktorsnafnbót frá ríkisháskólanum í Istanbúl. Ekki verður séð að nauðsyn hafi borið til þess, jafnvel þótt það hafi sjálfsagt verið hugmyndin að baki opinberri heimsókn forseta MDE til Tyrklands að auka líkur á að mannréttindi í landinu væru betur tryggð.

Kjarni málsins er sá að það er óeðlilegt að þiggja heiðursdoktorsnafnbót sem starfandi forseti MDE á meðan svona mörg mál eru á borði dómstólsins sem með einum eða öðrum hætti tengjast meintum mannréttindabrotum tyrkneskra stjórnvalda, þar með talið á akademískum starfsmönnum háskóla. Til þess verður einnig að líta að það virðist heyra til undantekninga að starfandi forseti MDE á hverjum tíma taki við heiðursdoktorsnafnbótum frá aðildarríkjum mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. t.d. greiningu Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu 15. september síðastliðinn, bls. 14.

Hvað svo?

Þegar á heildina er litið var móttaka heiðursdoktorsnafnbótar frá ríkisháskólanum í Istanbúl embætti forseta MDE til vansa. Starfsemi dómstólsins þurfti ekki á slíku að halda. Með réttu ætti dómgreindarleysi af þessu tagi að hafa afleiðingar.

Höfundur er lögfræðingur. helgigretarsson@gmail.com

Höf.: Helga Áss Grétarsson