Grímur Nemendur í Sjónlist Borgarholtsskóla voru ekki mikið að kippa sér upp við það að grímuskylda er á þeim sem sækja skólann um þessar mundir.
Grímur Nemendur í Sjónlist Borgarholtsskóla voru ekki mikið að kippa sér upp við það að grímuskylda er á þeim sem sækja skólann um þessar mundir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Nýr veruleiki blasir við menntskælingum sem ber nú að mæta með grímu í skólann á næstunni.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Nýr veruleiki blasir við menntskælingum sem ber nú að mæta með grímu í skólann á næstunni. Grímuskyldan er greinilega tekin föstum tökum innan veggja Borgarholtsskóla því í gær mátti sjá starfsmann í anddyri skólans með grímupakkningu sér við hlið. Eins þurfa nemendur á ný að aðlagast hólfaskiptum byggingum, fjarlægð við náungann og fjarkennslu.

„Skrítið“ var orðið sem samnemendurnir í sjónlistartíma, þau Arthúr Rós, Lady Lene, Ari og Breki Snær sammæltust um að velja til að lýsa verunni í skólanum á tímum kórónuveirunnar. Þau segja nemendur almennt jákvæða. „En sumir eru nú ekkert að virða þessa eins metra reglu,“ segir Ari og öll jánka þau því. „Þetta er orðið svolítið eðlilegt þó það sé það ekki,“ segir Lady.

Hitta vinina í matsalnum

Ungmennin kvarta ekki undan því að nota grímuna og samsinna því að þetta sé einfaldlega nauðsynlegt. Þau eru öll á fyrsta ári og mega eingöngu vera á vissum svæðum í skólanum og ganga eftir vissum leiðum til að komast inn í kennslustofu.

Spurð hvort þau séu vonsvikin að missa af félagslífinu, þá neita þau því. „Ég held að það eigi að bæta okkur það upp. Kannski verður eitthvert eitt ball sem við náum að fara á,“ segir Ari bjartsýnn.

Helst eru þau á því að þar sem þau eru nýnemar þekki þau ekkert annað og viti fyrir vikið ekki af hverju þau eru að missa. „En maður er miklu minna að hitta fólk í skólanum til að hanga,“ segir Arthúr.

Þau segjast hitta vini sína dagsdaglega en finna fyrir því að ekki má gera það sem áður þótti eðlilegt. „Að knúsa“ nefna þau, spurð um þá hluti sem þau sakna mest. „Svo er maður mjög meðvitaður þegar maður tekur í höndina á einhverjum og veltir því fyrir sér hvort maður eigi að vera að gera þetta,“ segir Breki. Aðspurð hvað þau ætli að gera í öðruvísi í skólanum þegar veirufaraldrinum lýkur þá segjast þau m.a. ætla að hitta vini sína í matsalnum.

Mjög aðlögunarhæfir

„Almennt eru nemendur mjög aðlögunarhæfir. Ég þurfti t.a.m. ekki að nefna það við neinn þegar þau komu í tíma að þau þyrftu að hafa grímu. Allir voru tilbúnir. Svo eru þau flest til í að stökkva til þegar ég boða þau til fjarkennslu,“ segir Curver Thoroddsen sjónlistakennari. „Ef eitthvað er jákvætt í þessu þá er það sú staðreynd að kennslan hefur þróast ótrúlega hratt síðan faraldurinn byrjaði. Bæði nemendur og kennarar hafa tileinkað sér kennsluaðferðir og tækni sem þau þurftu ekki að nota áður,“ segir Curver.